Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein í breskt tímarit um kynjaviðhorf í bókaútgáfu á Íslandi og víðar. Þegar ég fékk blaðið í hendur rann á mig heiftaræði. Í Bretlandi tíðkast gjarnan að ritstjórar semji fyrirsagnir tímaritsgreina. Fyrirsögn greinar minnar var: „A song of Iceland fire“. Söngur um Íslands eld! Mig hryllti við því að nokkur manneskja drægi þá ályktun að slík klisja ætti upptök sín í lyklaborðinu mínu.
Ef til vill hefði ég þó litið málið öðrum augum hefði ég gripið tækifæri sem mér gafst áratugum fyrr til að berja augum það sem lá handan klisjunnar.
Sem unglingur fór ég í kórferðalag til Færeyja og Danmerkur með barna- og unglingakór Langholtskirkju. Einn söngvanna sem við sungum var lag Páls Ísólfssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, „Úr útsæ rísa Íslands fjöll/með eld í hjarta þakin mjöll“. Síðasta siglingardaginn heim með Norrænu lagði kórstjórinn, Jón heitinn Stefánsson, til að kórinn vaknaði við sólarupprás og berði þá mögnuðu sjón augum sem við sungum um er land elds og ísa reis úr sæ.
Margar kynslóðir eiga Jóni Stefánssyni að þakka menningarlegt uppeldi sitt. Sú lexía sem óhörðnuðum sálum var innrætt þennan morguninn fór hins vegar fram hjá mér. Eins og sönnum unglingi sæmir svaf ég yfir mig.
Disneyland náttúruaflanna
Í desember mætti ég klifjuð vínflöskum og íslensku súkkulaði í öll jólaboðin í London þar sem ég bý. Súkkulaðið vakti gjarnan umræður en pakkningar þess voru ýmist skreyttar ljósmyndum af lunda, norðurljósum eða eldgosi. Ég gerði grín að klisjunum og sagði brandara um að Ísland væri Disneyland náttúruaflanna – ef heppnin væri með gestum sæju þeir norðurljósin og túristagos. Skál! En skyndilega hættu umbúðirnar að vera fyndnar.
„Í lok aldarinnar spurðu Íslendingar sig eftirfarandi spurningar af fyllstu alvöru: Er Ísland byggilegt?“
„Það er einkenni á nútímamanninum, að hann hefur ofboðslega háar hugmyndir um sjálfan sig,“ sagði Trausti Valsson skipulagsfræðingur í samtali við Heimildina í síðustu viku. Trausti sagði Grindavík vera einn margra hættulegra staða hér á landi þar sem byggt hefði verið án tillits til náttúruvár. Hann sagði hroka nútímamannsins valda því að lítið væri hlustað á reynslu sögunnar. „Það þurfa alltaf að koma upp ægilegar hörmungar til að fólk kveiki á málefnum. Þá loksins er eins og þjóðfélagið vakni,“ sagði Trausti.
Með pylsu í annarri og Tuborg í hinni
Átjánda öldin lék Íslendinga grátt. Á árunum 1707 til 1709 lést fjórðungur þjóðarinnar úr bólusótt. Á árunum 1751 til 1758 geisaði hungursneyð vegna kulda, hafíss og lítils fiskafla. Árið 1783 hófst eitt mesta eldgos Íslandssögunnar, Skaftáreldar. Hraunkvika lagði tugi bæja í eyði og eitruð gjóska olli mengun og búfjárdauða um land allt en talið er að fimmtungur þjóðarinnar hafi látið lífið.
Í lok aldarinnar spurðu Íslendingar sig eftirfarandi spurningar af fyllstu alvöru: Er Ísland byggilegt? Embættismönnum var falið að kanna þá hugmynd að flytja alla þjóðina til Danmerkur.
Einn þeirra sem spáðu í spilin var Hannes Finnsson, biskup í Skálholti. Árið 1796 birti Hannes niðurstöður athugunar sinnar í ritinu Mannfækkun af hallærum. Komst Hannes að þeirri niðurstöðu að Íslendingum væri ekki betur borgið í Köben með pylsu í annarri hendi, Tuborg í hinni og Kim Larsen í eyrunum. Þótt þjóðin hefði gengið í gegnum mikil áföll vegna harðinda og náttúruhamfara hefði henni alltaf tekist að rétta við aftur: „Ísland fær tíðum hallæri, en ekkert land í Norðurálfunni er svo fljótt að fjölga á ný manneskjum, og bústofni sem það, og er því eigi óbyggjandi.“
Þegar eldgos hófst við Grindavík blasti skyndilega við veruleikinn handan klisjunnar. Land elds og ísa, sem Mikka-mús-væðing ferðaþjónustunnar og súkkulaðiframleiðenda sveipaði söluvænu sakleysi, reyndist það skaðræðissker sem blasti við í sögubókunum.
Trausti Valsson heldur því fram að mistök hafi verið gerð við skipulag byggða víða um land. Hann vonast til að atburðir síðustu vikna leiði til vitundarvakningar um skipulag með tilliti til þeirrar vár sem hraunrennsli er.
Embættismenn 18. aldar komust að þeirri niðurstöðu að Ísland væri vel byggjandi vegna þess hve hratt þjóðin fyllti upp í það skarð sem náttúruöflin hjuggu. Að standa hratt upp aftur getur þó varla talist viðunandi viðbúnaður við náttúruvá. Á stjórnvöldum 21. aldar hvílir sú siðferðisskylda að takmarka eftir fremsta megni skaðann sem hlotist getur af Íslands eldi.
Ef það væri heil brú í frægðarljósafíkn stjórnmálamanna og eyðslu og bruðli framkvæmdarvaldsis væri fræðilegur möguleiki að siðferði væri í orðabókinni þeirra. Svo er ekki.
Dæmi um siðblinda sýndarmennsku:
Fyrirsögn í Vísir "Skoða að nota skattarlega hvata til að auka framboð á húsnæði"
Húsnæðisvandinn hefur verið í áratugi, kostnaðurinn og framkvæmdarvaldið tekur 50 % plús af byggingarkostnaði og tekur lengur að skrifræða en að byggja... 2 ár í byggingu en 3 í skriffinnsku kerfa ríkis og borgar.
Nú fyrst þegar búið er að tæma alla sjóði í eitthvað annað og inneignin i baktryggingum er framreiknaðir sýndarpeningar og ekki hægt að hunsa málin og Grindvík óbyggileg þá á allt í einu að fara gera eitthvað... bara svo ekki sjáist að búið er að hreinsa alla sjóði, útvista allri ábyrgð og leggja niður nær allt eftirlit.
Og hver á svo að borga ? Ekki atvinnurekandinn erlendi né íslenski ... það verður skjaldborg um þá ...frítt ... eins og um kröfuhafa föllnu bankanna .... deja vu einhver ? Enginn munur á hægri og vinstri þegar follow the money er tekið á dæmið.
Og fyrir hvern Grindvíking sem fær íbúð missir einhver annar möguleikann... og leiguverð hækkar... þið takið eftir þögninni um þá umræðu ? lög og reglur um leigu og leiguverð ?
Dæmigert yfirborðskennt sýndarmennskuhjal og það er siðblinda.
Forspár maður Hannes!