„Bregst ég rétt við? Geri ég þetta rétt? Fá þær stuðninginn og örvunina sem þær þurfa? Eru þær í of fáum tómstundum … eða of mörgum? Við ættum að lesa meira.“ Þessi orð tveggja barna móður á höfuðborgarsvæðinu kannast örugglega allir foreldrar við. Hið sífellda samviskubit og stöðug þrá eftir að gera betur, standa sig betur og svo sjálfsefinn sem læðist aftan að okkur; geri ég þetta rétt? Þessar hugsanir spretta ekki úr samfélagslegu tómarúmi. Hugmyndir okkar um með hvaða hætti foreldrar ættu að ala upp börnin sín hafa breyst mikið á undanförnum áratugum. Þannig er nú lögð mikil áhersla á að foreldrar þjálfi börnin sín í lestri heima við og stuðli að því að þau taki þátt í tómstundum. Foreldrar eiga auk þess að taka þátt í skipulögðu samstarfi á milli skóla og heimila, sjá til þess að barnið æfi sig heima á hljóðfærið, muna eftir sparinesti, bláum degi og baka fyrir bekkjarkvöldið. Þetta er talið sjálfsagt og afar fáir setja spurningarmerki við að allir þessir þættir séu barninu fyrir bestu – og þar sem þetta er barninu fyrir bestu þá eiga foreldrar að sinna þessum þáttum möglunarlaust.
Þessi aukna áhersla á skóla- og tómstundavinnu foreldra setur þó mikla aukna pressu á þá. Þeim er ætlað að vera kennarar barna sinna, styðja við námið með ráðum og dáð, haga sér sem ábyrgir og virkir neytendur á skólamarkaði með því að velja rétta skólann en einnig réttu leikföngin, réttu umræðuefnin og bækurnar á heimilið sem eiga að vera best til þess fallnar að styðja við skólagöngu barnsins. Foreldrar eiga að auki að vera í ákveðnu eftirlitshlutverki gagnvart skólakerfinu, veita því aðhald og láta í sér heyra ef þeim finnst þess þurfa. Rannsóknir hafa sýnt að þessi aukna áhersla á samstarf heimila og skóla getur dýpkað stéttaskiptingu þar sem aðeins sumir foreldrar hafa fjárhagslegar og félagslegar aðstæður til að sinna þessu hlutverki.
Mikill munur á svörum mæðra og feðra
Í nýlegri rannsókn minni langaði mig að skilja hvaða áhrif þessi pressa hefur á foreldra og hvort áhrifin eru ólík á mæður og feður. Ég beindi sjónum sérstaklega að tilfinningalegum viðbrögðum foreldra við skóla- og tómstundavinnu; kvíða, samviskubiti og skömm. Ég safnaði skriflegum svörum frá 374 mæðrum og 76 feðrum þar sem þau voru beðin um að lýsa aðstæðum í tengslum við foreldrahlutverkið þar sem þau upplifðu þessar tilfinningar. Niðurstöðurnar benda til mikils kynjamunar á því hvernig foreldrar upplifa vinnu í kringum heimanám og tómstundir barna. Mæðurnar sem svöruðu listanum lýstu gjarnan kvíða, samviskubiti og skömm í tengslum við þessa þætti en umfjöllun um heimalestur kemur einungis fyrir hjá feðrunum þegar þeir ræða tilfinningarnar stolt og hamingju sem ég spurði einnig um. Mæðurnar lýstu samviskubitinu sem stöðugu, þannig segir ein móðirin frá:
Já stöðugt samviskubit, sérstaklega gagnvart eldra barninu að vita ekki hvernig á að hjálpa því í gegnum félagslegar aðstæður og áskoranir í námi, kunna ekki að ala upp og styðja barnið. Stöðugt samviskubit að barnið sé ekki nógu vel læst og við séum ekki að æfa lesturinn nægilega heima, vita ekki hvernig við eigum að taka á þessu og líka samviskubit að hafa ekki ýtt nógu mikið á að barnið fengi hjálp í skólanum.
„Hin aukna áhersla á foreldra sem kennara og eftirlitsaðila skólakerfisins bitnar harðar á mæðrum“
Við sjáum að móðirin tengir vanmátt sinn við að hjálpa barninu með áskoranir í námi með beinum hætti við að hún yfirhöfuð kunni ekki að ala upp barnið. Móðirin tekur þannig á sig alla ábyrgð vegna heimalesturs og áskorana í námi, bæði við að þjálfa barnið heima fyrir en einnig að það sé á hennar ábyrgð að veita skólanum aðhald. Rannsóknir hafa sýnt að stemningin í þjóðfélaginu almennt er þannig að foreldrar eiga að sýna foreldrahæfni sína meðal annars með því að veita skólum aðhald og láta í sér heyra ef þeim finnst barnið sitt ekki fá nægilega góða þjónustu. Í rannsókn minni kom í ljós að jafnvel mæður sem eru í ákveðinni forréttindastöðu að því leyti að vera háskólamenntaðar og í hjónabandi eða sambúð finnst þetta hlutverk erfitt, það veldur þeim streitu og tilfinningaleg viðbrögð þeirra eru samviskubit, vanlíðan og sjálfsefi. Við sjáum einnig að hin aukna áhersla á foreldra sem kennara og eftirlitsaðila skólakerfisins bitnar harðar á mæðrum, sem ítrekað minnast á streituna sem þetta hlutverk veldur þeim, á meðan feður minnast ekki á slíkt.
Einstaklingsvæðing foreldrahlutverksins
Á sama hátt lýstu mæðurnar því að þær fyndu fyrir ábyrgð sinni á því að stuðla að skipulögðu tómstundastarfi barna sinna. Hérlendis hefur enda verið lögð mikil áhersla á forvarnargildi skipulagðra tómstunda. Afleiðingin er á ný samviskubit og sjálfsefi hjá mæðrum:
Ég hef bæði upplifað kvíða og áhyggjur. Ég myndi segja að sú tilfinning sé nokkuð algeng. Ég hef stundum áhyggjur af því að ég sé ekki að gera nóg, að þær eigi að vera í fleiri tómstundum, fá tækifæri til að stunda fleiri íþróttir o.s.frv. og það muni einhvern veginn koma niður á þeim ef þær hafa ekki sömu tækifæri og aðrir.
„Er það góð barnæska að hverri lausri stund sé snúið í lærdóms- og örvunartækifæri?“
Hér tengir móðirin tómstundaiðkun barnanna beint við tækifæri barnanna almennt, að það muni koma niður á þeim að vera ekki í fleiri íþróttum og fleiri tómstundum (sem bendir til þess að börnin séu nú þegar í skipulögðu tómstundastarfi!). Þetta viðhorf sprettur úr samfélagslegu umhverfi þar sem ákveðin oftrú á uppeldi er ráðandi. Gjörðir foreldra sem einstaklinga eru þá taldar stýra bæði sorgum og sigrum barna í einu og öllu en skilning skortir á félagslegum veruleika fjölskyldnanna. Þetta hefur einnig verið nefnt einstaklingsvæðing foreldrahlutverksins. Skólakerfið, samfélagsgerðin, stjórnmálaöflin, menningin og önnur grunnkerfi samfélagsins eru þá stikkfrí hvað varðar það að skapa jöfnuð og búa börnum góð uppeldisskilyrði en öll ábyrgðin er talin hvíla á herðum foreldra, aðallega mæðra. Það er því ekki að undra að mæður upplifi samviskubit, kvíða og skömm yfir stórum og smáum ákvörðunum í uppeldinu. Önnur móðir barns á leikskólaaldri segir:
Ég er með samviskubit yfir því að hafa ekki tíma til að setja hann í íþrótt (þó hann sé ekki að óska eftir því).
Þannig virðist vera ákveðin pressa á mæður að setja börn í skipulagt tómstundastarf jafnvel strax á leikskólaaldri. Á ný þurfti ég í raun að bera saman svör mæðranna við þögn feðranna, því þeir tjáðu sig ekki um að tómstundaiðkun, eða skortur á henni, ylli þeim kvíða, skömm eða samviskubiti. Niðurstöðurnar gefa því sterka vísbendingu um að ábyrgð á heimanámi og tómstundaiðkun sé mjög misskipt hérlendis á milli mæðra og feðra.
Þriðja vaktin kemur niður á heilsu mæðra
Mæðurnar ræddu einnig þriðju vaktina í tengslum við skólagöngu og tómstundaiðkun barnanna sinna. Þriðja vaktin eru hinar sífelldu hugsanir sem tengjast á einhvern hátt markmiðum fjölskyldunnar, svo sem skipulagsvinnu og það að sjá fyrir tilfinningalegar þarfir fjölskyldumeðlima. Þessi hugræna byrði er markalaus, henni lýkur aldrei og hún hefur neikvæð áhrif á velferð mæðra, til að mynda á vinnu þeirra, svefn og frítíma. Rannsóknir benda eindregið til að mæður sinni þriðju vaktinni í mun meira mæli en feður og slíkar vísbendingar komu einnig í ljós í rannsókn minni. Þannig sögðu tvær mæður frá:
Já, oft [upplifir samviskubit]. Ef mér finnst ég ekki sinna börnunum nægilega vel t.d. vegna langra vinnudaga, þegar ég gleymi einhverju í tengslum við börnin, t.d. afmæli sem þeim var boðið í eða viðburði í skólanum. Finnst ég ekki nógu góð móðir og ásaka sjálfa mig. Ég verð oft lengi reið við sjálfa mig.
Líður stundum eins og öllum öðrum gangi svo mikið betur að muna eftir öllu og lesa alla fjandans tölvupóstana.
Samvsikubitið og skömmin yfir því að vera ekki að standa sig á þriðju vaktinni tekur sinn toll af heilsu mæðra. Þannig tengir ein móðir tilfinningar sínar gagnvart foreldrahlutverkinu með beinum hætti við kulnun sem hún lenti í:
Ég burðast með mjög mikið samviskubit og óöryggi. Það var örugglega þáttur í burnouti sem ég lenti í. Samviskubitið er mest tengt því að mér finnst ég ekki vita hvernig á að takast á við foreldrahlutverkið. Gleymi sundfötum og að mæta á viðburði. Sárast er að gleyma að mæta á skólaviðburði eða afmæli sem eru barninu mikilvæg.
Uppeldi sem tæknileg æfing
Á heildina litið sýnir rannsókn mín að foreldrar, en þó einkum mæður, upplifa talsvert samviskubit og skömm í tengslum við skóla- og tómstundavinnu barnanna, svo sem heimalestur og æfingar. Niðurstöðurnar, sem studdar eru hliðstæðum niðurstöðum erlendis frá, benda til þess að ekki sé með óyggjandi hætti hægt að segja að aukin aðkoma foreldra að skóla- og tómstundavinnu sé til hagsbóta fyrir fjölskyldur.
„Mæður upplifa samviskubit, kvíða og skömm yfir að standa ekki undir þeim miklu kröfum sem gerðar eru“
Það er áhugavert hversu ólík tilfinningaleg viðbrögð mæðra og feðra eru í ljósi þess að Ísland er almennt talið í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti kynjanna og að mikil áhersla hefur verið lögð á hérlendis að jafna þátttöku kynjanna á vinnumarkaði og í heimilisstörfum til dæmis með fæðingarorlofi feðra. Þetta virðist takmarkað hafa skilað sér hvað varðar byrðar tengdar skóla- og tómstundavinnu.
Mikilvægt er að skoða þessar niðurstöður í samhengi við sívaxandi áherslu stjórnvalda og menntamálayfirvalda á skóla- og tómstundavinnu foreldra. Lítið hefur verið rætt um hvaða áhrif þessi stefnumótun hefur á fjölskyldueininguna, samskipti innan hennar og andlega líðan foreldra. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að afleiðingarnar hafi reynst neikvæðar, þar sem mæður upplifa samviskubit, kvíða og skömm yfir að standa ekki undir þeim miklu kröfum sem gerðar eru. Einnig sáust dæmi þess að pressan á heimanám og tómstundaiðkun gerði samskipti mæðra við börn sín neikvæð. Krafan um sífellda örvun heima fyrir og mikið tómstundastarf gerir ráð fyrir að börn séu meðtækileg fyrir slíku og meðfærileg. Uppeldi verður að einhvers konar tæknilegri æfingu, sem hægt er að læra og annaðhvort klúðra eða gera rétt en ekki persónulegt og innilegt samband óháð ytri markmiðum. Er það góð barnæska að hverri lausri stund sé snúið í lærdóms- og örvunartækifæri? Það er full ástæða til að við spyrjum okkur hvort vaxandi áhersla á heimanám, sífellda vitsmunalega örvun á heimilinu, samskipti foreldra og skóla og skipulagt tómstundastarf barna skapi slíka pressu að það bitni ekki eingöngu á mæðrum heldur á börnunum sjálfum líka. Ef mæðurnar upplifa streitu þá kemur það óhjákvæmilega niður á fjölskyldueiningunni í heild sinni.
Vinnur gegn jafnrétti kynjanna
Mikilvægt er að hafa í huga að sá hópur sem svaraði spurningalista þessarar rannsóknar var í forréttindastöðu hvað varðaði menntun, fjárhag og tungumálakunnáttu, sem er einn annmarki rannsóknarinnar. Þrátt fyrir það sjáum við skýr merki um streitu, samviskubit, kvíða og skömm sem ráðandi hugmyndafræði samfélagsins um uppeldi virðist valda hjá mæðrum. Gera má ráð fyrir að andlegt álag á mæður sem ekki búa við forréttindi sé enn meira sem aftur leiðir til dýpri misskiptingar.
Það er flókið og næstum ómögulegt að ætlast til þess að mæður hætti að trúa á að sífelld betrun í hlutverki móðurinnar, sífelld viðvera, tómstundavinna, skólavinna og málörvun sé ávallt af hinu góða, jafnvel þó við sjáum merki um að þessi trú valdi skaða. Samfélagslegu skilaboðin eru skýr. Þær tilfinningar sem hér eru til skoðunar; samviskubit, kvíði, skömm, mynda samanlagt áhrifamikið taumhald á líf mæðra og vinna þannig gegn jafnrétti kynjanna. Það mun svo á endanum koma niður á börnum okkar sem alast upp í þjóðfélagi þar sem það þykir eðlilegt að mæður axli svo mikla ábyrgð sem raun ber vitni og gjaldi fyrir með geðheilsu sinni.
Athugasemdir