„Ég held að kærur séu í sjálfu sér ekkert frábær mælikvarði á það hvort að kynferðisbrot séu færri eða fleiri. Það er lítið brot sem kærir,“ segir Drífa Snædal, talsmaður Stígamóta. Í dag kom út ný skýrsla frá Ríkislögreglustjóra þar sem kemur fram að ekki hafa komið jafn fáar tilkynningar um kynferðisbrot til lögreglu síðan árið 2017.
Í skýrslunni kemur fram að tilkynningar um nauðganir og kynferðisofbeldi gegn börnum fækkar umtalsvert. Um 45% brotaþola eru börn.
Í tilkynningu Ríkislögreglustjóra segir að „þegar litið er til kynferðisbrota sem tilkynnt eru lögreglu árið 2023 má sjá að tilkynnt brot voru 521 talsins á árinu 2023 eða 15% færri en að meðaltali samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.“
Finna ekki fyrir fækkun á komum til Stígamóta
Drífa segir að þau hjá Stígamót finni ekki fyrir neinni fækkun á fólki sem leitar til þeirra vegna kynferðisbrota. „Það sem ákveður það hvort að fólk kærir kynferðisbrot er traust gagnvart lögreglunni, traust á kerfinu, stuðningur til þess að kæra og svo framvegis. Þannig það eru önnur öfl í gangi sem gefa mynd af því hvort að kærur séu fleiri en færri heldur en tíðni kynferðisbrota.“
Tilkynningar um nauðganir til lögreglunnar á síðasta ári voru 184. Þar af voru 121 sem áttu sér stað á síðasta ári. „Tilkynntum nauðgunum fækkaði um 13% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan“ kemur fram í tilkynningunni.
„Við höfum verið að sjá það gegnum gangandi hér hjá Stígamótum í gegnum tíðina að það er rétt rúmlega 10% prósent sem koma til okkar sem að hafa kært. Þetta er nú ekki hátt hlutfall,“ segir Drífa.
Athugasemdir