Hvalur hf. „óskar hér með eftir endurnýjun leyfis til heimildar til veiða á langreyðum“, segir í bréfi sem Hvalur hf., eina fyrirtækið sem stundar hvalveiðar á Íslandi, sendi matvælaráðuneytinu í lok janúar. Telur framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Kristján Loftsson, sem skrifar undir umsóknina, „rétt og eðlilegt“ að leyfið verði til 5 ára en framlengist sjálfkrafa um eitt ár við lok hvers starfsárs, „eða þá hitt að leyfið sé a.m.k. til 10 ára“. Með því yrði tryggður „eðlilegur fyrirsjáanleiki“ í rekstri og starfsemi Hvals.
Dúi Landmark, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir umsóknina til meðferðar og að hún verði afgreidd svo fljótt sem unnt er. Ekki sé hins vegar hægt að segja til um hvenær ákvörðun liggi fyrir.
Í leyfisumsókninni vísar fyrirtækið til laga um hvalveiðar frá árinu 1949 og að markmið þessara 75 ára gömlu laga sé „að tryggja verndun, þróun og hámarksnýtingu hvalaauðlindarinnar“. Beri m.a. að taka tillit til hagsmuna „neytenda hvalaafurða“ og hvalveiða sem atvinnugreinar.
Hvalur fékk fyrst leyfi til veiða árið 1947 og hefur stundað þær með hléum síðan. Vertíð síðasta sumars var þó með þeim hætti að matvælaráðherra setti tímabundið bann á veiðarnar áður en hún hófst í kjölfar niðurstöðu fagráðs um að þær samræmdust ekki lögum um velferð dýra. Engin langreyður var því veidd fyrr en í september. Þá hafði matvælaráðherra kynnt til sögunnar nýja reglugerð sem hafði það markmið að bæta umgjörð veiðanna. Byggði reglugerðin m.a. á niðurstöðum eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar, sem sýnt hafði fram á langdregin dauðdaga margra dýra við veiðar sumarið áður. Í hinni nýju reglugerð voru gerðar ítarlegar og hertari kröfur til veiðibúnaðar, veiðiaðferða og eftirlit með veiðunum aukið.
Ekki gætt að meðalhófi
Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis, sem gefið var út í upphafi árs, gætti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ekki að meðalhófi eða hafði til þess nægilega skýra lagastoð þegar hún frestaði upphaf vertíðarinnar síðasta sumar.
„Undirbúningur að komandi vertíð er í fullum gangi og miðar með ágætum“
Um þetta er fjallað í umsókn Hvals hf. um endurnýjun leyfis til veiða á langreyðum í ár. Segist fyrirtækið vilja minna á, í ljósi stjórnsýslu matvælaráðherra þegar hagsmunir og réttindi Hvals og starfsfólk þess eru annars vegar, sem og vegna ummæla sem ráðherra hefur látið falla á opinberum vettvangi í kjölfar álits umboðsmanns, að samkvæmt fyrstu málsgrein stjórnarskrárinnar sé öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. „Verður þessu frelsi aðeins settar skorður með lögum“, segir í umsókninni. „Leiðir af þessu að skerðingar á atvinnufrelsi þurfa að styðjast við sett lög Alþingis“.
Svandís sagði í janúar síðastliðnum að hún hygðist fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða. Framkvæmdastjóri Hvals hf. telur að vel geti farið á því að færa regluverk um hvalveiðar til nútímalegs horfs. „Um afgreiðslu erindis Hvals fer þó að sjálfsögðu eftir gildandi lögum.“ Sé þess vænst að afgreiðslu leyfisins verði hraðað enda undirbúningur að komandi vertíð „í fullum gangi og miðar með ágætum“.
Athugasemdir (4)