„Það er í raun og veru þannig að þetta er ein af þeim verstu sviðsmyndum sem var fyrirséð að gætu komið upp,“ segir Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri um þá staðreynd að hraun hafi runnið yfir Grindavíkurveg og ógni hitavatnslögn sem sér stórum hluta byggðanna á Reykjanesi fyrir heitu vatni. Staðan sé alvarleg þar sem hraunið ógni bæði innviðum fyrir heitt og kalt vatn. „Kalda vatnið er nauðsynlegt fyrir hitaveituna sömuleiðis og fari það út getur það haft áhrif á afkastagetu virkjunarinnar í Svartsengi að framleiða heitt vatn.“
„Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Halla Hrund um stöðuna. En þessi sviðsmynd, ein af þeim verstu, hafi þó verið teiknuð upp í samvinnu við HS orku og fleiri fyrirtæki. Upplýsingarnar voru komnar til stjórnvalda í minnisblaði þegar 11. nóvember á síðasta ári og var það lagt fyrir ríkisstjórn daginn eftir. Í því minnisblaði var talað um búnaðarkaup fyrir fyrstu viðbrögð ef þetta ástand myndi skapast. Að hitarar væru til reiðu fyrir heimili og að gert yrði ráð fyrir kaupum og leigu á búnaði fyrir neyðarhitaveitu. Að auki hafi verið lagðar til ákveðnar langtímalausnir. Í kjölfar þessa hafi verið farið í vinnu á vegum almannavarna sem hafi það hlutverk að sjá um framkvæmd svona verkefna en fjármögnunin er í höndum stjórnvalda.
„Ég veit að ráðuneytið var búið að fara í að skoða útboð á neyðarhiturum,“ svarar Halla Hrund spurð um hvar þessar neyðaraðgerðir séu staddar. Þá hafi Orkustofnun hafið vinnu að langtímalausnum í gegnum Orkusjóð, m.a. Að útfæra boranir á lághitaholum til öflunar á heitu vatni. „En það hefur ekki verið unnið nægilega hratt í að útfæra suma af þessum þáttum.“
Orkustofnun hefur haldið áfram að vekja athygli á nauðsyn þessara neyðarbúnaðar og sendi síðast frá sér minnisblað um málið nýverið.
Orkumálastjóri segir gríðarlega mikilvægt að fólk á Suðurnesjum fylgist með upplýsingum og fyrirmælum frá almannavörnum. „Það geta ekki allir fært sig yfir á rafhitun. Raforkukerfin okkar eru ekki hönnuð fyrir það að allir séu að rafhita. Þau eru hönnuð þannig að hús séu hituð með hitaveitu og svo sé raforkuhlutinn fyrir ljós og aðra slíka notkun. Þannig að það má segja að æðar dreifikerfisins séu ekki nógu sverar til að allir fari að nota rafhitara. Þá er hættan sú að það slái út.“
Ef fari sem á horfir og hitaveitulögnin sem fæðir byggðarlögin með heitu vatni frá Svartsengi dettur út, skiptir öllu máli að fólk fylgi í einu og öllu fyrirmælum almannavarna. Kerfin þoli aðeins ákveðið álag. Þess vegna hafi í minnisblöðum Orkustofnunar og fyrirtækjanna komið fram að hvernig neyðarhitara þurfi að afla til að kerfið þoli álagið. „En ég tek fram að slíkar neyðarráðstafanir, hitun með hiturum, þær duga aðeins til að halda einhverjum grunnhita í húsum. Þetta er rétt til að halda hita yfir frostmarki. Það eru engar stórar lausnir fyrir hendi til að halda fullum hita á húsum.“
Halla Hrund segir að ákveðinn búnaður til neyðarhitaveitu sé til í landinu en annan þyrfti að leigja.
Í tönkum séu geymdar varabirgðir af heitu vatni sem dugi í um það bil sólarhring eða svo. Síðan þurfi að nýta rafhitun og gæta þá þess að rafmagni slái ekki út. „Síðan þurfa stjórnvöld að horfa til þess hvort eigi að koma fyrir neyðarhitaveitu.” Henni sé ekki hægt að koma upp á skömmum tíma. „Þar bentum við á minnisblöðum okkar, mikilvægi þess að kaupa og smíða búnað, því að það tekur allt að þremur mánuðum að koma slíku í gagnið.“
Athugasemdir