Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði í dag með formönnum BHM, BSRB og Kennarasambandi Íslands til þess að kanna afstöðu þeirra og sýn á kjaraviðræðurnar sem fara fram í vor. Þá áttu samningamenn á vegum breiðfylkingarinnar fund með stjórnvöldum á föstudaginn fyrir helgi. Á þeim fundi var rætt um aðkomu ríkisins að því að liðka fyrir gerð langtíma kjarasamnings.
Í samtali við Heimildina segist Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hafa átt gott samtal við forsætisráðherra í morgun í gegnum síma. Í símtalinu var rætt um afstöðu bandalagsins til yfirstandandi viðræðna og farið yfir kröfur BSRB til stjórnvalda til þess að liðka fyrir gerð samnings.
„Í húsnæðisliðnum þá er krafan okkar um 1.000 íbúðir í almenna íbúðakerfið á ári út kjarasamningstímabilið, það er aukin húsnæðisstuðningur, auknar barnabætur og svo að brúa bilið, endurmeta virði kvennastarfa, hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum og svo aðgerðir varðandi kynbundið ofbeldi,“ segir Sonja.
Heimildin hafði einnig samband við Kolbrúnu Halldórsdóttur, formann BHM, og Magnús Þór Jónsson, formann KÍ. Bæði sögðust hafa rætt við forsætisráðherra í síma í morgun en vildu ekki tjá sig í smáatriðum um efni samtalsins. „Þetta var ágætis samtal og á góðum nótum. Við sjáum bara hvað gerist í framtíðinni, hvort það verði frekara samtal eða hvað gerist. Við erum svo sem ekki með lausan kjarasamning fyrr en seinna,“ segir Magnús.
Þjóðarsátt eða hefðbundnir kjarasamningar
Kjaraviðræður breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins hafa hingað til gengið vel. Samningsaðilar hafa verið óvenju samstíga varðandi markmið kjarasamningsins og viðræðurnar eru sagðar miða vel áfram.
Þá virðist fundur breiðfylkingarinnar við stjórnvöld, sem fór fram síðastliðinn föstudag, hafa gengið vel. Í færslu sem Bjarni Benediktsson birti á Facebook-síðu sinni eftir fundinn, sagðist hann vera bjartsýnn á að hægt verði að leiða til lykta farsæla lausn á viðræðunum með aðkomu stjórnvalda. Þá sagði hann ganginn í viðræðunum vera „á vissan hátt sögulega.“
Í viðtali við RÚV í dag sagðist Sólveig Anna Jónsdóttir vera bjartsýn á að samningar gætu náðst fyrir mánaðamót.
Í fréttaumfjöllun um þessar viðræður hefur gjarnan verið talað um þjóðarsátt. Talsmenn breiðfylkingarinnar hafa sömuleiðis notast við hugtakið. Þetta orðalag hafa formenn stéttarfélaga og heildarsamtaka sem semja fyrir hönd opinbera vinnumarkaðsins, sem standa fyrir utan yfirstandandi kjaraviðræður, gagnrýnt. Ekki sé hægt að tala um þjóðarsátt á meðan þessi félög standa fyrir utan kjaraviðræðurnar.
Til að mynda hefur Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, bent á það, í grein sem birt var á Vísi, að breiðfylking stéttarfélaga og landssambanda á almenna vinnumarkaði semji aðeins fyrir hönd launafólks sem samanlagt eru um 47 prósent af vísitölu grunntímakaups á markaði.
Hin helmingur vísitölunnar sé fólk í félögum sem standa fyrir utan viðræðurnar. Félög á borð við BHM, BSRB, KÍ, önnur stéttarfélög utan heildarsamtaka og síðan launafólk sem stendur utan stéttarfélaga. Þessi félög þurfi að koma að samningaborðinu til þess að hægt sé að tala um væntanlega þjóðarsátt.
Þá hefur Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, líka gagnrýnt orðalagið og sagt að fleiri aðilar þurfi að koma að viðræðunum til þess að leiða í gegn svokallaða þjóðarsátt. Þá losna samningar vinnufólks á opinberum markaði losna í lok mars.
BSRB reiðubúið að fara blandaða leið
Í samtali við Heimildina segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ekkert því til fyrirstöðu að samtökin taki þátt í gerð stærri samnings ef málin skyldu þróast á þann veg.
Enn sem komið er fylgist hún og ráðamenn samtakanna með viðræðunum og hvert þær stefna, sem er enn óljóst. „Við erum á þessum tímapunkti núna að velta fyrir okkur hvort þetta verði hefðbundnir kjarasamningar. Eða hvort sé verið að undirbyggja einhverskonar þjóðarsátt þar sem að öll komi að samtalinu,“ segir Sonja.
Þó svo að samningar BSRB losna ekki fyrr en í mars sé ekkert því til fyrirstöðu að BSRB taki þátt umfangsmeiri kjaraviðræðum sem ná til fleiri aðila á markaði. Varðandi launaliðinn segir Sonja að BSRB sé ekki búið að taka afdráttarlausa afstöðu varðandi það.
„Það sem við höfum sagt er að við erum tilbúin að skoða hóflegar launahækkanir að því gefnu að það sé mjög rík aðkoma stjórnvalda. Hins vegar er mikilvægt að horfa til þess að það hefur verið kaupmáttarrýrnun hjá stórum hópum á undanförnum árum. Ef við ætlum að gera langtímakjarasamning, þá hefur ekki verið fyrirstaða hjá okkur, það má vel horfa á blandaða leið,“ segir Sonja.
Athugasemdir (1)