Almenningur á nytjastofna við Íslandsstrendur en ekki Kristján Loftsson. Þótt niðurstaða Umboðsmanns Alþingis, vegna hvalveiðiákvörðunar matvælaráðherra, ætti að koma fáum á óvart vantar svolítið upp á að hagsmunir eiganda auðlindarinnar fái rými í umræðunni í kjölfar álitsins. Hvernig má það vera að ekki sé hægt að stöðva veiðar, afturkalla veiðileyfi, viðhalda heilindum laga um dýravelferð og að lokum stýra veiðum í samræmi við vilja almennings sem á auðlindina? Svarið er að það er hægt en stjórnarmeirhlutinn samdi sérstaklega um það við myndun ríkisstjórnarinnar að hvalveiðar yrðu ekki bannaðar. Þess vegna hefur þingið ekki samþykkt nýja löggjöf.
Spurningin um hvort ráðherra skuli segja af sér er því mjög einföld. Ráðherra sem ekki nýtur trausts almennings á að víkja. Umboðsmaður rekur ekki ráðherra heldur þarf aðkomu ráðherra eða þingsins. Þingmenn og þá sérstaklega stjórnarliðar ákveða dag frá degi hver er ráðherra. Nú kalla þeir sem beinlínis fara með þetta vald eftir brotthvarfi ráðherra. Hvers vegna gera þeir þá ekkert með með vald sitt? Það er ekki til staðar nokkur óvissa um skoðun ráðherra á stöðu sinni. Slíkur málflutningur mánuðum saman er ótrúverðugur af hendi þeirra sem fara með atkvæði um stöðu ráðherra.
Þetta heitir einfaldlega skrum. Annað hvort vantreysta þeir ráðherra og losa sig við eða ekki. Það er ekkert vond regla að ráðherrar séu látnir fara fyrir ákvarðanir sem ekki eru lögum samkvæmt en ef menn þykjast aðhyllast þá sýn geta þeir ekki mánuðum saman sleppt því að grípa til atkvæðagreiðslu.
Auðvitað snýst þetta um hvalveiðar
Hvalveiðar voru til umræðu við myndun núverandi ríkisstjórnar. Ítrekað hefur komið fram að flokkarnir séu ósammála um veiðarnar. Þann 27. júní síðastliðinn ræddi fréttastofa RÚV við formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja um málið. Þá kom fram af hálfu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að hvalveiðar hafi verið ræddar sérstaklega við myndun ríkisstjórnarinnar. Þar hafi verið rætt hvort flokkarnir gætu verið sammála um að stöðva hvalveiðar en um það hafi þau ekki getað sammælst. „Þegar veiðarnar eru stöðvaðar með þessum hætti þá er mér brugðið, ég er ekki sáttur við það,“ sagði Bjarni við RÚV.
Svandís Svavarsdóttir er einfaldlega ráðherra í ríkisstjórnarmeirihluta þar sem hvalveiðibann hefur verið sett út af borðinu fyrir pólitíska hagsmuni.
Einn hluti málsins er einfaldlega sá að stjórnarliðar, ráðherrar og þingið allt hefur lengi vitað að löggjöf um hvalveiðar er ekki nægilega góð. „Núgildandi hvalveiðilöggjöf er frá árinu 1949 og var á sínum tíma sett til þess að unnt væri að framfylgja þeim ákvæðum um nýtingu hvalastofnanna sem samþykktar væru á vegum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Lögin bera því sterk kennimerki liðins tíma og þarfnast endurskoðunar með hliðsjón af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og þeirri þróun sem hefur orðið á stjórnsýslurétti,“ segir til að mynda í greinargerð stjórnarfrumvarps um hvali frá 2009. Lögin eru til að mynda svo gömul að ekkert er í þeim lögum um eignarhald almennings á hvalveiðiauðlindinni þótt nytjastofnar séu sannarlega eign almennings.
Það þarf þó ekki að fara svo langt aftur í tímann því árið 2013 kom út skýrsla um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra þar sem farið var ítarlega yfir stjórnsýslulega og lagalega stöðu mála sem er einfaldlega í ruslflokki þegar kemur að stjórn og vernd dýranna.
Þingið og ráðherra vissu síðasta sumar að heimildir skorti
Nú er mikilvægt að taka fram að niðurstaða umboðsmanns er skýr og komið hefur fram að Hvalur hf. hyggur á að sækja bætur fyrir dóm. Það er þó ekki hægt annað en að fara aðeins yfir þá staðreynd að þingið og ráðherra voru meðvituð um veikleika í lögum. Í kjölfar skýrslu MAST um vegna eftirlits við veiðar á langreyðum við Ísland árið 2022 óskaði atvinnuveganefnd eftir opnum fundi með ráðherra. „Staða málsins er sem sagt sú að óvíst er hvort það sé yfir höfuð hægt að stunda þessar veiðar í samræmi við þau gildi sem samfélagið hefur sett í lögum um velferð dýra,“ sagði ráðherra á þeim fundi. „Það er álitaefnið og samkvæmt lögunum er það fagráðið sem er matvælastofnun til ráðgjafar í þessum efnum. Þessi óvissa er mjög sérstök þar sem ekki er sama óvissa um neinar aðrar veiðar á Íslandi.“
Nefndarmenn spurðu ráðherra bæði út í viðurlög við því að „standa rangt að hvalveiðum“. Hvers vegna hún banni ekki veiðarnar og ef henni skorti verkfæri til að bregðast við hvers vegna hún leitaði ekki til þingsins? Ráðherra svaraði á þá leið að ekki sé heimild í lögum til að afturkalla hvalveiðileyfi.
Ráðherra benti um leið á að hvort viðurlög séu við því að standa rangt að hvalveiðum eigi mögulega ekki við vegna þess að veiðarnar farið fram með „bestu aðferðum sem þekktar eru“ og því væri spurningin „hvort að það sé einhver önnur leið sé til að standa að hvalveiðum eða hvort umræðan sé um hvort standa eigi að hvalveiðum yfir höfuð.“
Hvers vegna bannaði ráðherra ekki hvalveiðar
Þá var ráðherra spurð hvenær hefði kannað möguleika á að stöðva veiðarnar og ef verkfæri til að stöðva veiðar skorti hvers vegna hún leiti ekki til þingsins. Ráðherra svaraði því sem svo að ráðuneytið stæði í gagnaöflun og síðar yrði að kanna hvort tilefni væri til að endurskoða löggjöf. „Er ég þá kannski sérstaklega að hugsa um lög um hvalveiðar sem eru sannarlega mjög gömul og eru ekki nútímaleg á nokkurn hátt og kann að vera að til þess komi en þetta verður allt að skoða í því samhengi.“ Á fundinum sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, að hún velti fyrir sér hvers vegna „yfirlýstur og sannreyndur náttúruverndar- og dýraverndunarsinni sem er núna í ráðherrastól hefur einfaldlega ekki stigið niður fæti og stoppað þetta.“
Hanna Katrín sagði um leið að „þetta dekur stjórnvalda við eitt fyrirtæki, einn mann, er bara ekki sjálfbært á nokkurn hátt. Ekki fjárhagslega. Ekki samfélagslega. Ekki umhverfislega.“ Þá benti þingkonan ráðherra á að hún fari með heimild í reglugerð til að takmarka veiðar bæði tíma og fjölda. – Ef ráðherra telur sig ekki geta afturkallað leyfi til hvalveiða er eitthvað því til fyrirstöðu að takmarka þær allverulega á grundvelli reglugerðarinnar eða er það svo að leyfið hafi þannig úr garði gert að núverandi ráðherra geti lítið athafnað sig? „Við erum að skoða þetta allt, við erum að skoða þetta allt í heild. Við þurfum að gæta vel að hverju skrefi. Eins og ég sagði áðan þá er það auðvitað mikilvægt að stuðla að opinberri og almennri umræðu. Hafa stefnu og sýn. Sem betur fer búum við í samfélagi þar sem ráðherrar aðhafast á grundvelli laga.“
Er hægt að banna hvalveiðar?
Já, þingið getur sett lög sem banna hvalveiðar. Þingið - réttara sagt stjórnarliðar - hafa einfaldlega hafnað því að gera það en þegar er frumvarp þess efnis fyrir þingi en stjórnarliðar sömdu sig inn í ríkisstjórnarsamstarf þar sem ákveðið var að banna ekki hvalveiðar.
Síðan að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, veitti Hval hf. leyfi til hvalveiða í fimm ár hefur fyrirtækinu ekki tekist að sýna fram á að dýrin upplifi sem minnstan sársauka og að þau séu aflífuð á sem skemmstum tíma líkt og lögin kveða á um. Í skýrslu Matvælastofnunar um veiðar á stórhvelum kemur fram að “MAST mun fela fagráði um velferð dýra að fara yfir fyrirliggjandi gögn og meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Ef slíkt er talið mögulegt, þurfa stjórnvöld að setja reglugerð um framkvæmd veiðanna og lágmarkskröfur við þær.” Ætli Ísland sér að tryggja nútíma dýravelferð og standa við alþjóðasamninga er nauðsynlegt að breyta núverandi lögum þannig að hægt sé banna hvalveiðar. Núverandi löggjöf heimilar einfaldlega ekki afturköllun hvalveiðileyfis. Þess má þó geta að veiðileyfi Hvals hf. er útrunnið og hugsanlega þarf ekki að gefa það út aftur.
Það setur nú ummæli þingmanna sem segjast styðja sjálfbærar og mannúðlegar hvalveiðar í samhengi ef þeim er fullkunnugt um að ekki sé hægt að afturkalla útgefið hvalveiðileyfi. Fullkunnugt um að þrátt fyrir að veiðarnar standist að engu leyti kröfur um olíuvarnir, heilbrigði, nútíma stjórnsýslu, velferð dýra, séu andstæðar markmiðum í loftlagsmálum og hafi lítið efnahagslegt vægi sé ekki hægt að koma þeim í gott horf.
Skrum en ekki reglufesta
Það gleymist ansi oft í íslenskri pólitík að ráðherrastaða er ekki hefðbundið starf heldur persónugerð ráðuneytis. Þeim má skipta út af hvaða ástæðu sem er. Því engin á tilkall til starfsins. Það er því ekki mikið mark takandi á fólki sem fer með atkvæði um ráðherrastóla en forðast atkvæðagreiðslu um vantraust eins og heitan eldinn. Sú staða sem nú er uppi þar sem stjórnarliðar keppast við að tala niður traust á eigin ríkisstjórn en grípa ekki til aðgerða er því skrum en ekki ást á réttarríkinu. Mikilvægt er að staða ráðherra sé afgreidd af festu en ekki tækifærismennsku og flokkspólitík. Það er ekki bara stuð að vera í stjórnarsamstarfi og á þingi heldur forréttindi sem fylgja ábyrgð.
Flokkspólitísku leikriti til heimabrúks verður að taka einhvern endi. Annað hvort er ráðherra stætt eða ekki. Það er óboðlegt að í gangi sé fegurðarsamkeppni í réttaríkisást án þess að nokkur hafi í hyggju að útsendingu ljúki.
Eigandi auðlindarinnar vill ekki veiðar
Stuðningur við veiðar á langreyðum meðal eiganda auðlindarinnar er afar lítill. Í könnun Maskínu unnin fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands segjast alls 42% aðspurðra vera andvíg veiðum á langreyðum en 29% fylgjandi. Það er því nokkuð skýrt að eigandinn hefur almennt ekki miklar áhyggjur af lífsviðurværi Kristjáns Loftssonar; telja jafnvel að hann geti fundið sér annað og betra að gera með sinn tíma og rekstur. Frestun hvalveiða, sem umboðsmaður kallar réttilega bann, síðasta sumar á sér því lýðræðislega stoð þótt stjórnarmeirihlutinn hafi á sex árum ekki náð að tryggja eigandanum aðkomu að þeirri pólitísku spurningu hvort Ísland skuli veiða hvali.
Umboðsmaður er skýr en stjórnarliðar kalla ekki saman þing
Nú hefur umboðsmaður skilað sinni niðurstöðu og niðurstaðan er einföld. „Umboðsmaður telur að útgáfa reglugerðarinnar hafi í reynd falið í sér tímabundið bann við veiðum á langreyðum og gert Hval hf. ókleift að sinna þessari starfsemi sinni á tímabilinu. Lítur hann svo á að bannið hafi falið í sér bæði fyrirvaralausa og verulega íþyngjandi ráðstöfun m.t.t. stöðu og hagsmuna félagsins.“
Miðað við þessa niðurstöðu og yfirlýsingar stjórnarliða í kjölfarið mætti nú ætla að nú yrði gripið til aðgerða af hálfu stjórnarliða. Stjórnarandstaðan er hér ekki til trafala. Píratar hafa sagt að Svandís eigi að segja af sér og að þingið verði að taka fyrir hvalveiðar. Þeir hafa um leið bent á að frá þeim liggi fyrir frumvarp um málið. Flokkur fólksins hefur sagt að vantrauststillaga sé í undirbúningi. Miðflokkurinn hefur gert það sama. „Svandís Svavarsdóttir situr náttúrulega ekki sem ráðherra í umboði okkar í Samfylkingunni. Ég sé ekki ástæðu til þess að við í Samfylkingunni förum að skera Svandísi eitthvað sérstaklega úr snörunni, að við förum að sitja hjá eða verja hana vantrausti. Ég lít ekki svo á að það sé okkar hlutverk. Við vantreystum þessari ríkisstjórn í heild sinni,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Þingmaður Viðreisnar sagði nýlega að flokkurinn væri ekki kominn að niðurstöðu.
Svandís nýtur stuðnings VG og eins og áður hefur komið fram virðist Framsókn ekki ætla að styðja vantraust. Staðan er því einfaldlega sú að allir bíða eftir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Hvað ef stjórnin springur?
Nú hefur verið bent á að stjórnin haldi ekki velli ef hún ver ekki ráðherra vantrausti. Það er líklega rétt. Tæknilega er vantraust á einstaka ráðherra ekki vantraust á ríkisstjórnina í heild en í núverandi stöðu yrði það efnislega niðurstaðan. Ekkert þessa breytir því þó að þingmenn eru fulltrúar löggjafans en ekki aðeins hagverðir eigin stöðu og flokka. Kjósi þeir að fella ekki ráðherra og lýsa statt og stöðugt yfir að ráðherra njóti ekki trausts þeirra til að vera ráðherra hafa þeir einfaldlega valið að setja stöðu sína í meirihluta ofar eftirlitshlutverki Alþingis.
Aftur, það er ekkert í lögum – né hefðum á Íslandi – að ráðherra missi sjálfkrafa stólinn í samræmi við niðurstöður Umboðsmanns Alþingis. Þingmenn, sérstaklega stjórnarliðar, fara með ákvörðunarvald í þeim málum eða ráðherra sjálfur. Vandinn sem einstaka þingmenn hafa skapað sér eru yfirlýsingar þeirra um að hún njóti ekki trausts því þegar á reynir eru þeir aðeins bundnir af sannfæringu sinni. Kjósi þeir að lýsa ítrekað yfir vantrausti á ráðherra en kjósi svo gegn þeim yfirlýsingum sínum þýðir það eitt af hvoru; þeir kusu gegn sannfæringu sinni og hunsuðu eftirlitsskyldu þingsins með framkvæmdavaldinu eða þeir sögðu almenningi ósatt með ítrekuðu yfirlýsingum sínum um að þeir geti ekki liðið að ráðherra starfi ekki innan ramma laga.
Svandís á ekki stólinn og Kristján Loftsson á ekki auðlindina
Minna ber þó á áhyggjum yfir hagsmunum eiganda auðlindarinnar; almennings. Í niðurstöðu Umboðsmanns má finna staðfestingu á að eigandi auðlindarinnar hefur lítið sem ekkert vald yfir nýtingu hennar. Með þessu er ekki átt við að Umboðsmaður hafi með áliti sínu saxað á rétt almennings. Umboðsmaður hefur skilað góðu áliti. Hans hlutverk er að leggja mat á stjórnsýslu ráðherra. „Umboðsmaður bendir á að þótt ráðherra hafi getað horft til sjónarmiða um dýravelferð við útgáfu reglugerðarinnar þá sé vernd og viðhald stofnsins meginmarkmið laga um hvalveiðar.“ Eigandi auðlindarinnar virðist því ekki hafa heimild til að krefja kvótaþega um að viðhafa dýravelferð við nýtingu samkvæmt lögum um hvalveiðar. Ef hann gerir það ekki er engin heimild til að taka af honum veiðileyfið.
Við það verður ekki unað. Vonandi finna stjórnarliðar tíma inn á milli uppgerðarhneykslan og ást á reglufestu til að takast á við veika stöðu eiganda auðlindarinnar til að fara með eftirlit og stjórn á nýtingu hennar. Eigandinn vill nefnilega að fleiri þættir komi til en réttur Hvals hf. Meirihluti eiganda vill reyndar ekki að Hvalur hf. hafi heimildir til veiða á langreyðum og enn síður að engin heimild sé til að svipta félagið veiðileyfi.
Snýst málið ekkert um hvalveiðar?
Talsverð áhersla hefur verið lögð á það hjá þeim sem kalla eftir afsögn ráðherra að málið snúist ekki um skoðanir þeirra á hvalveiðum. Álit umboðsmanns er jú ekki á þá leið að ráðherra hafi gerst brotleg með því einu að tilheyra stjórnmálahreyfingu sem er andsnúin hvalveiðum.
Vegna viðbragða stjórnarliða sem mest tala um að ráðherra geti ekki lengur setið en neita að bregðast við er þó ekki alveg hægt að horfa framhjá viðbrögðum í öðrum málum.
Borgarbúar snuðaðir um milljarða af Jóni Gunnarssyni og Sigurði Inga
Þann 14. maí 2019 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli Grímsness-og Grafningshrepps á hendur ríkinu um greiðslu fjárhæðar sem nam vangreiddum framlögum úr Jöfnunarsjóði. Gerð hafði verið breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem fólst í því að bætt var við málslið sem fól í sér heimild til að kveða á um það í reglugerð að sveitarfélög sem hefðu heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti sem teldist verulega umfram landsmeðaltal skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Niðurstaða Hæstaréttar er að ekki sé heimilt að fella niður tekjustofna í heild eða hluta nema með lögum í ljósi fyrirmæla í 2. mgr 78.gr stjórnarskrár. Sama ár óskaði Reykjavíkurborg eftir því við ráðherra að ríkið greiði borginni þau framlög sem borgin hafði verið svipt með þessum hætti. Fjármála og efnahagsráðuneytið vísaði málinu til ríkislögmanna sem höfnuðu kröfunni. Þá óskaði borgin eftir því við samgöngu- og sveitastjórnarráðherra að fá aðgang að útreikningum fjárhæða framlaga og forsendur sem lægju að baki. Aftur var vísað á ríkislögmann sem hafnaði beiðninni. Málið snýst meðal annars um ákvarðanir ráðherra sem árið 2017 sem þá var Jón Gunnarsson. Í reglugerðinni segir; „Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal greiða öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg framlög til nýbúafræðslu á grunnskólastigi þar sem um slíka fræðslu er að ræða.“ Ráðherra fann það sem sagt hjá sér að útiloka sérstaklega sveitarfélag þar sem hans flokkur er í minnihluta.
Sama ár tók Sigurður Ingi við sem samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Tæpum mánuði síðar krafðist Reykjavíkurborg greiðslu á framlögum úr jöfnunarsjóði sem staðfest var með dómi að sveitarfélög eigi tilkall til samkvæmt lögum. Ráðherra sá ekki ástæðu til að verða við því. Ríkið þarf samkvæmt dómnum að greiða Reykjavíkurborg rúma þrjá milljarða, þrjú þúsund milljónir. Reglugerðin hefur ekki verið leiðrétt og ákveðið hefur verið að áfrýja málinu af hálfu ríkissjóðs. Málin eru ekki eins en ef til vill er ástæðan fyrir því að stjórnarliðar hafa ekki verið jafn yfirlýsingaglaðir í því máli einfaldlega sú að flokkspólitík er mikilvægari en stjórnarskrárvarðir hagsmunir borgarbúa.
Braut jafnréttislög og skipaði flokksfélaga
Lilja Dögg Alfreðsdóttir þá mennta- og menningarmálaráðherra braut jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Menntamálaráðherra vanmat Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, annan umsækjenda, í samanburði við Pál. Lilja sat ekki bara áfram sem ráðherra heldur beitti hún yfirburðum ríkisins til að höfða mál gegn Hafdísi. Hún tapaði því máli fyrir héraðsdómi. Það sem færri muna er að Umboðsmaður Alþingis var með kvörtun vegna málsins til umfjöllunar á þeim tíma sem Lilja kaus að fara í mál við Hafdísi fyrir að láta reyna á rétt sinn. Það varð til þess að umboðsmaður lauk skoðun á málinu án niðurstöðu. Málið er dæmi valdbeitingu á kostnað skattgreiðenda.
Lilja var á þessum tíma ráðherra jafnréttismála. Hafdís Helga sagði um málið eftir að sátt var náð að málsóknin væri fordæmalaus. „Ráðherra freistaði þess sem sagt að fá þeim úrskurði kærunefndarinnar hnekkt að hún hefði sjálf brotið jafnréttislög. Til þess þurfti hún að draga mig persónulega fyrir dóm sem þvældist nú ekki fyrir henni. Ekki tókst henni ætlunarverk sitt. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. mars 2021 í máli E- 5061/2020 þar sem ekki var fallist á eina einustu málsástæðu ráðherrans og voru þær allnokkrar,“ segir Hafdís í færslu sinni. Hafdís Helga bætir við að ráðherrann hafi þrátt fyrir það kosið að „áfrýja til Landsréttar fjórum klukkutímum síðar þrátt fyrir sterkan dóm“, sem sé fáheyrt og þannig á að „teygja lopann fram yfir kosningar.“ Lesa má um málið hér, hér, hér og hér.
Jón Gunnarsson varinn vantrausti
Í mars á síðasta ári mátti Jón Gunnarsson verjast vantrausti eftir að hafa skipað Útlendingastofnun að afhenda Alþingi ekki gögn vegna umsókna um ríkisborgararétt með tilstuðlan Alþingis. Jón Gunnarsson hefur staðfest í grein á Vísi að stofnunin hafi snuðað þingið með hans vilja sem ráðherra. Það er grafalvarlegt mál að framkvæmdavaldið telji sér fært að ákveða einhliða hvort og þá hvernig Alþingi geti sinnt sínum störfum. Málið fjallar því ekki aðeins um brotalöm í úrvinnslu umsókna til ríkisborgararéttar heldur virðingu framkvæmdavaldsins fyrir löggjafanum. Í minnisblaði tekið saman af skrifstofu Alþingis vegna málsins kemur fram Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Kemur fram að samkvæmt ákvæði í lögum eigi Útlendingastofnun að undirbúa málin, rannsaka hagi umsækjenda og veita umsögn um þær ásamt því að afla umsagna lögreglustjóra á dvalarstað umsækjenda. Það stóð ekki á stjórnarliðum að verja ráðherra vantrausti. 35 þingmenn greiddu atkvæði gegn vantrausti.
Rafbyssuvæðing án samráðs
Aftur víkur máli að Jóni Gunnarssyni en Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi sem dómsmálaráðherra hafi sniðgengið góða stjórnsýsluhætti með rafbyssuvæðingu lögreglu. Jón Gunnarsson heimilaði lögreglu að bera rafbyssur án þess að málið væri borið upp í ríkisstjórn. Raunar tilkynnti hann um ákvörðunina í aðsendri grein í Morgunblaðinu 30. desember 2022 og undirritaði svo reglugerð sem heimilaði lögreglu að bera rafbyssur. Forsætisráðherra lýsti því yfir sama dag samtal um málið þyrfti að eiga sér stað innan ríkisstjórnar og Alþingis. Umboðsmaður segir að miðað við svar forsætisráðherra hafi breytingin talist „mikilvægt stjórnarmálefni.“ Slík mál eigi að ræða á ríkisstjórnarfundi „…fæ ekki betur séð en að áður lýst framganga dómsmálaráðherra hafi verið ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verðir til ráðherra m.t.t. vandaðra stjórnsýsluhátta.“. Umboðsmaður vísaði meðal annars í dóm Landsdóms frá 2012 yfir Geir H. Haarde vegna málsins. Jón Gunnarsson sagði samanburð við Landsdómsmálið „nokkuð gildishlaðið og þess vegna sé ég svolítið hugsi yfir vegferð umboðsmanns.“ – En ertu eitthvað að íhuga stöðu þína sem ráðherra? “Á grundvelli þessa máls? Nei, alls ekki.“
Bjarni og Íslandsbanki
„Það er álit umboðsmanns að stjórnsýsla ráðherra við undirbúning sölumeðferðarinnar hafi ekki verið í nægilega góðu samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldu hans gagnvart Bankasýslu ríkisins m.t.t. þess hvernig reglur um sérstakt hæfi horfðu við.“ Þetta segir í áliti Umboðsmanns vegna framgöngu Bjarna Benediktssonar vegna söluferli Íslandsbanka. Sama ferli hefur orðið til þess að Fjármálaráðuneytið sektaði Íslandsbanka og ávítti Landsbankann fyrir að hafa gerst brotlegur við lög en sektaði hann ekki. Ríkisendurskoðun fór yfir söluna og komst að því að “ekki voru gerðar tilhlýðilegar kröfur til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila og vegna annmarka á framkvæmdinni var eftirspurn vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð.
Bjarni tilkynnti að hann myndi hætta sem fjármálaráðherra í kjölfar álits umboðsmanns. Það hefur verið kallað að segja af sér en raunin er auðvitað sú að hann tölti yfir í utanríkisráðuneytið eftir að hafa ráðið flokksfélaga sinn í atvinnubótavinnu í fjármálaráðuneytinu og endurtekið svo leikinn í utanríkisráðuneytinu. Það er sama hversu oft látið er eins og um ákvörðun til varnar siðferði í stjórnmálum hafi verið um að ræða ekkert breytir því að hér var einfaldlega flokkspólitík sem stjórnaði för. Bjarni er á útleið sem formaður flokksins og gat með snúningnum valið eftirmann sinn í formannsstól. Í gegnum allt Íslandsbankamálið stóð stjórnarmeirihlutinn gegn því að stofnuð yrði rannsóknarnefnd og töluðu við öll tækifæri niður alvarleika málsins.
Afsakar það Svandísi?
Nei, það gerir það ekki. Ráðherrar verða að starfa í samræmi við lög. Önnur dæmi um framgöngu ráðherra útiloka ekki afsögn í einstaka máli. Samhengið er einfaldlega að núverandi ríkisstjórn hefur ekki aga, getu né vilja til að viðhalda lágmarkssiðferði. Hvalveiðimálið sem nú er til umræðu er einfaldlega dæmi um það. Lengi hefur verið vitað að umgjörð hvalveiða á Íslandi er í molum. Flokkarnir hafa einfaldlega ákveðið að viðhalda þeirri stöðu. VG gekk inn í stjórnarsamstarf á þeim forsendum að hvalveiðar yrðu ekki bannaðar. Ráðherra leitaði ekki til þingsins til að tryggja heimildir svo halda megi hvalveiðum í sátt við gildi samfélagsins og enn síður sóttist hún eftir heimildum frá þinginu til að banna þær. Stjórnarliðar stöðvuðu inngrip þingsins þegar sú staða sem umboðsmaður hefur nú skilað áliti um var öllum ljós. Þeir halda svo áfram þeim leik.
Almenningur á nytjastofna við Íslandsstrendur og ljóst er að almenningur styður ekki veiðarnar. Það gengur ekki lengur að stjórnarliðar haldi úti leikriti um að gera ekki neitt. Þetta eru blekkingar en ekki ást á lagafestu.
Allt grefur þetta undan lögum, reglu og siðferði.
Athugasemdir (1)