„Þessi maður hefur sín réttindi og þau eru tekin af honum með ólögmætum hætti,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, um mál fanga á Litla-Hrauni sem var sviptur sjálfræði og látinn taka geðrofslyf gegn vilja sínum.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um sjálfræðissviptinguna en Landsréttur vísaði málinu frá á grundvelli þess að það hefði verið háð á röngu dómþingi; maðurinn hefði dvalið á Litla-Hrauni nánast allt árið 2023 og málið hefði því átt að fara fyrir Héraðsdóm Suðurlands. „Það er mjög alvarlegt að svipta fólk sjálfræði og það á að vera mjög erfitt að gera það,“ segir hann.
Heimildin greindi frá málinu í liðinni viku. Þar kom fram að fangi í gæsluvarðhaldi hafi verið þvingaður gegn vilja sínum til að fá forðasprautur af sterku geðrofslyfi. Maðurinn var sviptur sjálfræði samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 2. janúar en Landsréttur hefur vísað málinu frá dómi þann 23. janúar á grundvelli þess að það hafi verið háð á röngu löggjafarþingi. Maðurinn er því aftur kominn með sjálfræði en á lyfin fékk hann á meðan hann var sviptur.
Segir mannréttindi fangans brotin
„Við viljum meina að það sé ekki nægjanlega hlustað á fólk. Það eru mannréttindi að fá að segja ‘Nei, ég vil ekki þessa meðferð.’ Það er okkar sýn. Hér var ekki hlustað á mann sem sagði ‘Mig langar ekki að taka þessi geðrofslyf’,“ segir Grímur.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni síðan í lok mars 2023. Hann var andsnúinn því að vera lagður inn á geðdeild og mótmælti því að taka geðrofslyf í töfluformi. Verjandi mannsins útilokar ekki miskabótakröfu.
Grímur segir mannréttindi fangans hafa verið brotin. „Hann vildi sjálfur ekki taka lyf, og hann var neyddur til að gera það á grundvelli úrskurðar sem stóðst ekki lög. Hann á auðvitað að geta sótt rétt sinn,“ segir hann.
Ekki nýtt af nálinni að kjósa frekar fangelsið
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, gagnrýndi vinnubrögð í máli mannsins harðlega. „Öllum er ljóst að víða er pottur brotinn þegar kemur að meðferð þessa máls og mörgum öðrum, og á meðan heilbrigðiskerfið og dómskerfið deila um hver eigi að sjá um einstaklinginn er fólk fársjúkt í fangelsi. Hvar erum við eiginlega stödd?“ spurði hann í samtali við Heimildina á dögunum og segist vel geta tekið undir orð Inga Freys Ágústssonar, lögmanns mannsins „um að það er bara allt rangt við þetta og að þetta er mjög alvarlegt mál.“
Grímur er sammál því að það skjóti skökku við að veikur maður sé vistaður í fangelsi. „Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti sem við heyrum að menn sem hafa verið dæmdir, verið ýmist á réttargeðeild eða öryggisgeðdeild, að þeir vilji frekar vera í einangrun í fangelsi. Það er virkilega sorglegt. Geðdeildirnar eru svo lyfjamiðaðar, sem er ekki gott. En til að taka upp hanskann fyrir starfsfólk geðdeildirnar þá búa þær við mikinn skort. Fjármagnið sem fer til þeirra er lítið, húsnæðið er slæmt,“ segir hann.
Engin viðbrögð frá velferðarsviði
Þá bendir Grímur á að á morgun, föstudag, sá á dagskrá RUV styrktarþátturinn „G vítamín - gott fyrir geðheilsuna“ þar sem stóra myndin verði skoðuð í geðheilbrigðismálum Íslendinga. Þar séu meðal annars skoðaðar geðdeildir í Danmörku sem Grímur segir fá mun meira fjármagn en tíðkist hér á landi og þar starfi aðeins fagmenntað starfsfólk, sem æskilegt væri hér.
Þegar Heimildin óskaði eftir viðbrögðum vegna frávísunarinar frá velferðarsviði Reykjavíkur sem fór fram á sjálfræðissviptinguna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fengust þau svör að starfsfólk borgarinnar tjái sig ekki um dómsmál eða um málefni einstaklinga.
Athugasemdir