Við höfum horft upp á fordæmalausa slátrun á konum og börnum í beinni útsendingu núna í meira en 150 daga. Þetta eru atburðir sem eru óbærilegir flestum sem horfa álengdar. Það er varla hægt að ímynda sér líðan þeirra sem hafa flúið þessar aðstæður, til dæmis til Íslands. Innviðir þeirra eru auðvitað að bresta, hjartað, maginn, sálin, þeir tjölduðu á Austurvelli og grátbáðu um hjálp, að koma konum þeirra og börnum í skjól, en þeir mættu tómlæti, jafnvel óvild. Þeir voru ekki mótmælendur, ekkert frekar en sá sem hringir á sjúkrabíl sé mótmælandi. Þetta voru feður að grátbiðja um hjálp.
Innviðirnir kringum börn þeirra og ættingja voru sprungnir. Heimilin, vatnsveitan, sjúkrahúsin, holræsakerfin, vegir og skólarnir, allt var bókstaflega sprungið. Og í bland við rústirnar af þessum innviðum eru innviðir fólks, hjörtu, höfuð, útlimir og blóð. Ahmed Maml missti þannig alla fjölskyldu sína á meðan hann tjaldaði á Austurvelli.
„Við getum ekki bjargað heiminum en ef ef allir bjarga einhverju bjargast heimurinn.“
Um daginn brustu innviðir þriggja íslenskra kvenna, þær gátu ekki horft aðgerðarlausar á hryllinginn. Kristín Eiríksdóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir og María Þrastardóttir fóru sjálfar og heimtuðu heila fjölskyldu bókstaflega úr helju. Þær nýttu sér forréttindi sem fjölskyldufeðurnir höfðu ekki, vegabréf sem gerir þeim kleift að fljúga um heiminn.
Fjölskyldan sem bjargaðist mun eiga sér framtíð. Börnin verða kannski kennarar, fótboltamenn eða atvinnurekendur, hvað sem er. Þau verða hluti af innviðum okkar. Það er líklegt að árið 2160 berist blómasending á Elliheimilið Grund til Kristínar, Maríu og Bergþóru frá börnum og barnabörnum þeirra sem þær björguðu. Einhver þeirra gætu jafnvel heitið Kristín, María og Bergþóra. Þá verður skrifuð grein. Og þá verða kannski tínd nokkur ummæli úr kommentakerfunum og spurt. Hvaðan kom kuldi þeirra?
Við getum ekki bjargað heiminum en ef ef allir bjarga einhverju bjargast heimurinn. Listi Schindlers taldi um 1.100 manns. Listinn yfir konurnar og börnin sem við gætum bjargað frá Gaza er rétt um 100. Komum þeim strax í skjól. Með öllum tiltækum ráðum.
Ég lýsi eftir konu sem virtist vera með hjartað á réttum stað.
Ég lýsi eftir konu sem virtist vera full af samúð og samkennd.
Ég lýsi eftir konu sem nú er týnd.