Í gær beið Evelyn Rodriguez, framkvæmdastjóri og eigandi Cocina Rodriguez í Gerðubergi, óþreyjufull heima hjá sér í Safamýrinni eftir fötluðum syni sínum, John Rodriguez. Átti hann að vera á leiðinni heim með bílstjóra frá Hreyfli á vegum Pant sem annast akstursþjónustu fyrir fatlaða í Reykjavík. Þegar hann skilaði sér ekki heim hringdi Evelyn á lögregluna.
Evelyn hringdi í Pant en þar svaraði enginn. Hún reyndi að hafa samband við skólann en fékk á sama tíma hringingu úr númeri sem hún þekkti ekki. Í símanum var starfsmaður frá íþróttahúsi Víkings. Evelyn var tjáð að John væri þar. Starfsmaðurinn vissi ekki hvers vegna John hefði verið skilinn eftir eða hvað hefði orðið af bílnum sem átti að sækja hann. „John kom inn í húsið með buxurnar alveg á hælunum. Hann var búinn að pissa og kúka á sig.“
John talar ekki og er með litningagalla, flogaveiki og einhverfu. Hann þarf stuðning við allar daglegar athafnir og er með 100% stuðning í skólanum.
Sjálf hefur Evelyn, sem kemur upprunalega frá Dóminíska lýðveldinu og bæði á og rekur sinn eigin veitingarekstur, áður lent í því að leita sonar síns eftir að hann skilar sér ekki úr skutlþjónustu.
Upplifir að öllum sé sama
„Ég var búin að hringja í lögregluna,“ segir Evelyn. Hún var ósátt með vinnubrögð lögreglunnar. Þau komu ekki inn að ræða við hana þar sem henni þykir þetta mjög alvarlegt að John sé skilinn einn eftir án eftirlits. Þau höfðu engar frekari spurningar. „Þau bara, er þetta John, hann er kominn heim. Við ætlum að bóka þetta hjá okkur og bless.“
„Hann er það fatlaður að það á að afhenda hann hönd í hönd. Það er ekki verið að sækja einhverja venjulega manneskju,“ sagði Evelyn.
John var í miklu uppnámi í gær. „Í gær var hann bara í fanginu á mér með hraðan hjartslátt.“ Hann bar þess merki að hafa upplifað djúpstæðar tilfinningar, án þess að hafa getuna til að tjá þær. „Hann veit ekki hvernig hann á að segja að honum líði illa eða sé illt. Ég get ekki vitað hvernig hann er að hugsa um það sem gerðist. Ég veit það ekki.“
„Ég er bara ennþá í sjokki“
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem John er skilinn svona eftir. Í maí árið 2022 átti bílstjóri frá Hreyfli, sem keyrir fyrir Pant akstursþjónustu, að skutla John heim. Hann skilaði sér hins vegar ekki. „Ég stóð í eldhúsglugganum, með opna hurð og beið og beið en það kom enginn bíll. Allt í einu birtast nágrannar mínir með John. Þau halda í hendina á honum og koma með honum inn. Hann fann John bara úti á götu.“
Þegar Evelyn heyrði í Pant tjáðu þau henni að leigubílstjórinn skildi hann eftir vegna þess að John hefði labbað inn. „Ég spurði, labbaði inn hvert? Hann veit ekki einu sinni hvar hann á heima. Hann er svo fatlaður að hann veit það ekki.“
Lítið um viðbrögð
Þrátt fyrir að hafa haft samband við deildarstjóra Pant, Sturlu Halldórsson, og framkvæmdastjóri Hreyfils, Harald Axel Gunnarsson, hefur Evelyn aldrei fengið að vita neitt meira en að bílstjórinn sem átti að keyra John heim í maí í fyrra hefði fengið tiltal. Hún fékk loforð frá Pant að þeir ætluðu að sjá til þess að þetta myndi ekki gerast aftur „og bla, bla, bla. Svo gerist það nákvæmlega sama aftur,“ segir hún.
„Svona fólk á ekki að keyra fyrir ferðaþjónustuna. Svona fólk á ekki að vinna fyrir fatlað fólk. Svo fór ég að hugsa, kannski er þetta bara sama manneskja?“
Í samtali við blaðamann Heimildarinnar var Evelyn gráti næst. „Það gæti eitthvað komið fyrir barnið mitt og enginn er að hugsa um það.“
„Fólkið sem er að keyra fatlað fólk er fólkið sem á að taka ábyrgð á því og sýna fólki virðingu. Þetta er fólk sem getur ekki tjáð sig.“
Akstursþjónusta fatlaðra tók fyrir þremur árum upp heitið Pant akstur. Við þær breytingar var ákveðið að hlutfall leigubílaaksturs færi úr 10% í 30%. Mörg dæmi hafa komið upp í opinberri umræðu undanfarin ár um fatlað fólk sem er skilið eftir hjálparlaust eftir skutlþjónustuna. Í fyrra lýsti leikstjóri, sem hélt úti sýningu með fötluðum leikurum, miklum brotalömum á þjónustunni. Þeir hefðu ýmist verið skildir eftir úti á bílaplani eða sóttir tveimur klukkustundum of snemma eða seint.
Athugasemdir (4)