Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

„Mjög gott að enginn búi eða vinni í Grindavík“

Teymi und­ir for­ystu Greg­ory Paul De Pascal, doktors í jarð­skorpu­hreyf­ing­um og eins fremsta vís­inda­manns á sínu sviði í heim­in­um, vakti at­hygli yf­ir­valda á því að sprung­ur í Grinda­vík væru á hreyf­ingu, hegð­un þeirra allra og stað­setn­ing óþekkt og að hætt­urn­ar gætu ver­ið lúmsk­ar. Fyrsta sprung­an sem upp­götv­að­ist eft­ir mynd­un sig­dals­ins í nóv­em­ber var fyrst í síð­ustu viku sett inn á hættumat­skort Veð­ur­stof­unn­ar eft­ir ein­dreg­in til­mæli Greg­or­ys þar um.

Þegar Gregory Paul De Pascal, doktor í jarðskorpuhreyfingum og dósent við Háskóla Íslands, fór ásamt nemendum sínum og samstarfsfólki að rannsaka afleiðingar atburðanna í Grindavík í nóvember, daginn eftir að bærinn var rýmdur vegna stórra jarðskjálfta og myndunar kvikugangs, blasti við slík umbreyting, slíkt rask, að honum varð ljóst að skapast hefðu aðstæður sem væru einstakar á veraldarvísu. Og að þær væru hættulegar. Stórhættulegar. „Á næstu dögum lenti ég ítrekað í því að missa fótinn ofan í holu í jörðinni, sem yfir var aðeins þunn jarðvegshula, en undir hyldýpi,“ rifjar hann upp. „Við áttuðum okkur á því að þetta væru mjög hættulegar vinnuaðstæður. En við þurftum að rannsaka hvað hafði gerst. Og vorum í rauntíma að komast að því. Því við vissum ekki að allar þessar sprungur væru þarna. Enginn vissi það.“

„Alveg örugglega“
svarar Gregory spurður hvort sprungur á borð við þá sem Lúðvík Pétursson féll ofan í séu víðar um Grindavík.

Gregory og teymi hans gerðu hvað þau gátu að miðla þessum upplýsingum til yfirvalda. Með dróna, snæri og málbönd að vopni fóru þau af ýtrustu varúð um Grindavík og nágrenni, dag eftir dag, og kortlögðu það sem fyrir augu bar. Líka það sem enginn sá. Það sem var falið. Djúpar sprungur. Nýjar sem uppgötvuðust á hverjum degi. Hvernig jörðin hafði bókstaflega rifnað í sundur vegna þeirra gífurlegu krafta sem voru að verki í hamförunum. Og að allt var enn á mikilli hreyfingu. Upp og niður. Í sundur. „Þetta var allt miklu dramatískara að umfangi en ég hafði getað ímyndað mér,“ segir hann. Allt frá suðurströndinni, um tveimur kílómetrum vestan við golfvöllinn í Grindavík, og austur fyrir byggðina í bænum höfðu myndast miklar sprungur á yfirborði. „Við sáum dagamun á svæðinu. Hvernig gliðnun jókst og sprungur stækkuðu. Hversu óstöðugt þetta allt var. Og við gerðum okkur grein fyrir því að þetta væri mjög hættulegt.“

Bærinn hafði verið rýmdur en ekki leið á löngu þar til sprungufyllingar hófust og fólki var gert kleift, með ákveðnum takmörkunum þó, að fara heim til sín á ný. 

Telur Gregory það hafa verið ráðlegt? 

„Mitt starf er að rannsaka og skrásetja það sem ég sé og það sem þekking mín leyfir mér að greina,“ svarar hann. „Ég miðlaði öllum þessum upplýsingum jafnóðum til yfirvalda. Ég lét vita að sprungur væru á mikilli hreyfingu. Að opnast, að stækka og hvar þær væru.“

Starfað í öllum heimsálfum

Gregory hefur stundað rannsóknir í öllum heimsálfum, m.a. á Nýja-Sjálandi og í Chile þar sem jarðskjálftar hafa í gegnum tíðina valdið gríðarlegu tjóni og mannfalli. Auk þess hefur hann starfað við ráðgjöf á þessu sviði. 

Frá túristagosi til hamvarasvæðisGregory er mjög ánægður að vera kominn til starfa á Íslandi. Hann vinnur nú, ásamt nemendum sínum við Háskóla Íslands, að því að rannsaka sprungur víða um land, m.a. í Grindavík.

Fyrir um einu og hálfu ári bauðst honum staða við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. „Ég varð himinlifandi að fá tækifæri til að starfa við mitt fag á Íslandi,“ segir hann. Fyrstu gosin á Reykjanesskaga höfðu þá þegar átt sér stað. „En stemningin breyttist fljótt er við fórum úr túristagosum í óbyggðum í hreyfingar stórra misgengja í þéttbýli og eldgosa sem ógna mikilvægum innviðum.“

Gregory á sæti í stórum samráðshópi vísindamanna á vegum Veðurstofu Íslands sem kemur saman reglulega. Í kjölfar þeirra funda og þeirra upplýsinga sem þar koma fram uppfærir stofnunin hættumatskort sín af svæðinu, þyki sérfræðingum hennar tilefni til. Á þessum kortum er að finna „grófa kortlagningu“ á þekktum sprungum, líkt og þar stendur, sem byggð er á rannsóknum og ábendingum Gregorys.

Með einstaka þekkingu

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, á einnig sæti í samráðshópnum. Hann segir Gregory einn fremsta sprungusérfræðing í heimi og að enginn annar á Íslandi búi yfir jafnmikilli þekkingu á þessu sviði. „Það hefur verið mikil áhersla á eldvirknina, kannski of mikil, á kostnað sprunguhreyfinganna,“ segir Ármann. Það sem sé að gerast á Reykjanesi sé sambland af þessu tvennu. „Þess vegna á að sjálfsögðu að hlusta á það sem Gregory hefur fram að færa og taka tillit til þess við allt mat á aðstæðum.“

EldfjallafræðingurÁrmann Höskuldsson.

Ármann segir Gregory hafa allt frá atburðunum miklu þann 10. nóvember ítrekað haldið niðurstöðum sínum á hinum miklu sprunguhreyfingum á lofti á samráðsvettvangi Veðurstofu Íslands sem og þeirri óvissu og hættu sem þeim fylgja. Færa megi rök fyrir því að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til hans sjónarmiða, m.a. hvað varðar þær aðgerðir yfirvalda sem ráðist var í. 

Gregory hafi svo undanfarið einnig margsinnis spurt hvers vegna ekki sé varað við hættu vegna sprungna vestan við bæinn, þeirra fyrstu sem uppgötvuðust í atburðunum. Þær hafi ekki verið að finna á hættumatskorti Veðurstofunnar fyrr en í síðustu viku. Ármanni þótti skýringar sérfræðinga Veðurstofunnar óljósar. Þótt svæðið sé utan þéttbýlis sé þar m.a. að finna fyrirtæki og á því hafi og sé mögulega enn verið að vinna að sprungufyllingum í vegum.

Frægasta sprungan

Sprungan sem opnaðist á golfvellinum er líklega frægasta sprunga Grindavíkur. Hún var sú sem uppgötvaðist fyrst og mynd af garðbekk á hliðinni ofan í mikilli dæld var birt í fjölmiðlum um allan heim. En hvers vegna var þessi sprunga ekki teiknuð inn á hættumatskorti Veðurstofunnar fyrr en í síðustu viku? Er hún eitthvað öðruvísi og hættuminni en þær sem ganga í gegnum bæinn?

„Hún er ekki öðruvísi,“ svarar Gregory. Allt frá því í nóvember hafi hann komið öllum upplýsingum um hana á framfæri við yfirvöld. Hann staðfestir það sem Ármann segir að síðustu vikur hafi hann á vettvangi samráðshópsins lagt mikla áherslu á að færa sprungu þessa inn á hættumatskort Veðurstofunnar. „Mitt starf er að leggja fram gögnin. Og það hef ég gert.“ 

Þess ber að geta að eftir að viðtalið við Gregory var tekið gaf Veðurstofan út nýtt hættumatskort og á þvi er nú gróf staðsetning sprungna í og við Grindavík, m.a. þeim sem eru vestan við bæinn. Hins vegar hefur svæðinu ekki verið gefinn litakóði, líkt og öðrum svæðum.

Út um allan heimMyndir af garðbekk á hliðinni ofan í sprungunni á golfvellinum hefur verið birt í fjölmiðlum víða um heim. Enda er hún sláandi vitnisburður um afleiðingar atburðanna miklu í nóvember.

Eiga sér enga hliðstæðu

Oftsinnis hafa sérfræðingar, stjórnmálamenn og aðrir talað um að staðan í Grindavík sé án fordæma. Gregory tekur heils hugar undir það. „Hvergi í heiminum hefur sigdalur myndast inni í miðjum bæ,“ útskýrir hann. Vísindamenn og yfirvöld hafi því ekki getað horft til reynslu annars staðar frá um hvernig best sé að haga viðbrögðum. „Þessir atburðir eiga sér enga hliðstæðu.“ 

SprungusérfræðingurGregory Paul De Pascal er doktor í jarðskorpuhreyfingum og dósent við Háskóla Íslands.

Við þessum flóknu og erfiðu aðstæðum hafi vísindamenn, almannavarnir og önnur yfirvöld þurft að bregðast. Jarðvísindamenn hafa bent á, m.a. eldfjallafræðingarnir Ármann og Þorvaldur Þórðarson, að betur hefði þurft að rannsaka svæðið áður en ráðist var í aðgerðir á borð við sprungufyllingar utan helstu lífæða bæjarins. 

„Við komumst að því að það væru sprungur víða og að þær væru á hreyfingu en við vissum ekki um eðli og umfang þeirra allra, hvernig hlutirnir gætu þróast,“ svarar Gregory spurður um þetta. Á það hafi hann bent. 

Nauðsynlegt að meta stöðuna

Lúðvík Pétursson var að störfum við jarðvegsþjöppun ofan á sprungu í húsagarði á vegum Náttúruhamfaratrygginga í janúar er fyllingin gaf sig og hann féll ofan í sprunguna. Við leit að honum kom í ljós að þótt sprungan hafi ef til vill ekki látið mikið yfir sér, op hennar verið þröngt, var holrými nokkru neðar og dýptin tugir metra. 

Heimildin spurði Gregory hvort búast megi við því að sambærilegar sprungur, sambærilega hættu, sé að finna víðar í og við Grindavík. „Alveg örugglega,“ svarar hann. Þær geti bæði verið við stóru misgengin og í sprungum í kringum þau. 

„Tel ég óhætt að búa og vinna í Grindavík í augnablikinu? Ég held að það þurfi að fara í mikla vinnu og rannsóknir á sprungunum til að skilja hegðun þeirra og útbreiðslu. Það þarf að vakta þær, yfir lengri tíma. Þannig að ég tel mjög gott að núna búi enginn eða vinni í Grindavík.“

Hann segist hins vegar ekki vera í aðstöðu til að meta hvort of geyst hafi verið farið í viðgerðir á götum og öðrum innviðum í bænum. „Ég lagði ekki fram neinar tillögur varðandi þær aðgerðir, við í teyminu töldum það ekki okkar hlutverk heldur að leggja fram upplýsingar um hvað hafði gerst og hvað gæti mögulega átt eftir að gerast. Við gerðum það.“

Þegar Gregory og teymið hans var við rannsóknir á stóru sprungunni sem myndast hafði á golfvellinum voru vinnuflokkar að fylla í sprungur í götum. „Það var góð hugmynd og mikilvægt að halda helstu flóttaleiðum bæjarins opnum,“ segir hann, „en við vorum þarna dag eftir dag og sáum að fyllingarnar sigu og féllu.“ Þetta sé ekki gagnrýni á þá vinnu heldur góð sönnun þess að jörðin var á hreyfingu. „Og af því að við gátum ekki leitað til annarra landa og skoðað sambærilega atburði þá vorum við öll að bregðast við í rauntíma.“

Honum finnst aðdáunarvert hvað Íslendingar búa yfir mikilli þrautseigju og séu tilbúnir að bregðast hratt við. Náttúruvá sé enda verkefni sem kynslóðirnar hafi þurft að takast á við. „En þegar aðstæður skapast sem við höfum ekki fullan skilning á er gott að staldra við, skoða vandamálið gaumgæfilega og finna svo lausnir.“

Kvikan finnur sér auðveldustu leið

Þegar jarðskorpan er jafn sprungin og hún er í og við Grindavík, hefur teygst og togast í sundur, á kvika auðveldara með að brjóta sér leið um sprungur upp á yfirborðið. Kvikan sem kom upp við suðurenda Sundahnúksgígaraðarinnar í janúar og flæddi yfir þrjú hús nyrst í Grindavík kom að sögn Gregorys upp um slíkar sprungur.  

Spurður hvort það þýði að hún gæti komið upp um sprungur inni í bænum í næstu gosum svarar Gregory því játandi. Það sé hins vegar ekki hægt að fullyrða að það muni gerast og þá hvenær. En hættan sé vissulega til staðar. „Þess vegna er það gott að enginn búi nú í Grindavík,“ segir hann, „ekki síst í ljósi þess stutta fyrirvara sem fékkst í gosinu nú í febrúar.“

Snjór hefur legið yfir öllu síðustu vikur. Gregory vill ekki fara með teymi sitt inn í Grindavík við þær aðstæður. Skaflar yfir sprungum geta blekkt og skapað hættu. Þess vegna bíða frekari rannsóknir á vettvangi af hans hálfu. Hann minnir þó á að aðilar á vegum verkfræðistofa og Vegagerðarinnar séu að kortleggja sprungur með jarðsjám og vonandi komi niðurstöður úr þeim rannsóknum fljótlega. 

Íbúum hefur síðustu daga verið leyft að fara í hús sín í Grindavík og sækja eigur sínar. Á sama tíma og þú ætlar ekki með teymi á svæðið til að rannsaka sprungur er verið að heimila þetta. Hvað finnst þér um það?

„Um miðjan nóvember var ég spurður hvort ég teldi Grindavík örugga til búsetu við þær aðstæður sem komnar voru upp,“ svarar Gregory. „Ég svaraði því neitandi. En það er ekki mitt hlutverk að segja fólki til í þeim málum. Það eina sem ég get fullyrt er að þarna eru misgengi og sprungur og þau hafa verið á mikilli hreyfingu þótt mikið hafi dregið úr henni. Þetta eru flókin kerfi, flóknir kraftar, en þessar sprungur auðvelda kviku að komast upp á yfirborðið.

Tel ég óhætt að búa og vinna í Grindavík í augnablikinu? Ég held að það þurfi að fara í mikla vinnu og rannsóknir á sprungunum til að skilja hegðun þeirra og útbreiðslu. Það þarf að vakta þær, yfir lengri tíma. Þannig að ég tel mjög gott að núna búi enginn eða vinni í Grindavík.

Við vitum að hættan er til staðar. Hættan á því að einhver deyi. Við höfum séð það nú þegar. Svo núna tel ég best að fara hægt í sakirnar og rannsaka misgengin og sprungurnar eins vel og mögulegt er.

Ég á ekki hús eða fyrirtæki í Grindavík. En ég skil mjög vel að fólk vilji bjarga eigum sínum. Á sama tíma tel ég mikla áskorun fólgna í því að skera úr um inn í hvaða byggingar og svæði er hægt að fara. Aðgerðir til verðmætabjörgunar hafa gengið vel hingað til. Það er ekki síst að þakka fagmennsku björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila sem gæta að öryggi fólksins.“ 

Kjósa
72
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Reykjaneseldar

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu