Ný bók Þorvalds Logasonar félagsfræðings Eimreiðarelítan – Spillingarsaga dregur saman á einn stað mikilvæga vitneskju um íslenzkt samfélag, vitneskju sem hefur næstum öll blasað við hverjum þeim sem hefur hirt um að horfa í kringum sig. Bókin hlýtur að þynna raðir þeirra sem kjósa enn að líta undan.
Lekinn úr Landsbankanum
Ég segi „næstum öll“ þar eð upplýsingarnar sem Þorvaldur Logason birtir og túlkar úr leknum gögnum frá Landsbanka Íslands eru nýjar fyrir langflestum lesendum bókarinnar. Þessar upplýsingar voru aðgengilegar rannsóknarnefnd Alþingis og Sérstökum saksóknara. Mér bárust þessar upplýsingar 2012 frá nafnlausum sendanda og ég fór með þær rakleiðis til saksóknara. Mér virðast þó hvorki nefndin né saksóknarinn hafa nýtt sér þær til fulls. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins til 26 ára, maðurinn sem Þorvaldur Logason lýsir á grundvelli gagna innan úr bankanum sem pottinum og pönnunni í flestu eða öllu helzta bralli bankans, var aldrei kvaddur til yfirheyrslu í tengslum við rannsóknir á Hruninu.
Þorvaldur dregur meitlaða ályktun af leknu gögnunum: „sá sem skilur ekki Kjartan Gunnarsson skilur ekki Hrunið.“ (bls. 337). Aðalatriðið í lýsingu og túlkun Þorvalds á gögnunum er að bankinn falsaði bókhald sitt með því að blása upp eignir sínar ásamt öðrum brögðum sem endurskoðunarnefnd bankans undir stjórn Kjartans bar ábyrgð á. Hinir stóru bankarnir tveir höfðu sama háttinn á eins og áður hefur komið fram.
Þorvaldur segir: „Bókhald og endurskoðun í alþjóðakapítalisma hafa síðustu ár þróast í sérstaka listgrein, og á Íslandi í stórbrotinn skáldskap. Alþjóðlegu endurskoðendafyrirtækin íslensku gerðust eins konar hirðskáld stórfyrirtækja og sáu um að fegra sögu þeirra líkt og Snorri og Sturla rituðu skáldlegar sögur konunga áður fyrr. Þegar til kom reyndust endurskoðendafyrirtækin skáldlegri og auðkeyptari hirðskáld en íslenskir sagnamenn. Þessi nýju hirðskáld kunnu að kveða kónginum í vil og kváðu fyrir gull, svo vitnað sé óbeint í Stephan G. Stephansson. Þau flugu gullinu með leynd til afskekktustu eyja og grófu þar. Endurskoðun varð að einskonar gullgerðarlist. Hirslur bankanna fylltust af kistum flúruðum með fallegum alþjóðlegum skjaldarmerkjum eins og PWC og KPMG sem fékk utanaðkomandi aðila til að trúa á innihaldið á meðan hið raunverulega gull var grafið á eyjum fjarri landinu. Endurskoðunin vann verkið en fjármálafyrirtækin áttu frumkvæðið.“ (bls. 355)
Þetta voru þau ár, árin fram að Hruni, þegar bankamenn réðu lögum og lofum og stjórnmálamenn dönsuðu í kringum þá og létu sumir kaupa sig með ótæpilegum persónulegum lánveitingum til að þykjast ekki taka eftir lögbrotunum. Lög voru meira að segja skraddarasaumuð til að gera dæmdum sakamanni heimilt að eignast ásamt öðrum ráðandi hlut í Landsbankanum. En svo þegar bankarnir hrundu fundu stjórnmálamennirnir sér nýja viðskiptavini í hópi útvegsmanna sem röðuðu sér í stýrishús þjóðarskútunnar, einnig sá þeirra sem hafði stýrt Glitni í þrot í Hruninu.
Fráleitar lögskýringar
Þorvaldur Logason fjallar í bók sinni einnig um vanheilagt bandalag stjórnmálamanna og útvegsmanna með aukaaðild fáeinna háskólakennara og annarra. Þar er engum leknum leyniskjölum til að dreifa, þeirra þarf ekki við, þar eð staðreyndir málsins hafa legið fyrir lengi.
Einnig þar sem Þorvaldur fjallar um áður þekktar staðreyndir túlkar hann þær með leiftrandi skírskotun til félagsfræðilegra rannsókna til að bregða nýrri birtu á viðfangsefnið. Þetta á til dæmis við um það sem hann segir um lögskýringarnar sem lærðir lögfræðingar báru fram til að verja vondan málstað. Þorvaldur lýsir þessu í kafla sem ber yfirskriftina “Veiðiheimildir að varanlegri séreign? Yfirráð og misnotkun lögskýringarvaldsins” (bls. 145-154). Þar leitar Þorvaldur í smiðju hjá norskum lagaprófessor, Fleischer að nafni, höfundi bókarinnar “Spillingarkúltúr, frændhygli og umboðssvik í Noregi”.
Þorvaldur segir: “Í sölunni á kvótakerfinu til almennings lék Sigurður Líndal, þá leiðandi lagaprófessor við Háskóla Íslands, lykilhlutverk.” Þorvaldur rekur og hrekur lögskýringar Sigurðar lið fyrir lið og greinir þær eftir spillingarkenningu Fleischers, finnur skýra samsvörun og jafnar þeim meira að segja til umboðssvika, jafnvel fjársvika.
Ég og ýmsir aðrir háskólamenn utan lagadeildar Háskóla Íslands andmæltum lögskýringum Sigurðar og annarra á sínum tíma, þar á meðal þeirri fráleitu fullyrðingu að þjóðareign væri þversögn þar eð þjóð gæti yfirhöfuð aldrei átt nokkurn skapaðan hlut, en aðrir lagakennarar í háskólum þögðu flestir þunnu hljóði. Þeir létu það ekki á sig fá þegar tveir sjómenn, þeir Erlingur Sveinn Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson, bjuggu ásamt lögmanni sínum Lúðvíki Kaaber til kæfu úr lögskýringum Sigurðar og meðreiðarsveina og -meyja hans fyrir mannréttindanefnd SÞ 2007og höfðu þar fullan sigur gegn ríkinu. Í bindandi áliti sínu fyrirskipaði nefndin íslenzka ríkinu að nema mismunina, mannréttindabrotin, burt úr fiskveiðistjórninni og greiða bætur sjómönnunum tveim sem unnu málið, en ríkið hefur hvorugt gert. Ríkið blekkti nefndina með því að lofa henni staðfestingu nýrrar stjórnarskrár með auðlindaákvæði án mismununar. Nefndin beit á agnið og leysti ríkið ofan af króknum. Ríkið gekk á bak orða sinna og heldur nýju stjórnarskránni enn í gíslingu til að þóknast viðskiptavinum sínum og velunnurum í hópi útvegsmanna. Þessu tafli þarf að snúa við.
Vandi lagadeildar Háskóla Íslands er óleystur enn ef marka má nýjar álitsgerðir prófessoranna Róberts Spanó og Valgerðar Sólnes sem miða að því að dómi okkar Eiríks Tómassonar fv. hæstaréttardómara að útvatna auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni. Fólkið í landinu á heimtingu á að yfirstjórn Háskóla Íslands mæli fyrir um löngu tímabæra ytri úttekt á lagadeild Háskóla Íslands, helzt undir forustu próf. Carls Augusts Fleischer í Ósló. Sem fordæmi má nefna að við í hagfræðideild Háskóla Íslands áttum frumkvæði að því fyrir um 30 árum að erlendri nefnd undir forustu eins fremsta hagfræðings Norðmanna, Agnars Sandmo í Bergen, var falið að gera úttekt á starfsemi deildarinnar. (Nefndin fór lofsamlegum orðum um starfið í deildinni, einkum birtar rannsóknir á alþjóðavettvangi.)
Þríþætt rök
Rökin fyrir breyttri skipan fiskveiðistjórnarinnar voru tvíþætt lengi framan af.
Hagkvæmnisrökin. Greiðasta leiðin til að koma takmörkuðum veiðiheimildum í hendur þeirra sem bezt kunna með þær að fara er að selja leyfin eða bjóða þau upp á frjálsum markaði þar sem allir sitja við sama borð. Þessum rökum hafa hagfræðingar haldið fram í hálfa öld. Sumir andmæltu þessum rökum og sögðu að þá myndu útvegsmenn bara nota vini sína í bönkunum til að tryggja sér forgang að lánum til að kaupa leyfin. Við hin sögðum: þeim mun brýnna er þá að hreinsa til í bönkunum án frekari tafar með vel útfærðri einkavæðingu og erlendri samkeppni. Niðurstaðan varð sú að útvegsmennirnir þurftu ekki að nota ríkisbankana sem millilið heldur tryggðu þeir sér ókeypis milliliðalausan aðgang að auðlindinni fyrir tilstilli stjórnmálamanna á Alþingi.
Hagkvæmnisrök eiga yfirhöfuð undir högg að sækja þar eð almannahagur er dreifður en sérhagsmunir þjappa sér saman. Sjáðu bara bankakerfið, lesandi minn góður, þar sem skýr hagkvæmnisrök hafa lengi hnigið að meiri samkeppni, helzt einnig erlendri samkeppni til hagsbóta fyrir viðskiptavini bankanna, en þau rök hafa aldrei náð fram að ganga. Þetta á ekki bara við um bankakerfið, heldur ríkir fákeppni á flestum öðrum sviðum enn þann dag í dag.
Vandinn er ekki bundinn við Ísland. Hagkvæmnisrök hliðstæð rökunum fyrir veiðigjaldi hníga að umferðargjöldum sem hagkvæmustu leiðinni til að dreifa og draga úr umferð í þéttbýli til hagsbóta fyrir vegfarendur. Samt hafa aðeins þrjár höfuðborgir kosið að stýra umferð með gjaldheimtu enn sem komið er: London, Singapúr og Stokkhólmur. Höfuðskylda hagfræðinga gagnvart almenningi og stjórnvöldum er að mæla fyrir hagkvæmni gegn ásælni þröngra sérhagsmuna alveg eins og náttúrufræðingum ber að mæla fyrir umhverfisvernd.
Veiðigjald var að vísu leitt í lög á Íslandi 2002. Í því fólst mikilvæg viðurkenning Alþingis á rökum okkar veiðigjaldsmanna frá öndverðu. En gjaldið var aðeins haft til málamynda. Útvegsmönnum er leyft að hirða 90% af arðinum af sameignarauðlindinni. Réttur eigandi, fólkið í landinu, þarf að gera sér að góðu 10%.
Réttlætisrökin. Hin hefðbundnu höfuðrökin fyrir veiðigjaldi sem bítur snúa að réttlætishlið málsins, því sjónarmiði að réttum eiganda beri arðurinn af auðlindinni í sjónum. Þessum rökum var iðulega svarað með því að réttlæti ætti ekkert erindi inn í umræður um efnahags- eða útvegsmál, allt tal um slíkt væri til marks um og ýtti undir öfund. Þetta voru þau ár þegar skipting auðs og tekna lá ennþá utan alfaraleiðar hagfræðinga. Þarna hittu andstæðingar veiðigjalds snöggan blett á viðtekinni hagfræði síns tíma.
En nú er staðan gerbreytt. Í ljósi nýrra upplýsinga um skiptingu auðs og tekna og urmul falins fjár í skattaskjólum hefur misskipting nú tekið sér stöðu ásamt hlýnun loftslags í miðri hringiðu efnahagsmálanna. Nú loksins skilja menn betur en áður að skipting auðs og tekna skiptir máli og hagstjórn og hagskipulag þurfa að taka mið af því. Nú loksins er lagt kapp á að endurheimta snekkjur og annað þýfi úr höndum rússneskra fávalda.
Í þessu ljósi sjá nú mun fleiri en áður hversu fráleitt það er að fáeinar fjölskyldur fái að hirða obbann af arðinum sem sameignarauðlindin í sjónum gefur af sér. Nú heyrist næstum enginn lengur biðjast undan öllu tali um réttlæti í tengslum við fiskveiðistjórnina. Enda sjá það nú enn fleiri en áður hversu fráleitt það er að innviðum samfélagsins – þar með talin heilbrigðisþjónusta – sé leyft að grotna niður vegna meints fjárskorts á sama tíma og stjórnvöld halda áfram að fleygja frá sér obbanum af sjávararðinum í hendur útvegsmanna og afkomenda þeirra. Enn segi ég: Þessu tafli þarf að snúa við.
Lýðræðisrökin. Og svo er eitt enn sem enginn sá fyrir í upphafi. Uppsöfnun illa fengins auðs á fárra hendur teflir valdi upp í hendur viðtakendanna, auðvaldi. Rússland vitnar um vandann, landið sem mörg okkar vonuðu fyrir aldamótin síðustu og lengur að gæti orðið að heilbrigðu lýðræðisríki eftir hrun kommúnismans um 1990 en varð heldur að harðsvíruðu þjófræðisríki. Þessi angi fiskveiðistjórnarmálsins hér heima – samþjöppun valds á fáar hendur – birtist ekki strax heldur smátt og smátt. Vandinn hefur undið upp á sig.
Látum tvö dæmi duga. Alþingi heldur nýju stjórnarskránni enn í gíslingu að því er virðist til að stugga ekki við útvegsmönnum. Það hefur aldrei áður gerzt í lýðræðisríki að löggjafarvaldið vanvirði úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Lykilstarfsmenn eins stærsta útvegsfyrirtækisins sæta ákæru í Namibíu fyrir stórfelldar mútur, játning liggur fyrir, en fjórum árum eftir að málið gaus upp bólar ekki enn á niðurstöðu rannsóknar málsins hér heima.
Útlendingar taka að sjálfsögðu vel eftir þessu öllu. Þannig stendur á því að Ísland heldur áfram að færast niður eftir listanum yfir lýðræðislönd. Lýðræðisstofnun Gautaborgarháskóla heldur úti lýðræðismælingum sem mest er nú vísað til í rannsóknum félagsvísindamanna og annarra. Á þeim lista, þar sem Norðurlöndin tróna í efstu sætunum, er Ísland nú sokkið niður í 29. sæti, neðar en Bandaríkin eins og myndin sýnir (tölur frá 2022).
Ísland hefur sem lýðræðisríki sagt sig úr lögum við önnur Norðurlönd. Nærtækasta skýringin á þessari hnignun virðist mér vera sú að Alþingi hefur kosið að dansa eftir pípum útvegsmanna og annarra sérhagsmunahópa frekar en að virða vilja fólksins í landinu eins og hann birtist kristalstær í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána 2012 þegar kjósendur lýstu afdráttarlausum stuðningi við þjóðareign á auðlindum og jafnt vægi atkvæða í alþingiskosningum auk margra annarra réttarbóta.
Látum það kannski vera að hagkvæmni sé borin fyrir borð, það er segin saga. Og látum það kannski líka vera að ranglæti nái að grafa um sig, einnig það er segin saga. En megum við leyfa lýðræðinu í landinu að blæða út í boði Alþingis? Tekur þá ekki steininn úr?
Enn segi ég: Þessu tafli þarf að snúa við.
BjarNa á Hraunið!
Frábær grein meistari Þorvaldur Gylfason.