Þetta álit er ekki þess eðlis,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra spurð hvort hún hyggist segja af sér vegna álits umboðsmanns Alþingis um frestun hvalveiða síðastliðið sumar.
Álitið snertir ekki hæfi Svandísar en í því kemur fram að hún hafi ekki haft nægilega skýra lagastoð fyrir því að fresta upphafi hvalveiðivertíðar síðastliðið sumar. Þá hafi útgáfa reglugerðarinnar um frestunina ekki gætt meðalhófs og ekki verið í samræmi við lög.
Í nýbirtu áliti umboðsmanns, Skúla Magnússonar, segir að hann telji ekki ástæðu til að beinasérstökum tilmælum til Svandísar um úrbætur. Ástæðan fyrir því er að ástandið sem leiddi af útgáfu reglugerðarinnar er liðið undir lok.
Bjarna brast hæfi, Svandísi ekki
Pólitíkin hefur beðið álitsins með mikilli eftirvæntingu en ákvörðun Svandísar um frestun hvalveiða lagðist illa í flokkana tvo sem Vinstri græn, flokkur Svandísar, situr með í ríkisstjórn: Framsókn og Sjálfstæðisflokk.
Þá hafði því ítrekað verið velt upp hvort Svandís myndi þurfa að segja af sér ef álitið væri neikvætt en ríkisstjórnarbróðir hennar Bjarni Benediktsson sagði af sér í haust vegna álits umboðsmanns og tók í kjölfarið að sér aðra ráðherrastöðu, þá í utanríkisráðuneytinu.
Væri verkefni dómstóla
Skúli tekur ekki afstöðu til hugsanlegra einkaréttarlegra afleiðinga fyrirmæla Svandísar.
„Hef ég af þeim sökum ekki heldur forsendur til að beina tilmælum til ráðherra um að leita leiða til að rétta hlut Hvals hf. yrði það að vera verkefni dómstóla að leysa úr slíkum álitaefnum ef málið yrði lagt í þann farveg,“ skrifar Skúli.
Þarf að uppfæra löggjöfina
Svandís tók ákvörðun um að fresta veiðunum eftir að fagráð um velferð dýra komst að þeirri niðurstöðu að veiðiaðferðin væri í andstöðu við lög um dýravelferð.
Um hvalveiðilöggjöfina segir Svandís við Heimildina: „Mér finnst þessar ábendingar umboðsmanns alveg undirstrika það að þetta er ekki nútímaleg löggjöf, frá 1949. Það þarf að uppfæra hana og hún þarf að kallast á við samfélagið og þessar auknu áherslu alls staðar á dýravelferð.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, og fleiri þingmenn lögðu fram frumvarp um hvalveiðibann síðastliðið haust. Spurð hvort hún styðji það frumvarp segist Svandís þurfa að kynna sér það betur.
Svandís skrifaði jafnframt færslu á Facebook sem má lesa hér:
Athugasemdir (2)