Markmiðasetning er aðferð sem fjöldi fólks notar til að ná persónulegum markmiðum. Á gamlárskvöld setja fjölmargir sér metnaðarfull markmið fyrir næstu tólf mánuði. Þó að áramótin virki oft sem hvatning til að setja okkur markmið þarf markmiðasetning þó ekki að vera bundin við þessa dagsetningu. Við getum sett okkur markmið hvenær sem við teljum þörf á því.
Ávinningur markmiða
Markmið virka sem vegvísir að árangri. Að setja sér markmið er mikilvægt af nokkrum ástæðum:
-
Markmið gefa okkur skýra mynd af því sem við erum að leitast við að ná. Að vera með skýra stefnu og áherslur gerir okkur kleift að beina kröftum okkur að því hvert við viljum fara frekar en að reika stefnulaust.
-
Að hafa markmið til að vinna að getur aukið hvatningu og virkni. Þegar við setjum okkur markmið sem er þroskandi og krefjandi getur það hvatt okkur til að grípa til aðgerða og gefast ekki upp þrátt fyrir hindranir.
-
Markmið gera okkur kleift að mæla framfarir. Með því að setja viðmið getum við séð hversu langt við erum komin og hversu mikið er eftir. Þetta getur hjálpað til við að endurmeta markmiðin og breyta aðferðum okkar ef þörf krefur.
-
Markmið hjálpa til við að forgangsraða verkefnum og stjórna tímanum á áhrifaríkan hátt. Þegar markmiðið er skýrt erum við ólíklegri til að láta truflast af öðrum, léttvægari verkefnum.
-
Markmiðasetning hvetur til persónulegs þroska. Hún ýtir okkur út fyrir þægindarammann og hvetur okkur til að læra nýja færni og aðlagast nýjum aðstæðum.
-
Að ná markmiði gefur tilfinningu fyrir árangri, sem eykur sjálfstraust og stolt og getur bætt almenna hamingju og vellíðan.
-
Með því að setja okkur markmið forgangsröðum við því sem er mikilvægt fyrir okkur.
Gagnlegar spurningar
Við markmiðasetningu er gagnlegt að spyrja sig spurninga eins og:
-
Hvað langar mig til að gera (meira af)?
-
Hvað fyllir mig orku, krafti, eldmóði og gleði?
-
Hvað fær hjarta mitt til að slá hraðar?
-
Hvenær er ég upp á mitt besta?
-
Hvaða verkefni standa upp úr á þessu ári?
-
Hvaða hef ég ekki eins mikinn áhuga á?
-
Hvaða færni eða þekkingu skortir mig?
-
Hvað get ég bætt hjá mér?
-
Hverju vil ég áorka í lífinu?
-
Hvernig vil ég þroskast og vaxa?
Hvað skiptir máli við markmiðasetningu?
Besta leiðin til að setja sér markmið getur verið mismunandi eftir fólki. Lykillinn er að finna aðferð sem virkar fyrir þig. Hér fyrir neðan eru nokkur hjálpleg ráð:
-
Skrifaðu markmið þín niður: Að skrá markmið sín niður eykur skuldbindingu og gerir þau áþreifanlegri. Skrifleg markmið virka líka sem stöðug áminning um það sem stefnt er að.
-
Skiptu markmiðum niður í smærri skref: Stór markmið geta virkað yfirþyrmandi og óyfirstíganleg. Að skipta þeim niður í smærri skref gerir þau viðráðanlegri og eykur líkur á að þau náist.
-
Gerðu aðgerðaáætlun: Þróaðu skref-fyrir-skref áætlun um hvernig þú munir ná markmiðum þínum. Aðgerðaáætlun ætti að innihalda aðgerðir, þau úrræði sem þarf sem og tímalínu.
-
Endurskoðaðu markmiðin reglulega: Farðu reglulega yfir framfarir þínar í átt að markmiðunum. Vertu tilbúinn að aðlaga áætlunina ef aðstæður breytast eða þegar þú lendir í ófyrirséðum áskorunum.
-
Sjáðu fyrir þér árangurinn: Að sjá fyrir sér árangurinn getur aukið hvatningu, stolt og sjálfstraust.
-
Sýndu þrautseigju: Þrautseigja er lykillinn að því að ná markmiðum, sérstaklega þegar þú stendur frammi fyrir hindrunum.
-
Leitaðu eftir endurgjöf og stuðningi: Deildu markmiðum þínum með öðrum. Stuðningur frá vinum og fjölskyldu getur verið ómetanlegur.
-
Fagnaðu sigrum: Viðurkenndu og fagnaðu framförum, sama hversu litlar þær eru. Þetta styrkir jákvæða hegðun og heldur þér að verki.
Að setja sér markmið er að ákveða hvaða árangri maður vill ná. Rannsóknir sýna að það sem einkennir þá sem hafa náð miklum árangri í lífinu er að þeir vita á hvaða mark þeir miða og hvað þeim finnst mikilvægt. Markmiðin eru drifkrafturinn sem knýr þá áfram og er undirstaðan að árangri þeirra og velgengni í lífinu.
Athugasemdir