Það sem Vinstri græn ætla að gera til að falla ekki af þingi
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Það sem Vinstri græn ætla að gera til að falla ekki af þingi

Sama dag og Vinstri græn héldu flokks­ráðs­fund birt­ist könn­un sem sýndi að flokk­ur­inn myndi falla af þingi. Á fund­in­um voru sam­þykkt­ar álykt­an­ir þar sem ýms­ir mála­flokk­ar, stýrt af sam­starfs­flokk­um Vinstri grænna í rík­is­stjórn, voru harð­lega gagn­rýnd­ir, stuðn­ingi lýst við fram­göngu Svandís­ar Svavars­dótt­ur og göm­ul stefnu­mál sett aft­ur á odd­inn.

Í fyrsta sinn síðan á stofnári sínu rétt fyrir síðustu aldamót mælast Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, með svo lítið fylgi í könnun hjá Gallup að það myndi ekki nægja til að koma þingmanni að. Einungis 4,7 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa flokkinn. Fylgishrunið er ekki nýtilkomið. Flokkurinn hefur ekki mælst með meira en 6,1 prósent fylgi frá því í fyrravor, og ekki mælst með fylgi í tveggja stafa tölu í tæp tvö ár. Staðan fær þó á sig nýjan blæ þegar það blasir við, rúmu ári fyrir næstu kosningar haldi ríkisstjórnin út kjörtímabilið, að ef kosið yrði í dag myndi það gerast í fyrsta sinn í Íslandssögunni að flokkur forsætisráðherra myndi falla af þingi.

Flokkur sem mældist stærstur allra mánuði fyrir kosningarnar 2017, með tæplega 26 prósent fylgi, og ákvað, þrátt fyrir að vera samkvæmt skilgreiningu róttækur vinstri flokkur, að mynda óvenjulega ríkisstjórn þvert á hið pólitíska litróf eftir þær með því að setjast að völdum með þeim tveimur flokkum sem ráðið hafa Íslandi meira og minna frá því að landið fékk fullveldi, miðjuflokknum Framsókn og hægra íhaldinu í Sjálfstæðisflokknum. 

Nú blasir við að fylgi Vinstri grænna er tæplega einn fimmti af því sem það var þegar Katrín varð vonarstjarna margra kjósenda á Íslandi, sem vonuðust eftir auknum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum eftir glundroða áranna á undan. Það má segja að Katrín og Vinstri græn hafi náð árangri í þeirri viðleitni, enda hefur stjórn hennar, skipuð ofangreindum flokkum, nú setið í vel á annað kjörtímabil, og varð árið 2021 fyrsta stjórnin til að sitja sem meirihlutastjórn í heilt kjörtímabil frá árinu 2007. 

Fórnarkostnaðurinn hefur þó verið mikill. Allir stjórnarflokkarnir hafa tapað miklu fylgi og allir mælast nú með minna fylgi en þeir hafa nokkru sinni fengið minnst í kosningum. Einungis þriðjungur þjóðarinnar styður stjórnina. Enginn þeirra hefur þó tapað jafn mikilli tiltrú hjá kjósendum sínum og Vinstri græn, sem standa nú frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd að ákvörðun um mynda ríkisstjórn með Framsókn og Sjálfstæðisflokki geti leitt til þess að flokkurinn leggist niður sem stjórnmálaafl. 

Íhuga stöðu sína en finnst kjósendur ekki sjá veisluna

Viðbrögð Katrínar við könnun Gallup voru tvíþætt. Annars vegar voru þau kunnugleg, og í takti við fyrri viðbrögð, þar sem hún sagði í samtali við RÚV að vandamálið virtist liggja í því að Vinstri grænum væri ekki að takast að miðla þeim góða árangri sem flokkurinn hefði náð í ríkisstjórn til kjósenda. „það er alveg ljóst að við sem teljum að við höfum náð umtalsverðum árangri að það er greinilega ekki að skila sér til þjóðarinnar.“

Blendnar tilfinningarFlokksráðsfundurinn var haldinn í skugga þess að ný könnun sýndi Vinstri græn með svo lítið fylgi að flokkurinn næði ekki inn á þing ef kosið yrði í dag.

Hins vegar sagði Katrín, í ræðu sem hún flutti blaðlaust á flokksráðsfundi Vinstri grænna á föstudag, að staðan væri þannig að hún, og aðrir sem stýra flokknum, þurfi að íhuga stöðu sína. Þegar hún hefur verið beðin um að skýra þau orð þá hefur forsætisráðherra þó sagt að í þeim felist ekki að hún sé að hugsa um að hverfa úr forystu flokks síns.

Flokksráð Vinstri grænna fer með æðsta vald flokksins milli landsfunda. Þar er staðan mörkuð, og eftir atvikum endurstillt ef þörf er á. Að minnsta kosti í orði þótt það sé ekki alltaf þannig á borði. 

Fundir ráðsins fara fram að vori og snemma hausts á hverju ári. Í fyrra bættist við landsfundur hjá flokknum milli flokksráðsfunda, þar sem helsta forystufólk, formaður og varaformaður, voru endurkjörin í embætti sín. Það hefur því ekki skort tækifæri hjá þungavigtarfólki í flokknum til að setjast niður og ræða stöðuna síðastliðið ár. 

Á landsfundinum í fyrra söng annar helmingur vandræðaskálda fyrir fundarmenn lag sem hét „Það gæti verið verra“, með skírskotun til slakrar stöðu flokksins í könnunum. Þá mældist fylgið 7,1 prósent. Lagið vakti mikla kátinu

Í ræðu sinni á föstudag sló Katrín Jakobsdóttir á létta strengi með fylgisleysi flokksins, sem hafði á því ári sem liðið var frá landsfundi orðið umtalsvert verra, og minnkað um þriðjung. Það væri nú svo slakt að „bara batnað“, samkvæmt frásögn mbl.is af ræðunni. Flokkurinn myndi rísa upp eins og Þorvaldur Örlygsson, sem nýverið vann formannskosningu innan Knattspyrnusambands Íslands. 

Beinskeytt gagnrýni á stefnu Bjarna

Í ræðu sinni sagði Katrín líka að Vinstri græn þyrftu að taka samtal um hvaða skilaboðum hann vildi koma á framfæri til kjósenda. Þau skilaboð voru svo formgerð í ályktunum sem flokksráðið samþykkti á fundinum á laugardag. Í þetta skiptið voru ályktanirnar, að uppistöðu, um samansafn af málum sem Vinstri græn hafa haft ofarlega á stefnuskrá sinni en ekki náð í gegn í ríkisstjórnarsamtarfi síðustu sex og hálfa árið og hins vegar skörp gagnrýni á málaflokka sem samstarfsflokkar Vinstri grænna fara með í því ríkisstjórnarsamstarfi. 

„Frysting fjármagns eykur aðeins á þjáningar“
Úr ályktun flokksráðs Vinstri grænna um framlög til UNRWA

Í almennri stjórnmálaályktun áréttaði fundurinn til að mynda að Íslandi yrði að tryggja UNRWA, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, fjárhagsstuðning. „Frysting fjármagns eykur aðeins á þjáningar þeirra milljóna flóttamanna í Palestínu sem reiða sig á UNRWA.“ Sá sem tók ákvörðun um að frysta fjárhagsstuðning til UNRWA er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra. Það gerði hann í janúar eftir að Ísraelar sökuðu hluta starfsmanna stofnunarinnar um að hafa með einhverjum hætti átt aðild að árás Hamas á Ísrael þann 7. október í fyrra. Í sérstakri ályktun um málefni Palestínu segir að Ísland eigi ekki að „taka þátt í óréttmætri hóprefsingu annarra vestrænna ríkja sem bitnar á lífsbjörg milljóna almennra borgara“ og þess krafist að framlögin til UNRWA verði greidd tafarlaust.

Vilja hætta brottvísunum Palestínufólks

Málefni Palestínu voru flokksráðinu svo hugleikin að það var ekki einungis fjallað um þau í almennu stjórnmálaályktuninni heldur einnig lögð fram sérstök ályktun bara um það efni. Þar hvatti fundurinn ráðherra hreyfingarinnar til að beita sér enn frekar fyrir aðgerðum til að sameining palestínskra fjölskyldna verði að veruleika, en ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd víða fyrir að geta ekki komið fjölskyldum sem eru þegar með landvistarleyfi hérlendis út af Gaza og til Íslands. Það hafa íslenskir sjálfboðaliðar hins vegar getað gert. 

Í ályktuninni segir að það sé mikilvægt að forysta og ráðherrar Vinstri grænna tjái afstöðu flokksins með skýrum hætti og að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fólki án tafar af hættusvæðinu á Gaza. „Flokksráðsfundurinn krefst þess einnig að þegar í stað verði látið af brottvísunum á palestínsku flóttafólki og því veitt vernd á Íslandi. Sjötíu og fimm ára útþenslustríði Ísraels gagnvart nágrönnum sínum ber að fordæma og bregðast við rétt eins og ofríki rússneskra yfirvalda gagnvart sínum nágrönnum. Þá styður flokksráð eindregið sniðgöngu almennings á vörum og þjónustu frá Ísrael.“

Gagnrýni á samstarfsráðherra

Fundurinn lýsti yfir áhyggjum af þróun skólamála á Íslandi meðal annars með vísun í niðurstöður PISA-könnunarinnar, fagnaði þeim árangri sem náðst hefur í að draga úr kostnaði sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi, en lýsti „áhyggjum af aukinni áherslu á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, kerfi sem á ekki að vera gróðalind fárra rekstraraðila heldur sameiginlegt velferðarkerfi okkar allra.“ Þessari gagnrýni er beint gegn Ásmundi Einari Daðasyni, sem fer með menntamál í ríkisstjórninni, og Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, sem hefur leitt þögula einkavæðingu og aukinn einkarekstur í íslensku heilbrigðiskerfi á síðustu árum og er með frekari áform í þá veru.

Í sérstakri ályktun var afstaðan gegn stefnumótun Willums Þórs sérstaklega undirstrikuð. Þar sagði að það þyrfti að taka þá auknu áherslu sem verið hefur á einkarekna heilbrigðisþjónustu á síðastliðnum tveimur árum mjög alvarlega. „Fundurinn telur að þessu fylgi umtalsverð hætta á tilfærslu mannauðs og fjármuna úr opinberri heilbrigðisþjónustu, sem koma muni niður á aðgengi og þjónustu heilsugæslu og sjúkrahúsa. Með samningsgerð heilbrigðisráðherra við sérgreinalækna hefur verið fest í sessi það fyrirkomulag að þjónusta þeirra sé óaðgengileg öðrum en þeim sem búa á eða nærri höfuðborgarsvæðinu.“

Málin sem flokkurinn hefur ekki náð í gegn

Tvö af stærstu málum Vinstri grænna þegar þau lögðu upp í stjórnarsamstarfið árið 2017 voru að koma á koppinn miðhálendisþjóðgarði á Íslandi og breytingum á stjórnarskrá. Hvorugt hefur gengið hingað til, þrátt fyrir að hafa verið í stjórnarsáttmála, vegna andstöðu samstarfsflokka Vinstri grænna í ríkisstjórn. 

Í almennu stjórnmálaályktuninni er kallað eftir því að „stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands og sunnanverðum Vestfjörðum til verndar víðernum og lífbreytileika“ og Alþingi afgreiði „tillögur til breytinga á stjórnarskrá sem hafa verið boðaðar af forsætisráðherra og byggja á vinnu undanfarinna ára.“ 

Þá eru ótalin mál á forræði ráðherra Vinstri grænna sem hafa verið í miklum ágreiningi milli stjórnarflokkanna, sérstaklega milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Um er að ræða hitamál sem heyra undir matvælaráðuneytið, sem Svandís Svavarsdóttir stýrir vanalega. Svandís er í veikindaleyfi sem stendur eftir að hafa greinst með krabbamein og forsætisráðherra stýrir ráðuneyti hennar á meðan. 

Fullum stuðningi lýst við ákvörðun Svandísar

Tilkynnt var um veikindaleyfið sama dag, 22. janúar, og til stóð að leggja fram vantrauststillögu á Svandísi vegna meðhöndlunar hennar á málum tengdum hvalveiðum sem óljóst var hvort ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokks ætluðu að verja hana gagnvart. Flokksráðsfundurinn lýsti yfir eindregnum stuðningi við þá áherslu Svandísar að standa með lögum um velferð dýra við veiðar á hvölum. „Flokksráðsfundurinn styður matvælaráðherra í að færa lög um hvalveiðar til nútímans og áréttar í því samhengi stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að ekki eigi að leyfa þær.“

SamþykktFlokksráðsfundurinn studdi ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur sem leiddi næstum til þess að vantrausttillaga var lögð fram gegn henni. Hann studdi líka áherslur hennar um breytta löggjöf í fiskeldi og sjávarútvegi, sem eru afar umdeildar inn í ríkisstjórn.

Það voru þó ekki einungis hvalveiðimál sem gerðu Svandísi óvinsæla á meðal sumra samráðherra sinna, og þingmanna úr þeirra flokkum. Hún hefur líka unnið markvisst að því að breyta löggjöf í kringum sjávarútveg, undir merkjum Auðlindarinnar okkar, en þær tilraunir hafa mætt mikilli andstöðu útgerðarmanna og ýmissa valdamikilla aðíla innan Sjálfstæðisflokksins sérstaklega. Þá hafa áform hennar um að sníða skýrari ramma utan um fiskeldi á Íslandi einnig mætt mótstöðu innan ríkisstjórnar. Í ályktun Vinstri grænna nú er stuðningi lýst yfir við öll þessi mál Svandísar. Þqar er lagt til að lög um hvalveiðar verði endurskoðuð og sagt að það sé „ löngu orðið tímabært að Alþingi taki raunverulega afstöðu til hvalveiða.“ Þar er kallað eftir því að frumvarp um breytingar á rammanum utan um fiskeldi verði að lögum og að vinnu við Auðlindina okkar verði lokið og lagafrumvarp lagt fram.

„Markvissar aðgerðir gegn stéttskiptingu og fátækt“

Vinstri græn hafa verið gagnrýnd, innan og utan frá, á síðustu árum fyrir að gefa of mikið eftir að grunngildum sínum sem vinstri flokkur með sérstaklega róttækar áherslur í umhverfis- og jafnréttismálum í skiptum fyrir völd í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. 

Flokkurinn notaði tækifærið á föstudag til að reyna að leiða þeir áherslur aftur fram með skýrum hætti. Í almennu stjórnmálaályktuninni segir að stjórnvöld eigi að liðka fyrir gerð kjarasamninga, og tryggja þannig forsendur fyrir verðbólgu og stýrivexti til að lækka, með félagslegum aðgerðum. „Sérstök áhersla verði á að styðja við fólk á húsnæðismarkaði, auka framboð á leiguíbúðum og styðja við barnafjölskyldur og tryggja þannig betur lífsgæði fólksins í landinu. Alþingi getur stigið mikilvægt skref sem spara mun heimilunum milljarða króna í ónauðsynleg útgjöld með samþykkt frumvarps um innlenda greiðslumiðlun.“

Þá ályktaði fundurinn að brýnt væri að stjórnvöld myndu ráðast „í markvissar aðgerðir gegn stéttskiptingu og fátækt“, sérstaklega barna, meðal annars með því að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar, lýst var yfir „áhyggjum af því bakslagi sem sést hefur víða um heim í jafnréttis- og kvenfrelsismálum“ og áréttað „að jafnvægi þarf að vera milli loftslagsaðgerða og náttúruverndar og að forgangsraða eigi orku til innlendra orkuskipta“.

Vilja sjálfstætt umhverfisráðuneyti

Gagnrýni innan flokks hefur ekki síður verið vegna þessa að Vinstri græn gáfu eftir umhverfisráðuneytið við síðustu stjórnarmyndun og eftirlétu Sjálfstæðisflokknum það. Ekki nóg með það heldur var ráðuneytið sameinað orkumálaráðuneytinu. Með því voru málaflokkarnir tveir sem í huga margra umhverfisverndarsinna eru andstæðir pólar, sá sem snýr að orkuöflun og sá sem snýr að því að láta náttúruna njóta vafans, komnir í eina sæng undir stjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. 

Ljóst er að þessi ráðstöfun situr í flokksfólki. Á fundinum var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að hafa sjálfstætt starfandi umhverfisráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. “Í slíku ráðuneyti er mikilvægt að halda skyldum málaflokkum saman þ.m.t. allt sem varðar umhverfismál, vernd og endurheimt vistkerfa, vernd náttúruminja, friðlýsingar svæða, loftslagsmál og vernd lífbreytileika“.

Áhugi Vinstri grænna á lífbreytileika nær raunar lengra. Flokksráðsfundurinn fól þingflokki flokksins að útfæra tillögu um stofnun lífbreytileikaráðs. „Ráðið skal vera sjálfstætt starfandi og veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald við eftirfylgni þeirra skuldbindinga og markmiða sem stjórnvöld hafa sett sér varðandi lífbreytileika. Horfa má til reynslu Loftslagsráðs sem sinnir sambærilegu hlutverki innan stjórnsýslu loftslagsmála.“

Kjósa
69
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (6)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Omar Sigurjónsson skrifaði
    VG var með þetta í hendi sér, gàtu slitið ríkissstjórnarsamstarfinu í haust en àjvàðu að taka sjénsinn en nú er það orðið of seint, þau vissu hvert stefndi en gerðu ekkert, að skjóta sig viljandi í bàðar fætur er glórulaust.
    4
  • Hjördís Heiðrún Hjartardóttir skrifaði
    Illa fer þarna saman mál og mynd. Öll loforð svikin, Íslandsbankasalan látin óátalin, þagað um gróðavæðingu heilbrigðis og öldrunarþjónustu o.s. frv. o.s.frv. ég get alls ekki munað eftir neinu jákvæðu að segja um VG síðustu ár. Allt virðist gefið eftir fyrir ráðherrastólana. Ég tók þátt í að stofna þennan flokk, en orðið ansi langt síðan ég hef kosið hann og virðist útséð um að það gerist nokkurn tíman aftur.
    6
  • Valtýr Kári Finnsson skrifaði
    Ef að Katrín og vinstri-grænir mundu sjá til þess að Bjarni Ben og félagar hans yrðu sóttir til saka fyrir Íslandsbankaránið. Sækja þá peninga sem var stolið frá Íslensku þjóðinni. Og koma í veg fyrir að Þórdís og sjálftökuliðið steli því sem eftir er ... þá mundi ég alla vegana íhuga að kjósa þau aftur.

    En það vita allir að það mun aldrei gerast. Og því vona ég að þessi samtíningur af svikurum og lygurum hverfi af þingi í næstu kosningum, og þurkist af yfirborði jarðar!
    5
  • GK
    Gísli Kristjánsson skrifaði
    Megi þessi svika-hreyfing hverfa, í eitt skipti fyrir öll, niður í hyldýpi gleymskunnar. Það er alveg sama hvaða mál hún "setur á oddinn", ég myndi aldrei kjósa hana. Aldrei!

    Vonandi fer Katrín Jakobsdóttir af sviði þjóð- og stjórnmála og snýr sér að einhverju allt öðru í framtíðinni.
    5
  • Bryndís Dagbjartsdóttir skrifaði
    Of lítið og of seint. Ályktanir eru eitt en verkin verða að fylgja og það er vandamálið hjá öllum flokkum að efndir skortir alltaf. Ég tel mig með ágætis minni og man samt ekki í svipinn eftir einu einasta stefnumáli þessara ríkisstjórnarflokka sem hefur bætt hag hins almenna íslendings, allt hefur miðað að því að bæta hag hinna best settu.
    11
  • Kári Jónsson skrifaði
    XV-fólkið hefur GÚFFAÐ í sig allar mögulegar og ómögulegar skítaklessur Valhallar síðastliðin 6ár og látið sér vel líka, ráðgjafarnir Hégómi, Hroki, Þrælslund og Hræsni hafa verið tíðir gestir hjá ráðherrum xV og ráðleggja núna þegar xV er rúið öllu trausti kjósenda sinna að xV skerpi á stefnumálum sínum og fyrri sig ábyrgð á gjörðum sínum. Ókeypis ráð til formanns og þingflokks REKIÐ RÁÐGJAFANNA tafarlaust pantið tíma á Bessastöðum og slítið ríkisstjórninni strax í dag, þá gæti verið von um 5% fylgi í kosningunum.
    21
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár