„Fjölskylda okkar myndi ekki vilja vera tengd við það hvernig lax er framleiddur í opnum sjókvíum dag. Þessi mótmæli, sem 84 ára gamall faðir minn setti fram, urðu tilefni frétta víða um heim,“ segir Norðmaðurinn, Frederik W. Mowinckel, ættingi stofnanda laxeldisfyrirtækisins Mowi, sem er stærsti hluthafi Arctic Fish á Ísafirði, í umsögn um frumvarpið um lagareldi sem legið hefur til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda á Íslandi. Mowi heitir eftir fjölskyldu Frederiks en frændi hans, Thor Mowinckel, stofnaði fyrirtækið á sínum tíma á sjöunda áratugnum.
Í umsögn Fredriks Mowinckels er rakið hvernig fjölskyldan barðist gegn því árið 2018 að Mowi nafnið yrði notað á fyrirtækið en þá breytti laxeldisrisinn Marine Harvest um nafn. Mowi hafði orðið hluti af Marine Harvest í viðskiptum á míunda áratugnum en Mowinckel fjölskyldan hafði þá meðal annars verið orðin ósátt við umhverfisáhrifin af laxeldinu. Mótmælin sem Frederik W. Mowinckel vísaði til að 84 ára gamall faðir hans hafi sett fram snerust um að ekki væri við hæfi að nafn fjölskyldunnar yrði notað á fyrirtækið.
Alls hafa borist 305 umsagnir um lagafrumvarpið, nokkrar frá þekktum einstaklingum eins og stofnanda Patagonia, Yvon Chouinard, og tónlistarmanninum Bubba Morthens.
„Við reyktum einu sinni í flugvélum og keyrðum bíla án þess að vera með öryggisbelti.“
Mowi var stofnað á sjöunda áratugnum í Noregi, líkt og mörg önnur þekkt norsk laxeldisfyrirtæki, og segir Mowinckel að þá hafi sjókvíaeldi kannski verið í lagi af því ekki lá fyrir hversu slæm umhverfisáhrifin af því væru. „Eins mikið og ég vildi að við hefðum aldrei stofnað Mowi þá trúi ég því líka að það sem við gerðum í fortíðinni hafi verið allt í lagi þá, en það er ekki lengur í lagi. Í slíkum aðstæðum verðum við að breytast, Þetta er bara svo einfalt. Við reyktum einu sinni í flugvélum og keyrðum bíla án þess að vera með öryggisbelti. Við gerum þetta ekki lengur af því að við höfum áttað okkur á því að þetta er ekki í lagi. Hið sama á við um sjókvíaeldið.“
Samkvæmt því sem Mowinckel segir þá er sjókvíaeldi, eins og það er stundað í opnum sjókvíum, skaðlegt náttúrunni en að samt fái þess fyrirtæki að halda áfram að stækka: „Og samt fá laxeldisfyrirtækin að halda áfram árásum sínum á eina strandlengju eftir annarri. Af hverju?“
„Fleiri og fleiri Norðmenn eru, eins og ég, farnir að skammast sín fyrir að vera frá Noregi“
Hann endar umsögnina, eftir breiðsíðuárás á Noreg, svo á því að segja að villimenn - norsk laxeldisfyrirtæki - knýi dyra á Íslandi og að ekki eigi að hleypa þeim inn. „Ekki leyfa fyrirtækjum frá slíku landi að eyðileggja náttúruna. Þetta eru barbarar sem knýja dyra hjá ykkur, dömur mínar og herrar: Ekki hleypa þeim inn. Ekki leyfa laxeldi í opnum sjókvíum. Þið munið enda röngum megin í mannkynssögunni.“
Athugasemdir (31)