Grindvíkingar eru að takast á við erfiða tíma.
Vegna þeirra skelfilegu aðstæðna sem nú eru í Grindavík og nú þegar orðið ljóst að langur tími getur liðið þar til eðlilegt ástand skapast til almennrar búsetu í bænum ný. Það mun þó vonandi gerast sem fyrst, en á meðan eru íbúar í algjörri óvissu um hvað tekur við á næsta degi, í næstu viku, næsta mánuði eða jafnvel næsta ári.
Náttúruhamfarir eru alvarlegustu viðburðir sem upp koma í hverju samfélagi og þeir sem eru hvað óviðráðanlegastir fyrir okkur íbúa landsins og þá sérstaklega þá sem fyrir þeim verða. Það er upplifun sem enginn óskar sér að lenda í eða búa við alvarlegar afleiðingarnar þeirra til skemmri eða lengri tíma. Í slíkum áföllum er ljóst að enginn fær allt bætt sem fer forgörðum við slíka atburði og alls ekki það tilfinninga- og heilsutjón sem hlotist getur af slíkum atburðum þó ekki verði líkamlegir áverkar.
„Hvenær er altjón á eign? Það er hlýtur að vera þegar hún er ekki lengur nýtanleg og ekki ljóst að hún verði nýtanleg á ný í nánustu framtíð og ekki seljanleg.“
Mér finnst það skjóta mjög skökku við þegar maður kynnir sér lög um tjónabætur frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands sú áhersla sem lögð er á eigin áhættu tjónþola. Hvergi er minnst á tjónabætur vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem fólk er komið í þegar slíkir atburðir eiga sér stað. Þegar heilt samfélag lendir í slíkum áföllum eins og Grindvíkingar ganga nú í gegnum er ekki hægt að bjóða fólki upp á slíkar bótaskerðingar og fram koma í lögunum. Að mínu viti er þetta ekki fólki bjóðandi þegar um náttúrhamfarir er að ræða því ekki er hægt að láta fólk líða fyrir að hús þeirra sem standa á viðurkenndum skipulögðum svæðum sveitarfélaga og opinberum aðilum tekst ekki að verja fyrir áföllum.
Úr lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands nr. 55-1992 með síðari breytingum:
☐ 10. gr.
☐ [Eigin áhætta vátryggðs skal vera [2%] af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir:
1. Vegna lausafjár, sem vátryggt er skv. 1. mgr. 5. gr., [200.000 kr.]1)
2. Vegna húseigna, sem vátryggðar eru skv. 1. mgr. 5. gr., [400.000 kr.]1)
3. Vegna mannvirkja, sem vátryggð eru skv. 2. mgr. 5. gr., [1.000.000 kr.] ]
Það er einfalt reikningsdæmi að finna út hversu háar upphæðir hér er um að ræða, ekki óalgengt að eigináhættan liggi á bilinu einni til tveimur milljónum á hús í flestum tilfellum. Það er óásættanlegt þegar verið er að fást við náttúruhamfarir.
Hvenær er altjón á eign? Það er hlýtur að vera þegar hún er ekki lengur nýtanleg og ekki ljóst að hún verði nýtanleg á ný í nánustu framtíð og ekki seljanleg.
Nú er ljóst að ástandið í Grindavík er þannig. Fólk er í fjötrum og því er nauðsynlegt að það verði tekið á þessu ástandi af myndugleik. Ekki er hægt að binda fólk við að það geti kannski flutt heim á næstu mánuðum eða árum en í sum hús verður örugglega ekki flutt. Síðan er margt fólk sem alls ekki getur hugsað sér að flytja aftur heim við þessar aðstæður og jafnvel alls ekki. Það eru jafngildar ástæður eins og að vilja flytja heim sem allra fyrst.
Þetta ástand er allt annað en þegar tjón verður á einni og einni eign í venjulegum áföllum eins og algengast er, til dæmis bruna.
Það sem skynsamlegast er að gera er að kaupa eignir Grindvíkinga, eins og kröfur hafa komið fram um, og á sem eðlilegustu verði miðað við markað eins og hann væri við eðlilegar aðstæður því að frávik í opinberum mötum geta verið með þeim hætti að ekki sé ásættanlegt. Til dæmis geta komið upp mikil frávik í brunabótamati eldri eigna í raunveruleikanum vegna afskriftarreglna í útreikningi brunabótamats ef búið er að gera eignina upp að stórum hluta og ekki hefur farið fram endurmat eftir endurbæturnar sem er því miður mjög algengt. Þá er fasteignamat og ekki alltaf góð viðmiðun að öllu leyti þar sem gildandi fasteignamat er líka háð vissum annmörkum enda um að ræða fjöldamat sem ekki byggir á skoðun hverrar fasteignar hverju sinni. Þetta þarf að skoða mjög vel til að sanngirni verð gætt að svo miklu leyti sem hægt er.
Það þarf að átta sig á því að fólk þarf að kaupa eignir aftur í öðrum sveitarfélögum til að leysa sín húsnæðismál á fullu markaðsverði. Þar er ekki hægt að gera ráð fyrir að neinn afsláttur verði af því verði sem í boði er nema síður væri.
Fólk þarf að fá út úr sinni eign það eigið fé sem það á umfram áhvílandi lán miðað við eðlilegt ástand. Þannig geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um hvernig þeir vilja haga sínum málum. Ríkissjóður þarf ekki að leggja strax út hverja krónu heildarverðs því vafalaust er ekki erfitt fyrir ríkissjóð að semja við veðhafa um að áhvílandi lán fái að hvíla áfram á eigninni. Einnig þarf að ganga svo frá að þegar og ef talið verður óhætt að búa í bænum af fullu öryggi eigi seljendur forkaupsrétt að eigninni þegar hún verður sett í sölu. Hvenær sem það getur orðið.
Höfundur er löggiltur fasteignasali, leigumiðlari og eignaskiptalýsandi.
Athugasemdir