Annar fundur Samtaka atvinnulífsins og hinar svonefndu breiðfylkingar, samninganefnd sem samanstendur stærstu stéttarfélögum og landssamböndum á almennum markaði, fór fram í dag. Fundurinn hófst klukkan 10 í fyrramálið og varði í rúma klukkustund.
Á fundinum voru meðal annars lögð drög að samkomulagi um tímalengd kjarasamningsins, fjögur ár. Samtök atvinnulífsins vildu fá samning til fimm ára á meðan verkalýðsfélögin lögðu til þriggja ára samning.
Í samtali við Heimildina segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að málamiðlunin hafi verið ágætis lending, „þó svo það sé ekki alveg í hendi enn hversu langur hann verður“. Þá bætir Ragnar við að fjögur ár sé þá í ætt við lífskjarasamninginn 2019. Hann var síðar framlengdur um 12 mánuði og gilti því í rétt tæplega fimm ár.
Kröfur breiðfylkingarinnar til ríkis og sveitarfélaga
Fyrsti fundur SA og breiðfylkingarinnar fór fram 28. desember. Að þeim fundi loknum gáfu samningsaðilar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst var yfir vilja til þess að vinna að gerð langtímakjarasamninga. Ætlunin með því er að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.
Stéttarfélögin, sem taka þátt í viðræðunum, eru reiðubúin til þess að sætta sig við hóflegar krónutöluhækkanir á launum gegn því, meðal annars, að útgjöld ríkis í tilfærslukerfin verði stórlega aukin. Talið er að umbæturnar sem stéttarfélögin gera kröfu um muni kosta ríkið um 20-25 milljarða króna aukalega á ári.
Þá fer breiðfylkingin fram á að ríki og sveitarfélög dragi úr gjaldskrárhækkunum og setji þak á allar slíkar hækkanir. Ragnar segir horft sé til lífskjarasamningsins í kröfum þeirra til sveitarfélaga og hins opinbera.
„Gjaldskrárhækkanir verði ekki meiri 2,5 prósent á ári“
Þáttur Seðlabankans
Stéttarfélögin binda vonir við að Seðlabankinn geti hafið skarpt vaxtalækkunarferli fljótlega eftir að kjarasamningur er samþykktur. Í samtali við Heimildina segist Ragnar ekki geta upplýst, eins og er, nákvæmega hvaða væntingar stéttarfélögin hafa gagnvart Seðlabankanum og hugsanlegum vaxtalækkunum sem hann gæti ráðist í á næstu misserum.
Hann segir þó að vaxtalækkun sé mikilvægur þáttur í kjarviðræðunum. Stéttarfélögin séu reiðubúin að fara þá leið sem Seðlbankinn telur vera svigrúm fyrir, með því skilyrði að það leiði af sér umtalsverða vaxtalækkun.
„Við erum búin að teikna upp ákveðna sviðsmynd sem felur í sér lækkun vaxta yfir ákveðið tímabil, með ákveðnum endurskoðunarpunktum. Sömuleiðis líka að verðbólguvæntingum og öðrum þáttum sem aftur gera forsendurnar fyrir launaliðinn,“ segir Ragnar.
Ströng skilyrði nýrrar þjóðarsáttar
Þá segir Ragnar að skilyrði og ákvæði í kjarasamningnum þurfi að vera afar ströng. „Þetta þarf allt að vera mjög fast skorðað, vel útfært og tímasett. Þannig þetta séu ekki bara einhverjar væntingar heldur bara aðhaldstæki,“ segir Ragnar.
Spurður hvort að Samtök atvinnulífsins komi til með að styðja kröfur stéttarfélaganna gagnvart ríki og sveitarfélögum segir Ragnar ýmislegt benda til þess. „Þau hafa allavega tekið þá ákvörðun að fara í þessa vegferð og í þessa vinnu með okkur. Og hafa talað mjög jákvætt um þá vinnu sem er í gangi og hefur þegar átt sér stað. Það gefur fullt tilefni til að ætla að það sé full alvara hjá þeim að gera atlögu að þessu.“
Þá segir Ragnar að Samtök atvinnulífsins geri sér grein fyrir afleiðingum þess ef stjórnvöld koma ekki að samningunum. Þá séu forsendur fyrir viðræðunum, og markmiðum þeirra, brostnar. „Þá er samtalið á þessum forsendum sem við höfum verið að ræða hætt. Þá förum við í rauninni í allt annan fasa og teiknum upp allt aðrar kröfugerð,“ segir Ragnar.
Skjálftinn góður fyrirboði
Skömmu eftir að fundurinn hófst í Karphúsinu hjá Ríkissáttasemjara reið snarpur jarðskjálfti yfir á suðvesturhorninu og fundu margir fyrir skjálftanum á höfuðborgarsvæðinu.
Spurður hvort að fundarmenn hafi orðið varir við jarðskjálftann í morgun segir Ragnar fundarmenn hafi fundið vel fyrir honum. „Já hann kom á miðjum fundinum og okkur fannst það merki um það að væri ákveðin spennulosun.“
Athugasemdir