Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti er rétt að beina kastljósinu þangað sem verk er að vinna og þrýsta á stjórnvöld Íslands að gera sitt besta í þágu friðar og jafnréttis. Nú eru liðnir fimm mánuðir frá því að hörmungarnar hófust, sem nú einkenna líf palestínskra kvenna og barna á Gaza. Við horfum upp á vanhæfi alþjóðastofnana sem skyndilega hafa enga burði til að standa undir nafni og stöðva dagleg og skipulögð morð á börnum og konum. Árásir Ísraelskra stjórnvalda á palestínsku þjóðina eru ekki aðeins með hernaði, eyðileggingu og yfirtöku lands heldur liggur nú fyrir að gengið hafi verið í skrokk á konum og stúlkum með líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, pyndingum og aftökum.
Íslensk stjórnvöld hafa því miður nýlega stigið skref sem grafa undan friði og jafnrétti, með frystingu greiðslna til UNRWA, flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu, á sama tíma og ísraelsk stjórnvöld stunda þjóðarmorð á palestínskum borgurum á Gaza. Frysting framlaga þjóða til UNRWA getur leitt til algers hruns á mannúðarkerfinu á Gaza og haft skelfilegar afleiðingar. Frysting framlaganna er grimmileg refsing gagnvart fólki sem hefur ekki annað gert af sér en vera frá Palestínu. Aðgerðin er illa rökstudd, ómannúðleg og jafngildir því að snúa bakinu við fólki í sárri neyð. Þessi aðgerð sem er á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar, mun ekki gera neinn öruggari í þessum heimi, og í óöruggum heimi fjarar hratt undan jafnrétti.
Á meðan að íslenska ríkisstjórnin sýndi mikinn seinagang við að sækja fólk á Gaza með samþykkta fjölskyldusameiningu á Íslandi, hafa íslenskir sjálfboðaliðar, flestar konur, gripið til aðgerða og bókstaflega farið og sótt fólk á landamæri Gaza og Egyptalands. Konur hafa safnað fjármunum og lagt út fyrir aðgerðum á eigin kostnað. Hér eru konur að verja ráðstöfunartekjum sínum til að bjarga mannslífum og forða í leiðinni íslensku samfélagi frá ævarandi skömm með athafnaleysi sínu þegar að það sem átti aldrei aftur að gerast, gerðist á okkar vakt.
Um þessar mundir dynur á okkur öflug auglýsingaherferð banka þar sem konur eru hvattar til að fjárfesta. Réttilega er bent á að ekki er jafnræði milli kynja þegar kemur að lífeyriseign, sparnaði eða þátttöku á fjármálamörkuðum. Minna er fjallað um ástæðurnar en hér eru nokkrar: Kynbundinn launamunur, kynskiptur vinnumarkaður, vanmat „kvennastarfa“, ójöfn ólaunuð heimilisbyrði, ójöfn taka fæðingarorlofs, hakkað leikskólakerfi, og núna það að konur ráðstafi peningum sínum í að bjarga mannslífum á meðan að ríkisstjórn Íslands hefur dregið lappirnar og með frystingu framlaga til UNRWA lagt sitt að mörkum með einstöku framlagi til að gera líf kvenna og stúlkna á Gaza verra. Kaldar kveðjur frá jafnréttisparadísinni Íslandi.
Við sendum hlýrri kveðjur með því að mæta í Kvennagöngu frá Arnarhóli í dag 8. mars kl. 17, til að sýna samstöðu með íbúum Palestínu. Stjórn femínískra fjármála hvetur öll til að mæta og sýna samstöðu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti. Ekkert okkar er raunverulega frjálst fyrr en frelsið nær til okkar allra.
Athugasemdir (1)