Á mánudaginn var tilkynnt um að hópi háskólastúdenta hefði tekist nokkuð sem löngum var talið ómögulegt.
Í ágúst árið ´79 gaus eldfjallið Vesúvíus á Suður-Ítalíu og borgirnar Pompei og Herculaneum grófust undir ösku. Árið 1750 uppgötvaðist stærðarinnar bókasafn undir gosöskunni. Bókasafnið var hluti af lúxusvillu sem talin var hafa verið í eigu tengdaföður Júlíusar Caesar. En þegar fornleifafræðingar reyndu að opna steinrunnin papýrushandritin molnuðu þau í smátt.
Í fyrra var boðað til samkeppni þar sem verðlaunafé var heitið þeim sem tækist að finna leið til að lesa eitt handritanna sem skannað hafði verið í sneiðmyndatæki. Skipuleggjendur keppninnar áttu ekki endilega von á að nokkrum tækist að leysa áskorunina. En með aðstoð gervigreindar gerðu þrír háskólanemar samtímanum kleift að lesa orð sem fóru undir ösku fyrir tvö þúsund árum.
Skjól gegn veruleikanum
Þegar Barack Obama varð forseti Bandaríkjanna lét hann vefa nýja gólfmottu í forsetaskrifstofu Hvíta hússins. Mottuna prýddi tilvitnun sem gjarnan er eignuð Martin Luther King og er á þessa leið: „Bogi hins siðaða heims er langur en hann sveigist í átt að réttlæti.“
Gervigreind, nýjasta uppfinning mannkyns, les nú hálfbrunnin orð aftan úr forneskju. Við slíkar aðstæður virðist framþróun mannkyns óvéfengjanleg. Sé hins vegar rýnt í inntak handritsins vakna efasemdir um hvort vegferð mannkyns sé sá mikli sveigur sem margir telja.
Í síðustu viku greindist erlendur ferðamaður með mislinga á Landspítalanum. Þótt mislingum hafi verið útrýmt hér á landi á tíunda áratug síðustu aldar óttast sóttvarnarlæknir mögulegan faraldur. Er ástæðan sú að fólki hefur fækkað svo mjög sem lætur bólusetja börn sín að ekki ríkir lengur hjarðónæmi gegn sjúkdómnum í samfélaginu.
„Allt er í heiminum hverfult,“ segir í kvæðinu. Breski stjórnmálafræðingurinn John Gray á að baki áratuga langan feril við að benda á að það sem við teljum óumbreytanlegt í veröldinni er oftast skammvinnt. Þegar fremstu sérfræðingar Vesturlanda sögðu Sovétríkin komin til að vera spáði Gray því að þau myndu ekki endast. Þegar Sovétríkin féllu og fremstu hugsuðir mannkyns lýstu yfir fullnaðarsigri hins frjálslynda lýðræðis reyndist Gray sannspár er hann sagði það þvert á móti fallvalt.
Í nýjustu bók sinni segir Gray hugmyndina um framþróun mannkyns ekki annað en goðsögn sem við semjum til að „skýla okkur gegn veruleikanum“. Gray heldur því fram að þótt línuleg framþróun sé möguleg þegar kemur að tækni og vísindum – skref fyrir skref bætist við ný þekking og gamlar kenningar glatast sem reyndust rangar – á það sama ekki við um mannlegt samfélag. Skoðanir, siðferði og stjórnmál segir hann hverfast í hringi.
Reiptog hverfulleikans
Í Morgunblaðinu í síðustu viku lagði höfundur aðsendrar greinar fram ósk um „færri kerlingar við völd“ og bað konur um að nýta „hormónaflæði“ sitt í „eitthvað uppbyggilegra en að garga úr ræðustól Alþingis“. Í síðasta mánuði gagnrýndi Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á Facebook mótmæli sem honum þóttu óviðeigandi „á þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingis“.
Á tímum þegar mannkynið getur lesið með gervigreind það sem fór um huga forfeðra okkar fyrir tvö þúsund árum er erfitt að trúa ekki á framþróun. Það er erfitt að trúa því ekki að kerlingaandúðin í Morgunblaðinu, fyrirlitningin sem utanríkisráðherra sýnir borgararéttindum og mislingafaraldur á tímum bólusetninga séu ekki annað en litlar ójöfnur á „boga hins siðaða heims“. En það er einmitt í þeirri trú sem fall okkar er falið.
„Engin tækni mun þó nokkurn tímann frelsa okkur undan reiptogi hverfulleikans.“
Talið er að höfundur hins steinrunna handrits hafi verið heimspekingur sem aðhylltist kenningar Epikúrosar um að vellíðan væri hin æðstu gæði. Í handritinu virðist hann ráðast gegn andstæðingum sínum, stóuspekingunum, sem sökuðu Epikúros um að vera nautnasegg.
Við fundum upp prentvélina og flugvélina, atómsprengjuna og internetið, gufuvélina og gervigreindina. Engin tækni mun þó nokkurn tímann frelsa okkur undan reiptogi hverfulleikans. Neysla og nægjusemi. Kvenréttindi og kúgun. Lýðréttur og gerræði. Upplýsing og vanþekking. Stríð og friður. Mesta ógnin við frelsi, frið og frjálslynd gildi er andvaraleysið sem fylgir þeirri trú að þau séu komin til að vera.
Athugasemdir