Um komandi helgi fer fram í Rússlandi það sem kalla mætti ,,forsetakosningar.“ Enginn sem fylgist með málum í Rússlandi trúir því hins vegar að um alvöru kosningar sé að ræða. Það er í raun bara einn frambjóðandi á sviðinu, núverandi alvaldur í landinu, Vladimír Pútín.
Hann hefur verið forseti frá árinu 2000 og getur verið forseti til 2036, hann lét nefnilega breyta stjórnarskránni fyrir sig á sínum tíma með það að markmiði. Þetta er því í sjötta sinn sem hann býður sig fram.
Fáir tala um raunverulega kosningabaráttu og eini aðilinn sem gat mögulega veitt Pútín samkeppni, framboð hans var dæmt ógilt og hann því ,,fjarlægður“ af lista frambjóðenda.
Sá var Boris Nadesjdín, en hann í raun spratt fram og náði miklum fjölda undirskrifta og hans megin áhersla var að stöðva stríðið í Úkraínu, nokkuð sem má ekki tala um í Rússlandi, við því liggur fangelsisvist. Merkilegt í raun að ekki sé búið að stinga honum í steininn, en svona virkar geðþóttavald, sumum er stungið inn öðrum ekki.
Bitlausir frambjóðendur
Það eru aðrir þrír í framboði, svona til málamynda, m.a. aldraður kommúnisti, Nikolaí Karitanov, fæddur 1948 og er því 76 ára gamall. Heldur yngri er hinn þrítugi Vladislav Davankov, sem býður sig fram fyrir flokk sem kallast ,,Hin nýja þjóð“ og var stofnaður árið 2020. Davankov er sem stendur einn af varaforsetum Dúmunnar, þingsins í Kreml. Þar fær Pútín allt sitt í gegn, enda búinn að ,,afgreiða“ allt sem heitir andstaða.
Fjórði frambjóðandinn er svo frá Frjálslynda flokknum, Leoníd Slutskí, hann er 54 ára. Flokkur þessi er oft skilgreindur sem öfgasinnaður þjóðernisflokkur og leiðtogi hans var lengi einn mesti öfga-þjóðernissinni Rússlands, Vladimír Zírínovskí, sem lést úr covid árið 2022. Það er því kannski ekki miklu frjálslyndi fyrir að fara í flokknum.
Engar líkur eru á að neinn þessara frambjóðenda muni ógna veldi og stöðu Vladimírs Pútíns, sem sjálfur er orðinn 71 árs gamall og því ekkert unglamb lengur. Enda er það ekki meiningin, þessar ,,kosningar“ eru aðeins til málamynda. Svona til þess að gefa það í skyn að Rússland sé lýðræðisríki. Sem það er órafjarri eins og staðan er í dag. Því í Rússlandi getur þú lent í fangelsi ef þú til dæmis skýrir wi-fi netið þitt ,,Lifi Úkraína“ (sjá hér).
Allsherjarstríð gegn Úkraínu
Vladimír Pútín breytti Evrópu og heiminum, þegar hann ákvað að ráðast inn í Úkraínu í lok febrúar árið 2022, fyrir rétt rúmum tveimur árum. Hann hóf þar með allsherjarstríð gegn úkraínsku þjóðinni og öllu sem úkraínskt er. Pútín eirir engu og her hans ræðst á allt sem hægt er að ráðast á. Hefur yfir 1000 skólabyggingum og tugum safnabygginga verið rústað með eldflauga og drónaárásum. Híbýli almennings eru einnig skotmörk, íbúðablokkir og annað slíkt. Fangar hafa verið notaðir til grimmdarverka á vígvellinum.
Talið er að fleiri hundruð þúsund hermanna og almennra borgara hafi fallið og eru milljónir manna á flótta undan stríðinu. Allt það sem í Rússlandi samtímans mætti kalla borgaralegt samfélag hefur verið mulið í sundur. Nánast engir frjálsir fjölmiðla eru lengur starfandi og er fjölmiðlakerfi Rússlands eins allsherjar áróðursmaskína, sem dælir út lygum, hálf-sannleika og annarri upplýsingaóreiðu. Hundruðir blaðamanna hafa flúið landið eftir innrásina í Úkraínu og starfa því í öðrum löndum. Árið 2023 var Rússland í sæti númer 163 af 180 á lista yfir fjölmiðlafrelsi, sem samtökin ,,Blaðamenn án landamæra“ gáfu út.
Kæfð stjórnarandstaða
Öll stjórnarandstaða hefur verið kæfð og fyrir skömmu lést helsti andstæðingur Pútíns, Alexei Navalní, í fangelsi í Síberíu sem kallast ,,Heimskautaúlfurinn“. Þar gleypti annar ,,úlfur“ enn einn aðilann sem þurfti að ryðja úr vegi. Í eðlilegu lýðræðissamfélagi hefði Navalní gengið frjáls og fengið að bjóða sig fram og þar með stuðlað að eðlilegri pólitískri samkeppni. En auðvitað vill Pútín það ekki, það passar ekki.
Það sem er sérstakt við þessar kosningar er að nú er kosið á svæðum sem í raun tilheyra Úkraínu, þeim svæðum í Donbass, A-Úkraínu, sem Rússar hafa hernumið og vilja nú meina að tilheyri Rússlandi. Þar er nú gengið hús úr húsi og fólki jafnframt ,,boðið“ að skipta um ríkisborgararétt um leið og það ,,kýs.“ Svona er Rússland í dag.
Engar líkur eru á að neitt breytist við þessar ,,kosningar“. Pútín mun halda áfram að halda Rússum undir sínum járnhæl og stríðið mun halda áfram. Sagt er að Rússar hafi frumkvæðið um þessar mundir og að stuðningur Vesturlanda við Úkraínu sé ekki nægur. Munar þar mestu um stuðning Bandaríkjamanna, en það er í raun lítill hópur manna yst til hægri í Repúblikanaflokknum sem kemur í veg fyrir að tillögur um stuðning til handa Úkraínu nái í gegn. Svo undarlega hljómar það. Verði þetta raunin mun aðgerðaleysi vestanhafs mögulega kosta Úkraínu, Evrópu og jafnvel heimsbyggðina mikið. Meðal annars er linkind vestanhafs talin gefa Kínverjum undir fótinn með aðgerðir gegn Taívan, sem þeir álíta vera hluta af Kína.
Barátta upp á líf og dauða
Úkraína berst fyrir tilveru sinni og lífi. Rússneskum hermönnum (mörgum frá fátækari svæðum landsins, ekki borgunum) er dælt inn á víglínuna í það sem kallað er ,,kjötkvörnin“ – Rússar geta, rétt eins og í seinni heimsstyrjöld, sent eins marga menn í stríðið eins og þeim dettur í hug.
Og þar með notast við lögmálið ,,magn er gæði“ (,,quantity is quality“). Þetta lögmál er oft tengt við grimmasta leiðtoga Sovétríkjanna á 20.öld, Jósef Stalín og stríðsrekstur hans gegn nasistum eftir innrás þeirra í Sovétríkin árið 1941. Í þeim hluta stríðsins misstu Sovétmenn (Rússar og fleiri þjóðir innan Sovétríkjanna) allt að 25 milljónir manna. Úkraína missti milljónir (líka í fjöldamorðum nasista).
Stríð bæði á sjó og landi
En staðfesta Úkraínumanna er enn sögð mikil, þeir hafa ,,marga fjöruna sopið“ ef þannig má að orði komast og afar ólíklegt að þeir gefist upp fyrir Rússum, sem miðað við frammistöðu þeirra á vígvellinum, verða að teljast afar ólíklegir til þess að geta hernumið alla Úkraínu, sem er um 600.000 ferkílómetra stór, eða álíka og Frakkland. Stríðsrekstur þeirra á landi hefur undanfarið hlotið gagnrýni og verið skipt um menn á toppi hersins. En til að mynda hefur Úkraínu gengið vel að halda aftur af Rússum á Svartahafi, það gleymist nefnilega stundum að þetta er ekki bara stríð á landi, heldur líka sjó. Þar eru til dæmis mikilvægar siglingaleiðir í húfi, sérstaklega fyrir Úkraínu, til korn útflutnings.
En að loknum ,,kosningum“ heldur svo bara allt áfram, stríðið líka. Rússlandi verður áfram stýrt af valdasjúkum, fyrrum KGB-manni, sem gengur um með þá grillu í höfðinu að Úkraína eigi sér ekki tilverurétt. Á grundvelli þessarar hugmyndar er hann tilbúinn að fórna að því er virðist ótakmörkuðum fjölda mannslífa. Hversu sjúkt er það?
"Everything is a rich man's trick,, Í lok mats 2022 var á borðinu vopnahléssamningur milli Rússa og Úkraínu, þeir vantrúuðu bara gúggla (notið allar aðrar leitarvélar en Googul), enn þá ver Boris nokkur Johnson sendur til Úkraínu til að tala þarlenda ráðamenn til að skrifa ekki undir, hverjar voru hvatirnar, Lockheed martin, Boing og fleiri þurftu að losna við rusl sem leigið hefur ónotað og ekki sakar að græða smá í leiðinni. Eftir þetta var ekki aftur snúið og líkt og í Rúslandi var slögt á lýðræðinu í Úkraínu, frjáls fjölmiðlun er bönnuð. þá lést Bandaríski blaðamaðurinn Gonzalo Lira í fangelsi í Janúar, kosningum frestað og meira og meira. Þetta ömurlega stríð er í boði USA og NATO, svo að nokkrir góðvinir geti grætt aðeins meiri pening. "WAR IS GOOD FOR BUSINESS,,
Eigið góðan dag