Embætti ríkislögmanns á í samskiptum við stofnanir og ráðuneyti vegna kröfu ekkju fyrsta plastbarkaþegans, Andemariam Beyene, um skaðabætur vegna læknismeðferðarinnar sem hann fékk á Landspítalanum.
Þetta segir Fanney Rósa Þorsteinsdóttir ríkislögmaður í svari í tölvupósti við spurningu Heimildarinnar um stöðu málsins. „Það er rétt, málið er hjá embætti ríkislögmanns. Það er enn þá í vinnslu (liður í því er samskipti við tilheyrandi ráðuneyti og stofnanir) og niðurstöðu ekki að vænta alveg strax.“ Ekkjan heitir Merhawit Baryamikael Tesfaslase og er búsett í Svíþjóð.
Landspítalinn sendi erindi til ríkislögmanns vegna málsins í desember í kjölfar þess að Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, bað Mehrawit afsökunar á læknismeðferðinni sem Andemarian fékk. Karolinska-sjúkrahúsið í Svíþjóð hefur til samanburðar ekki haft samband við Mehrawit og beðið hana afsökunar eða sett í gang það ferli að greiða henni skaðabætur.
Athugasemdir