Forkólfar Sjálfstæðisflokks vilja öll völd í eigin hendur. Á meðan molnar lýðræðið. Valdhafar eru misgóðir. Við Íslendingar höfum öll helstu mannréttindi en við höfum einnig samfélagslegar skyldur. Ein þeirra er að velja hæfa valdhafa. Það hefur ekki gengið vel í heilan áratug. Eins ber okkur skylda til að standa vörð um fjórða valdið. Það hefur heldur ekki gengið vel.
Okkur ber að standa vörð um lýðræðið og alþjóðalög. Við erum hluti alþjóðasamfélagsins og höfum eða getum haft áhrif á réttindi borgara annarra landa, jafnvel upp á líf eða dauða. Það er okkar skylda að velja fólk til valda sem nærir lýðræðið og stendur vörð um mikilvægustu gildi þjóðarinnar. Hornsteinn aðhaldsins eru öflugir rannsóknarblaðamenn. Það hefur vitnast að handhafar framkvæmdavaldsins slúðra um fjórða valdið, gefa jafnvel skít í það. Vel færi á því að hætta mærðarlegu „háttvirti”-virðuleikahjali á Alþingi. Virðingu ættu menn aðeins að fá ef þeir vinna fyrir henni eins og Angela Merkel á sínum tíma.
Angela, völd og sómi þjóðar
Gefum okkur að Angela Merkel (fyrrum kanslari Þýskalands) hefði verið forsætisráðherra Íslands árið 2015 og að hún hefði ákveðið að taka við þúsundum manna, að stórum hluta frá Afríku (muniði; fullt af flóttamönnum þaðan drukkna árlega á Miðjarðarhafinu). Hún hefði stappað í okkur stálinu: „Við getum þetta, gott fólk”.
Ég veit að utanríkisráðherrann Bjarni Benediktsson hefði stoppað þetta stórkostlega góðverk hið snarasta. Bjarna og mörgum í hans flokki er mjög illa við alþjóðlegar skyldur okkar og reyna til hins ítrasta að að taka við eins fáum flóttamönnum og og frekast er unnt. Tökum eftir því, að samkvæmt skilgreiningu eru Bjarni og Angela á svipuðum stað á hinu pólitíska rófi. Það eru hins vegar óravíddir milli þeirra siðferðislega. Viska og manngæska, sem er nauðsynleg hverjum stjórnarherra eru í toppi hjá Angelu – það sama er ómögulega hægt að segja um Bjarna.
Bjarna er ósjaldan hampað fyrir að vera klár, en eins og Steinunn Sigurðardóttir skáld bendir á eru gáfur til lítils ef manngæskuna vantar. Undarlegt nokk, þá ræðum við sjaldnast manngæsku stjórnmálamanna. Já, undarlegt segi ég og skrifa, því hún er óendanlega mikilvægt og dýrmætt afl í stjórnmálum.
Grettistak fjórða valdsins
Árið 2016 ljóstruðu rannsóknarblaðamenn upp um vafasama viðskiptagjörninga fjölda ”athafnamanna”, þ.á.m. tveggja ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þeirra Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Gögnin sem uppljóstranirnar byggðust á, Panamaskjölin voru óyggjandi hvað Sigmund varðaði og hefur hann ekki komist í framkvæmdavaldsstöðu síðan. Furðulegt nokk, þá hafði þessi uppljóstrun fjórða valdsins ekki áhrif á frama Bjarna. Hann varð meira að segja forsætisráðherra í næstu kosningum, sat raunar ekki lengi því pabbi hans og leyndarhyggja flokks hans („Uppreist æru-málið“) settu stjórnarsamstarfið í uppnám, eðlilega. Björt framtíð var alvöru stjórnmálaflokkur og treysti ekki leyndarhyggjuliði með lélegt siðferði. Það vissu jú allir sem það vildu vita strax 2016 að spilling þrifist í Sjálfstæðisflokknum. Enn furðulegri urðu svo næstu kosningar, enn komust Bjarni og félagar í ríkisstjórn og vont versnaði bara. En þarna sprakk fjórða valdið út, sá mátt sinn og megin.
Erindi Bjarna Benediktssonar
Hvert er erindi Bjarna í stjórnmálum? Skoðum aðeins hvað honum fannst vera verksvið ríkisstjórnarinnar síðla árs 2012, í ræðu á Alþingi:
„Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu, koma á friði og ró á vinnumarkaði eftir því sem ríkisstjórnin hefur eitthvað fram að færa í þeim efnum, en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu.
[...]
Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að viðurkenna uppgjöfina, viðurkenna getuleysið, viðurkenna úrræðaleysið sem blasir við öllum? Er ekki kominn tími til að skila lyklunum? Hvers vegna á að halda þjóðinni í þeirri stöðu að þurfa að bíða eftir kosningum fram á vor […] Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“
Það er ómögulega hægt að segja að vinstri stjórnin hafi ráðið miklu um aðstæður á þessum tíma. Þetta með að þáverandi ríkisstjórn ætti að skila lyklunum er greypt í minni mér eins og þetta hefði gerst í gær, þessi augljósi og mikli valdhroki, sem aðeins hefur vaxið allar götur síðan. Ofangreind orð Bjarna féllu á Alþingi, á síðasta ári vinstri stjórnarinnar. Veruleg en eðlileg þreyta var þá komin í ríkisstjórnina. Mikið hafði gengið á árin á undan við að bæta það gríðarlega tjón sem flokkur Bjarna átti mestan þátt í að skapa. Áreiðanlega var undiralda meðal gömlu valdaelítunnar einnig verulega þung. Svo voru haldnar kosningar vorið eftir og viti menn, Bjarni og félagar fengu lyklana þrátt fyrir allt sem á undan var gengið.
Svik, átök, sundrung og ósætti í samfélaginu
Nóg hefur verið fjallað um pólitískt starf Bjarna og félaga. Okkar færustu blaðamenn, hluti stjórnarandstöðunnar og ýmsir vitringar og listamenn hafa upplýst okkur um það. Og almenningsálitið segir okkur að Bjarni nýtur ekki trausts og meira að segja kjósendum Sjálfstæðisflokksins fækkar, þó að þeir séu þekktir fyrir að halda sig við flokkinn sama hvað á dynur. Tvennt hefur þó ekki verið reifað nægilega, það fyrra varðar rannsóknarblaðamennina, hið síðara lýðræðið.
Rannsóknarblaðamenn og skæruliðadeildin
Of lítið hefur verið fjallað um afskipti Bjarna af beittustu rannsóknarblaðamönnum landsins, það er helstu vakthöfum þjóðarinnar. Já, þessum örfáu rannsóknarblaðamönnum sem smár hópur Íslendinga hefur náð að halda á floti. Þeir hafa verið svo öflugir að Bjarni og félagar vilja losna við þá. Úr þessu þarf að bæta og verður reynt hér með.
Rifjum upp skæruliðadeildarmálið. Það kom í kjölfar ætlaðs arðráns Samherja í Namibíu. Skoðum hvað Bjarni hafði að segja um rannsókn lögreglu á rannsakendum skæruliðadeildar Samherja. Orðrétt sagði hann:
„Engar fréttir hafa verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðueru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar. Það eina sem þeir hafa fram að færa hins vegar eru getgátur um það hvað lögreglan muni mögulega vilja spyrja þá um og álit þeirra á eigin getgátum um það. Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir.” (leturbreyting mín)
Getur verið að Bjarni sé orðinn svo vanur bæði framkvæmdavaldi ríkisins, dagskrár- og lagasetningarvaldinu á Alþingi að hann sjái ekki að fjórir blaðamenn hafa enga stjórn á umræðum um málið? Umræða er bara, henni verður ekki stjórnað, og allra síst af fjórum blaðamönnum, nema þar sem spilling er allsráðandi og í einræðisríkjum.
Greinilegt er að Bjarna Ben finnst skipta mestu máli hvað löggan telur sig hafa á blaðamennina og hann heldur að flesta þyrsti að vita þetta. Hvernig stendur á því að Bjarni ræðir ekki meinbugina á rannsókn lögreglu á fjórða valdinu? Hvaða orð eða hugtak er best að nota um niðurlægjandi tal ráðherrans um rannsakendur okkar almennings? Um þá gilda einmitt sérstakar vendarreglur, takið eftir því, vegna veikrar stöðu þeirra og ríkra skyldna gagnvart þjóðinni!
Og áfram heldur ráðherrann að segja okkur hvað honum finnist nú blaðamennirnir aumir. Gleymum því ekki hvað þeir voru að gera: Þeir flettu ofan af spilltri valdablokk auðkýfinga og stjórnmálamanna. Skæruliðadeildin og sannanlega ýmsir áhrifamenn í þjóðfélaginu beittu blaðamennina miklum rangindum, og njósnuðu reyndar um fleiri.
Enn hefur enginn botn fengist í Samherjamálið. Af hverju hefur Bjarni engar áhyggjur af framferði Samherja? Og af hverju leyfist honum, ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að gefa skít í helsta aðhaldsafl þjóðarinnar?
Á blaðamönnum hvílir rík sönnunarbyrði. Hvað fær (þáverandi) fjármálaráðherra til að slúðra og dylgja um blaðamenn út frá furðulegum og vafasömum málatilbúnaði lögreglu á hendur þeim, sem ekkert hefur komið út úr?
Hvernig stendur á því að Bjarni hundsar friðhelgi blaðamanna í málum sem þessum; friðhelgi sem bundin er í lög sem hann, löglærður þingmaðurinn, samþykkti sjálfur fyrir ekki svo löngu síðan?
Getur verið að Bjarni sé háður Samherja á einhvern hátt, eða sé ef til vill „bara vinur“ þeirra Samherjamanna eins og Kristján Þór Júlíusson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra (og stjórnarformaður Samherja) lýsti sínu sambandi við útgerðarrisann? Eða er það eitthvað enn annað sem rekur ráðherrann áfram?
Ekki ætla ég í fótspor rannsakenda og reyna að greina framferði Bjarna frekar, en ítreka að þetta mál er verulega gruggugt og allsendis ótækt að Skæruliðunum leyfist enn að ógna blaðamönnunum, og það með í það minnsta óbeinni aðstoð lögreglu og saksóknara fyrir norðan.
Bjarni og fjórða valdið
Lífleg sam- og umræðumenning ásamt öflugu aðhaldi rannsóknarblaðamanna er brýn nauðsyn í alvöru lýðræðisríki. Sem betur fer hafa nokkrir hugrakkir Íslendingar stigið fram, skrifað bækur og greinar, framið gjörninga, eins og ofannefndur ODEE og svo mætti áfram telja. Egilssynir og frábært samstarfsfólk þeirra á Samstöðinni, eins og Oddný Eir og fleiri, hafa náð upp kraftmiklum umræðum þar sem fjölmargir brilljant viðmælendur hafa frætt okkur um mikilvæg þjóðþrifamál. Ef Samstöðvarfólk heldur vel á spöðunum áfram mun það skila almenningi fram á veg, betri innsýn og skilningi á stjórnarfari landsins.
Þórður Snær, Ingibjörg Dögg og þeirra fólk á Heimildinni hitta líka oftar en ekki naglann á höfuðið þegar blaðið fjallar um stefnu Bjarna og flokks hans, enda eru ummerkin um afleiðingar hennar greinileg og spillingarfenið orðið djúpt.
En það er ekki hættulaust að fjalla um Sjálfstæðisflokkinn og helstu vildarvini hans með gagnrýnum hætti, eins og dæmin sanna. Viðbrögð fyrrverandi fjármálaráðherra og vina hans við rannsókn blaðamanna á Samherjamálinu og skæruliðadeildinni er bara eitt af mörgum slíkum. Munum lögbannið á Stundina haustið 2017, sem stóð í rúmt ár!
Það var sett af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, innmúruðum sjálfstæðismanni til áratuga, skömmu fyrir þingkosningar. Það sem lögbannið snerist um? Jú, fréttaflutningur Stundarinnar af viðskiptum Bjarna Benediktssonar, ættingja hans og viðskiptafélaga síðustu daga og vikur fyrir hrun.
Enn eitt og nýlegra dæmi er svo viðbrögð Bjarna við umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV um íslensku krónuna í desember í fyrra. Í framhaldi af henni vílaði hann ekki fyrir sér að saka fréttamennina um áróður og segja umfjöllunina „eiginlega bara hneyksli.“
Það er skaðlegt þegar valdamenn geta ekki tekið gagnrýni af yfirvegun og sanngirni. Ennþá skaðlegra og alvarlegra þegar sú gagnrýni er málefnaleg eins og í þessu tilfelli, þar sem unnið var faglega og rætt við fjölda fræðimanna og hagsmunaaðila, þar á meðal formann Neytendasamtakanna.
Og þegar ráðamenn svara gagnrýni, hvort sem hún beinist að störfum þeirra eða öðru sem snertir mikilvæga almannahagsmuni, er mikilvægt að þeir geri það málefnalega og styðji það með dæmum og staðreyndum. Að svara vel ígrundaðri gagnrýni með stóryrðum og innantómum dylgjum ætti að vera fyrir neðan virðingu þeirra.
Besta stjórnmálafræðsla síðari tíma
Þann 13. Nóvember 2022 var afburðagóð stjórnmálafræðsla á RÚV. Sigríður Hagalín Björnsdóttir fékk þá til sín stjórnmálaprófessorinn Maximilian Conrad og ræddi meðal annars við hann um ógnir við lýðræðið, upplýsingafölsun, falsfréttir, popúlisma og fleira.
Staða sannleika og staðreynda hefur breyst og er að veikjast, segir Conrad. Vægi þeirra hefur greinilega minnkað og það skiptir engu eða minna máli en áður hvort þú segir satt eður ei.
Hins vegar er hreinlega ekki hægt að stunda lýðræðisleg og gagnleg stjórnmál ef stjórnmálamenn byggja mál sitt ekki á staðreyndum, það er nefnilega ekkert til sem heitir valkvæðar staðreyndir/valkvæður sannleikur (e: alternative facts/truth). Ég mæli eindregið með þessu viðtali, sem horfa má á hér (aftast í þættinum).
Skáldskapur er góður, en ekki í stjórnmálum
Steinunn Sigurðardóttir er mikið og gott skáld en líka öflug talskona réttlætis og sannleika. Þegar hún tók við íslensku bókmenntaverðlaununum á Bessastöðum á dögunum brýndi hún listamenn til að yfirvega orð sín, svo af þeim fengist sem réttust mynd af heiminum, og varaði við því að slá ryki í augu lesenda og áheyrenda.
Þennan boðskap þurfa stjórnmálamenn líka að tileinka sér, og raunar enn frekar en skáldin. Samfélagið verður ekki farsælt nema þeir séu réttlátir mannvinir og kunni orðum sínum forráð. Ráðamönnum ber að tala og vinna út frá staðreyndum, líka í málum sem eru ekki mikilvæg eða jafnvel óþægileg fyrir eigin flokk.
Ráðherrar verða að segja satt og tala skýrt. Þeir verða að forðast áróður, hálfsannleik og innantóman orðavaðal. Eins og til dæmis að segja að ástæða þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki sótt palestínska dvalarleyfishafa í bráðri lífshættu frá helvítinu á Gaza sé sú að það sé svo ægilega erfitt og flókið, þegar raunverulega ástæðan er sú að þeir vilja það einfaldlega ekki.
Lýðræðið molnar „í okkar góða landi“
Það eru ekki liðin 100 ár frá því að íslenskir ráðamenn neituðu fjölmörgum gyðingum sem hingað leituðu um skjól. Af því að þeir vildu það ekki, þótt ástæðan sem gefin var hafi verið önnur. Þetta má ekki endurtaka sig. Hér kristallast óhugnanlega skýrt hversu illa er komið fyrir lýðræðinu. Flestir Íslendingar skynja að gjörningur ráðherrans er siðferðilega rangur.
Vinnuramminn sem Bjarni setti vinstri stjórninni 2012 var í góðu lagi, en af hverju hefur hann ekkert notað hann?
Verk að vinna
Víst er að stór hluti þjóðarinnar er hægrisinnaður. Og víst er að góðir stjórnmálamenn finnast bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna, það kenndi Angela Merkel mér.
Við erum líka fjölmörg sem aldrei kjósum hægri flokka, en við getum vel við unað ef hægri valdhafi er starfi sínu vaxinn. Spilling og sérhagsmunapólitík þýðir misrétti kjósenda og niðurbrot lýðræðis. Er virkilega engin Angela í Sjálfstæðisflokknum?
Athugasemdir (3)