Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri HS Orku, segir að hraunflæðilíkön hafi spáð því að hraun rynni einmitt þar sem það rann. „Við vorum að vinna að því í morgun að klára tvær suður á þessari hjáveituaðgerð sem við erum búnir að vera að vinna í kappi við tímann undanfarnar vikur. Við náðum að klára það áður en hraunið kom.“
Kristinn segir að búið sé að sanda hjáveitulögnina og fergja yfir hana. Hún sé því heil undir hrauni. Gamla Njarðvíkuræðin sé hins vegar farin – sú sem hefur flutt heitt vatn til Reykjanesbæjar. „Hún fór undir hraun áðan og rofnaði. Þannig að það er búið að slökkva á henni núna.“
Vonandi heitt vatn til Reykjanesbæjar á morgun
Hann segir að nú sé unnið að því að smíða framhjátengingar inn í nýju hjáveitulögnina. „Það verður unnið við það í allan dag. Á morgun munum við vonandi ná að tengja gömlu lögnina inn á hjáveitulögnina – og koma þá heitu vatni aftur til Reykjanesbæjar.“
Kristinn segir hjáveitulögnina vera sterka og góða. Hún geti því flutt svipað vatnsmagn og sú fyrri.
Hann segir það að slökkva á útrennsli vatns óvænt svona lengi ekki hafa áhrif á virkjunina sjálfa. „Virkjunin er mjög vel varin á bak við varnargarða og starfsemi hennar er, eins og staðan er, örugg.“
Loftlínur þola að hafa hraun undir sér
Hann segir þó að þarna séu fleiri lagnir í jörðu þar sem hraunið fór yfir. Til dæmis þrjár kaldavatnslagnir sem liggja neðanjarðar. „Við erum að halda fullu rennsli á þeim bara til að halda þeim köldum undir hrauni. Það eru líka þarna háspennustrengir sem við förum núna að afvirkja því það verður hitageislun þarna niður og þeir munu skemmast á næstu dögum, mjög líklega.“
Kristinn segir að loftlínurnar sem liggi yfir hrauninu séu virkar og flytji raforku frá orkuverinu. „Það var búið að hækka möstur á þeim línum. Þær þola það að það renni hraun undir og það var búið að fergja vel að undistöðum þeirra mastra. Þannig að raforkan frá orkuverinu hún streymir um þær línur,“ segir hann.
Athugasemdir