Alexander Jarl Abu-Samrah var að skruna niður Instagram. Þar birtust stutt myndbönd: Eitt af barni að detta á hjóli, annað úr uppskriftaþætti, og svo myndband af karlmanni sem var skotinn í höfuðið. Alexander brá í brún. Þeir báru sama eftirnafn.
„Er þetta einn af okkur?“ spurði Alexander föðurbróður sinn sem er frá Gaza en býr í Bandaríkjunum.
„Já,“ svaraði hann.
Þetta var myndband af ungum frænda þeirra sem hafði verið drepinn í stigvaxandi árásum Ísraelshers á Gazasvæðið.
„Með hverjum svona atburði drepst einhver smá partur innan í manni,“ segir Alexander Jarl.
Alinn upp í Vesturbæ en á sterk tengsl við Gaza
Hann er fæddur á Landspítala og alinn upp í Vesturbænum og hefur því aldrei lifað við stríðsástand. En faðir hans er frá norður Gaza og Alexander á því nána fjölskyldu sem er stödd á Gazasvæðinu. Fjölskyldan er þó ekki nægilega skyld honum til þess að hann geti sótt um dvalarleyfi fyrir þau á grundvelli fjölskyldusameiningar. Hann hélt því að það væri lítið sem hann gæti gert, alveg þangað til hann sá íslenska sjálfboðaliða ná að koma fólki út af Gaza. Þá kviknaði hjá honum von. Kannski gæti hann gert slíkt hið sama.
Til þess að koma fólki út af Gaza þurfa aðstandendur eða aðrir að greiða sérstökum þjónustuaðila fyrir að koma þeim þaðan, þúsundir Bandaríkjadala á mann.
„Það er svo sjúkt að þetta snúist um peninga,“ segir Alexander.
Hann stefnir á að koma þremur fullorðnum – ömmu sinni, föðurbróður og eiginkonu hans – og fimm börnum út af svæðinu. Til þess að fjármagna það hóaði Alexander í kollega sína í rapp og hipp-hopp senunni sem ætla að gefa vinnu sína á tónleikum í Iðnó næsta laugardagskvöld, 24. febrúar. Eigendur Iðnó veittu tónlistarmönnunum sömuleiðis húsnæðið að kostnaðarlausu og eru fleiri sem koma að tónleikunum, meðal annars ljósamaður og hljóðmaður, sem sýna fjölskyldu Alexanders samstöðu með því gefa sína vinnu.
Eftirnafnið skiptir ekki öllu
„Ég ætla að fara [til Egyptalands] eða koma fjármununum á réttan stað jafnvel þó að ég safni minna en ég þarf og koma þá bara einhverjum af börnunum út,“ segir Alexander. Hann myndi vilja koma fleiri ættingjum sínum frá Gaza, til að mynda föðursystur sinni og börnum hennar, en þau eiga ekki vegabréf.
„Það er hálfdauðadæmt bókstaflega,“ segir Alexander Jarl.
Hann lendir enn reglulega í því að sjá fréttir af því á samfélagsmiðlum að fólk sem er með sama ættarnafn og hann hafi verið drepið á Gazasvæðinu.
„Ég nenni ekki einu sinni að spyrja að því lengur hvort þetta sé fjölskylda eða ekki. Það breytir ekki öllu því þetta er allt fólk,“ segir Alexander Jarl.
Athugasemdir (5)