Á uppfærðu hættumatskorti af Grindvík og nágrenni, sem gefið var út í dag en tekur gildi á morgun, þriðjudag, hefur Veðurstofan bætt við nýju svæði, svæði 7. Það liggur vestan þéttbýlisins, á slóðum sem ein fyrsta sprungan opnaðist í jarðhræringunum miklu 10. nóvember.
Gregory Paul De Pascale, doktor í jarðskorpuhreyfingum og dósent við Háskóla Íslands, hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að vara við hættum á einmitt þessu svæði. Það hefur hann gert innan samráðshóps vísindamanna sem er Veðurstofunni til ráðgjafar við mat á hættu á svæðinu. Hann var spurður út í málið í viðtali við Heimildina og sagði sprungur á þessu svæði, sem m.a. rifu í sundur golfvöllinn og vegi, ekkert öðruvísi en þær sem opnuðust inni í Grindavík.
Svæðið hefur loks fengið númer lit á hættumatskortinu. Guli liturinn er merki um að nokkra hættu sem þar að finna og varað er sérstaklega við jarðfalli ofan í sprungu og sprunguhreyfingar. Um svæðið liggur Nesvegur sem gestum Bláa lónsins er nú beint um enda Grindavíkurvegur og hluti Bláalónsvegar farinn undir hraun. Unnið er að úrbótum hvað það varðar að sögn Vegagerðarinnar.
Grindavík sjálf og hennar allra næsta nágrenni er merkt í appelsínugulum lit sem táknar „töluverða hættu“ og þar er varað sérstaklega við jarðfalli ofan í sprungu og sprunguhreyfingum. Bláa lónið hefur hins vegar gulan lit og þar er varað við hraunflæði.
Veðurstofan uppfærð síðast hættumatskort sitt á fimmtudaginn í síðustu viku. En ákvað að uppfæra það enn á ný í kjölfar þess að ríkislögreglustjóri féll frá tilmælum um brottflutning úr Grindavík og vegna ákvörðunar lögreglustjórans á Suðurnesjum um breyttar heimildir íbúa og fyrirtækja hvað varðar aðgengi að bænum. Hið uppfærða hættumat tekur þó ekki gildi fyrr en kl. 7 í fyrramálið, 20. febrúar, á sama tíma og nýjar aðgengisreglur lögreglustjórans taka gildi.
Í tilkynningu Veðurstofunnar vegna uppfærslunnar segir að svæði 7 hafi verið bætt við „í samráði við almannavarnir“. Innan þess svæðis sé Nesvegur en aukinni umferð er nú beint um hann vegna aðgengis að Svartengissvæðinu sem og Grindavík.
Veðurstofan bendir á að hættumatskortið sýni mat á hættu sem er til staðar hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. „Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra.“ Þá varar stofnunin við því að aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Hættur geti leynst utan merktra svæða.Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur ákveðið að rýmka verulega aðgengi fólks að Grindavík og frá og með morgundeginum má dvelja þar næturlangt. Hann varar fólk þó við og segir það fara inn á svæðið á eigin ábyrgð. „Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi“. Innviðir séu í lamasessi og sprungur að finna víða.
Athugasemdir