Ég smyr flatköku með hummus fyrir dóttur mína. Hún stendur við fætur mér og nær mér rétt fyrir ofan hné, treður höfðinu milli læranna minna og nuddar sér fram og til baka. „Meia, meia“ segir hún áköf þegar hún kemur auga á góssið í höndunum mínum. Ný orð detta inn á hverjum degi, og þó ég sé hætt að tárast þegar ég heyri hana segja eitthvað sem hún hefur aldrei sagt áður, þá finnst mér það ennþá jafn merkilegt. Hún grípur í flatkökuna og treður henni upp í sig í einum bita. Ég fæ ennþá fyrir hjartað þegar ég fylgist með henni borða. Ég rifja upp verklagið um aðskotahlut í öndunarvegi. Hún kúgast. Ég tek viðbragð, en hún er búin að jafna sig áður en ég næ til hennar.
Flatkakan er íslensk. Ég ímynda mér einhverja formóður mína langt aftur í öldum, bograndi yfir eldstónni. Deigið flatt eins þunnt og hægt var til að drýgja kornið. Ég henti pakka í ruslið í gær. Hann var farinn að mygla.
Formóðir mín hefur aldrei heyrt um hummus. Hann er aðfluttur, frá Mið-Austurlöndum. Við bjóðum menningarafurðir velkomnar en afþökkum fólkið sem bjó þær til. Annars staðar í heiminum bíða vörubílar fullir af mat í röð. Þeir eru frá hjálparsamtökum, en þeim er ekki hleypt framhjá vopnuðum vörðunum. Hinum megin við ímynduðu línuna sem er dregin yfir yfirborð jarðarinnar bíða sársvöng börn. Með sokkin augu og útstæða maga. Dóttir mín bendir upp í himininn. „Fu!“ hrópar hún upprifin. Við erum við tjörnina og óhljóðin í flugvélinni yfirgnæfa gjammið í gæsunum. Ég bölva illa staðsettum flugvelli en strýk dóttur minni blíðlega um kollinn. Já, ástin mín. Þetta er flugvél.
Annars staðar vekur vélarniður annars konar ugg. Vélar sem fara yfir heimili, yfir flóttamannabúðir, yfir spítala. Með dauðann í maganum.
Dóttir mín vaknaði við flugeldana á Gamlárskvöld. Ég hélt utan um hana og strauk henni um hárið, þar til hún sofnaði aftur í fanginu á mér. Hún kipptist til við sprengingarnar en vaknaði ekki aftur. Örugg í mömmufangi.
Annars staðar getur ekkert mömmufang veitt skjól fyrir sprengingunum. Ég opna Instagram og hryllingurinn sem blasir við mér er svo mikill að ég eyði appinu úr símanum. Ég gríp í dóttur mína og faðma hana að mér. Hún iðar og losar sig úr fanginu á mér, of upptekin við að skoða heiminn til að veita mér eftirtekt.
Um kvöldið get ég ekki sofnað.
Þetta er gömul saga og ný. Upp í hug minn kemur mynd af litlum dreng. Hann er þriggja ára gamall. Hann er í rauðum bol og svörtum buxum. Hann liggur á grúfu í flæðarmálinu. Þessi mynd var út um allt. Á forsíðum fréttamiðla, í sögum á Instagram, í færslum á Facebook. Fólk var dapurt, svo varð það reitt. Svo varð það þreytt. Það var enginn að hlusta. Hversdagurinn hrannaðist upp fyrir augunum á þeim. Það þurfti að fara með bílinn í viðgerð, reikningurinn frá tannlækninum var hærri en búist var við, enn einn stormurinn olli umferðarteppu akkúrat þegar barnið var orðið of seint í tónlistarskólann. Þangað til næsta ljósmynd fór á flug og fólk tók aftur við sér.
Ég hugsa um móður hans. Er hún á lífi? Sofnaði hann við brjóst hennar á meðan hún strauk honum um hárið? Hvíslaði hún ást sinni að honum í myrkrinu? Eins og ég geri við dóttur mína.
Það er auðvelt að gleyma því sem við erum ekki stöðugt minnt á.
Myndir og myndbönd hafa meira vægi í huga okkar en tölurnar sem segja það sama. Þetta veit fólkið á Gaza. Við fáum ekki að gleyma þeim. Í fjóra mánuði hafa þau stöðugt minnt okkur á sig. Börn sveipuð hvítu líni, með augun lukt eins og í svefni. Þúsundir lítilla svefngengla. Þúsundir lítilla engla. Mæður umvefja línið örmum sínum. Andlitin afmynduð af
harmi. Feður kyssa þau á augnlokin. Börn gráta og kalla á mæður sem munu aldrei svara þeim aftur.
Og þá gerist hitt. Því fleiri sem myndirnar verða, því minni verða viðbrögðin. Við verðum dofin. Þetta hættir að meiða. Þúsund lítil sár, sem drepa í okkur mennskuna. Þeir sem fara með völdin bíða eftir þessu. Þau vilja að við séum lítil og vonlaus. Bíða eftir því að við missum móðinn svo þau komist upp með að gera ekki neitt. Business as usual, takk. Aðgerðarleysið er morðvopn.
Fimm börn á fjölskyldusameiningarlistanum eru dáin. Fimm börn sem gætu verið komin til Íslands. Fimm börn sveipuð líni. Fimm litlir svefngenglar. Fimm litlir englar. Þau mega ekki komast upp með þetta. Það er óafsakanlegt að gera nokkuð minna en allt það sem í okkar valdi stendur til þess að bjarga eins mörgum og við mögulega getum. Á meðan það er enn einhver sem dregur andann á Gaza, þá er það ekki of seint.
Dóttir mín er loksins sofnuð. Hún brölti í hálftíma. Greip handfylli af hárinu á mér og togaði. Gróf tánum sínum í kinnina á mér. Reif úr sér dudduna og blaðraði út í loftið: „lúlla… neeeei… lúlla… neei.“ Ég þurfti að draga djúpt andann til að halda stillingu, mig langaði bara fram að horfa á Netflix.
Annars staðar er móðir sem mun aldrei aftur finna tærnar á barninu sínu í andlitinu á sér. Aldrei aftur finna litlar lúkur í hárinu á sér.
Ég held utan um dóttur mína í myrkrinu, en ég segi ekki neitt. Það er ekkert meira að segja.
Athugasemdir (1)