Hve lengi skyldi Katrín Jakobsdóttir endast í þessu basli?
Frá því hún settist við borðsendann hefur hver krísan á fætur annarri dunið yfir.
Náttúruhamfarir eins og Covid og hraunið í Grindavík.
Sjálfsskaðar eins og salan á Íslandsbanka og vopnavæðing lögreglunnar.
Og klúður eins og „útlendingamálin“ og viðbrögðin við stríðinu á Gaza.
En í öllu þessu veseni blasir það við, að Katrín er líklega flinkasti forsætisráðherra síðustu áratuga.
Hún hefur stjórnað hundruðum ríkisstjórnarfunda án þess að brunavarnarkerfið færi í gang.
Hún hélt sönsum í Covidkrísunni þótt sumir meðráðherrar hennar úr stóra flokknum afneituðu ráðstöfunum áður en haninn galaði þrisvar.
Og hún hefur útskýrt og varið ákvarðanir ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma á skýran og heiðarlegan hátt, jafnvel þótt það sé lýðum ljóst að hún hefði kosið önnur málalok.
En allt hefur þetta tekið sinn toll.
Ef fagstjóri Veðurstofunnar á aflögunarsviði væri pólitískur pistlahöfundur, myndi hann líklega segja að GPS mælingar sýni aukna gliðnun innan stjórnarinnar, þótt ekkert bendi beinlínis til að kvika sé að brjótast upp á yfirborðið. En spennan í skorpunni sé svo mikil að nýjar sprungur gætu myndast án fyrirvara.
En hvað gerir Katrín?
Vill hún verða forseti? Það eru allir að að bíða frétta. Framkomnir frambjóðendur eru aðframkomnir af súrefnisleysi enda búnir að halda lengi niðri í sér andanum.
Næði hún kosningu? Já, það er næstum öruggt.
Hvernig forseti yrði hún? Glimrandi. Hún myndi sameina það besta frá forverum sínum; vísdóm Kristjáns, tign Vigdísar og hlýju Guðna.
Og hún hefði kænsku Ólafs Ragnars, án þess að þurfa endilega að ræna völdum og vilja ríkja eins og kóngur með sóm og sann, eitt sumar á landinu bláa.
Hvað myndi gerast í ríkisstjórninni? Ekkert í fyrstu, annað en að Vinstri grænir gætu kippt Ögmundi inn í staðinn, lesið bókina hans um Rauða þráðinn og orðið grænir aftur. Allir ráðherrarnir myndu sitja sem fastast enda stendur fólk ekki upp við slíkar kringumstæður nema náttúran kalli. Ráðherrastólar eru vanabindandi og stólamissir myndi valda alvarlegum fráhvarfseinkennum.
En þrýstingurinn undir pólitísku jarðskorpunni myndi aukast, fljótlega kæmi upp gosórói og ráðherrar færu að horfa á jarðskjálftamælana til fylgjast af meiri nákvæmni með stöðu Kristrúnar og Guðmundar Árna. Og þar á bæ myndu fleiri gamlir símastaurar birtast til að syngja aftur í sólskininu.
En bíðum við. Þetta er allt í viðtengingarhætti: Katrín næði, yrði eða myndi. Fréttastofa RÚV er búin að einfalda málfræðina og leggja viðtengingarháttinn niður. Spurningin er: Gefur Katrín kost á sér eða ekki?
Hún gerir það ekki.
Af hverju?
Af sömu ástæðu og hún hefur verið frábær forsætisráðherra. Hún er svo samviskusöm. Hún vill ekki vera sökuð um að stökkva frá borði. Tímasetningin passar henni ekki. Hún hefði þurft tvö ár í viðbót. Ef Guðni hefði bara verið einu kjörtímabili lengur.
Hvað gerum við nú?
Við leggjum embættið bara niður. Það er í rauninni engin þörf á því og við getum ekki tekið áhættuna á að einhver komi inn í það beint af fjöllum á 10 prósentum atkvæða.
Athugasemdir (3)