Heimildin hlaut tvenn verðlaun af fernum á afhendingu Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands í dag. Verðlaunin voru veitt fyrir viðtal ársins, umfjöllun ársins, rannsóknarblaðamennsku ársins og blaðamannaverðlaun ársins.
Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson er rannsóknarblaðamaður ársins. Verðlaunin fékk hann fyrir fréttaskýringu sína í Heimildinni um endurvinnsluferli drykkjarferna. Afhjúpaði rannsókn hans að fernur, sem margir Íslendingar höfðu flokkað jafnvel árum saman í þeirri trú að þær væru endurunnar, eru brenndar í sementsverksmiðjum á meginlandi Evrópu.
„Umfjöllun og rannsókn Bjartmars var umfangsmikil og teygði sig til margra landa og hafði margvísleg áhrif, meðal annars þær að breytingar urðu á stjórnendateymi Úrvinnslusjóðs og nýtt verklag var innleitt við endurvinnslu á drykkjarfernum,“ sagði í umsögn dómnefndar.
Margrét Marteinsdóttir, blaðamaður Heimildarinnar, var verðlaunuð fyrir viðtal ársins. En Margrét tók viðtal við rithöfundinn Gyrði Elíasson þar sem Gyrðir, sem hefur í gegnum tíðina forðast kastljós fjölmiðla, ræddi í fyrsta skiptið opinskátt um þunglyndi sem hann hefur glímt við í áratugi. Er ljóðlist skáldsins fléttað inn í frásögnina en Gyrðir segir sjálfur að þundlyndið sé viss þráður í gegnum öll hans verk.
Heimir Már Pétursson, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, hlaut blaðamannaverðlaun ársins. Var það fyrir ítarlega umfjöllun um kjaramál á árinu.
Verðlaun fyrir umfjöllun ársins fengu Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sævar Guðmundsson og Heimir Bjarnason hjá Reykjavík Media og Purkur kvikmyndagerð. Var það fyrir sjónvarpsþættina Storm sem fjölluðu um Covid 19-faraldurinn á Íslandi frá hliðum sem ekki höfðu sést áður í fjölmiðlum hér á landi.
Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Sunna Ósk Logadóttir, blaðamenn Heimildarinnar, voru tilnefnd til verðlaunanna. Aðalsteinn og Helgi fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, Ingi Freyr fyrir umfjöllun ársins og Sunna Ósk fyrir blaðamannaverðlaun ársins.
Athugasemdir (2)