Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp þar sem kínverskum eiganda TikTok er gert að selja sinn hluta í samfélagsmiðlinum. Verði hann ekki að þeirri beiðni mun TikTok vera bannað í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vef New York Times.
Frumvarpið er hugsað sem vörn Bandaríkjanna gegn Kína þar sem TikTok hefur verið sakað um gagnasöfnun á fólki. Telur þingið þetta varða þjóðaröryggi, málfrelsi og samfélagsmiðlarekstur í heild sinni.
Áður reynt að banna Tiktok
Árið 2020 reyndi Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fyrst að banna TikTok á grundvelli þjóðaröryggis en mistókst. Í mars 2023 lýsti Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, yfir sömu áhyggjum. Stjórn Bidens hótaði mögulegu banni á appið verði ekki skipt um eigendur þess. Forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar sagði auðvelt fyrir Kínverja að nota appið til þess að safna gögnum um bandarískan almenning.
Sterk samstaða hefur ríkt milli Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins um þetta mál. Flokkarnir tveir lögðu fram sameiginlegt frumvarp fyrir ári síðan sem ætlað er að heimila þinginu að banna öpp sem talin eru ógna öryggi almennings. Leiðtogi Repúblikana flýtti frumvarpinu í gegnum þingið og voru umræður takmarkaðar. Frumvarpið var samþykkt í dag með 352 atkvæðum gegn 65.
Mike Gallager, þingmaður Repúblikana í Wisconsin, einn málflutningsmanna frumvarpsins, sagði ákvörðina skynsamlega og til þess gerða að vernda þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Tiktok hefur sagt að það verndi persónuupplýsingar bandarískra notenda sinna og veiti þriðja aðila eftirlit á samfélagsmiðlinum. Tiktok hafnar því ásökunum bandarískra þingmanna um að forritið safni persónuupplýsingum eða reyni að hafa áhrif á skoðanir Bandaríkjamanna.
Athugasemdir (1)