„Íslensk stjórnvöld eru ekki að gera nóg til þess að aðstoða palestínsku þjóðina. Því erum við komin hérna í dag, íslenskir nemendur, til að styðja Palestínu og palestínskt fólk á Íslandi.“
Stór hópur nemenda úr skólum höfuðborgarsvæðisins var mættur á Austurvöll í dag til að mótmæla og styðja Palestínu. Nemendur í 8. bekk í Hagaskóla efndu til mótmælanna og héldu úti Instagram síðunni Skólaverkfall Palestínu.
Blaðamaður Heimildarinnar náði tali af skipuleggjendum fyrir utan Hagaskóla áður en gengið var af stað á Austurvöll. Hugmyndin að mótmælunum spratt upp þegar þau heimsóttu tjaldbúðir sem stóðu á Austurvelli í janúar. „Við erum að mótmæla þjóðarmorði í Palestínu.“
Kröfur nemendanna eru fimm:
- Að íslensk stjórnvöld veiti flóttafólki frá Palestínu þá sameiningu sem búið er að samþykkja og sækja fjölskyldurnar út af Gasa og komi þeim heim til Íslands strax!
- Að Palestínskt fólk á flótta fái alþjóðlega vernd og brottvísunum verði hætt!
- Að Ísland taki afstöðu gegn þjóðarmorðinu sem Ísraelsher er að fremja á Gasa
- Að Palestínsku fólki sem er búið að vera að mótmæla á Austurvelli fái fund með dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra Íslands.
- Að Ísland geri allt sem það geti á alþjóðavettvangi til þess að þrýsta á vopnahlé og endalok hernámsins í Palestínu.
„Stjórnvöld! Hættið að brottvísa fólki á flótta undan þjóðarmorði úr landi. Sameinið fjölskyldurnar eins og um var samið. Takið afstöðu gegn þjóðarmorði og beitið ykkur fyrir vopnahlé og frjálsri Palestínu á alþjóðavettvangi. Við íslenskir nemendur neitum því að Ísland verði samsekt þjóðarmorði,“ sögðu nemendur Hagaskóla í ræðu á Austurvelli í dag.
Vill ekki að Ísland taki þátt í Eurovison
Ingólfur Haraldsson, nemandi í Tjarnaskóla, sagðist mótmæla „fyrir Palestínu. Það er ekki gott það sem er að gerast í Palestínu núna og við viljum alls ekki hafa þetta svona. Við viljum hafa frið. Þessi stjórnvöld eru ekki að gera neitt í þessu og þau eru einu sem geta gert eitthvað í þessu“.
„Þetta er bara þjóðarmorð og það er ekkert verið að gera í því,“ sagði Arnaldur Árnason, nemandi í Tjarnarskóla. „Þetta er bara mjög skrítið, til dæmis með Eurovision. Rússar mega ekki keppa en samt má Ísrael keppa. Þetta er viðbjóður. Ég skil ekki af hverju það er verið að leyfa svona“ Arnaldur vill ekki að Ísland taki þátt í Eurovision. „Mér finnst eins og það ætti að vera sama ástæða að Ísrael má ekki keppa eins og Rússland. Það er ekki gert neitt í þessu.“
Mótmælin voru að mestu friðsæl en lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkurum ungmennum sem tóku upp á því að kasta eggjum í þinghúsið.
Athugasemdir