Það er til óborganlega fyndið bréf frá Jóhönnu Schopenhauer, mömmu heimspekingins Arthurs Schopenhauer, þar sem hún lætur son sinn heyra það. Hún segist þar vita að hann meini vel og sé með hjartað á réttum stað en hann sé bara svo ógeðslega sjálfumglaður, leiðinlegur og pirraður alltaf að fólk nenni hvorki að hlusta á hann né umgangast. Margir íslenskir höfundar hefðu gott af að fá svona bréf frá mæðrum sínum eftir þessa jólabókavertíð.
En sigurvegarar, stjörnur og sannir garpar jólabókaflóðsins í ár eru barnabókahöfundar. Enda skipta engar bækur í heiminum jafn miklu máli. Bækurnar sem við lesum sem börn og unglingar geta breytt okkur um alla eilífð.
Þó ég sé til dæmis orðin rígfullorðin þá er Lína Langsokkur enn þá andlegur leiðtogi lífs míns. Það líður varla sá dagur án þess að ég hugsi: „Hvað myndi Lína gera núna?“ Svo labba ég út og fer að tína upp drasl sem gripasafnari, fer í eltingaleiki við löggur og spjalla við vin minn sem er api.
Alltaf þegar ég lendi síðan í því að eiga í djúpum og innilegu samböndum við stráka úti í bæ, sem í rauninni eru ekki nein sambönd í alvöru, þá hugsa ég alltaf til Gunillu Bergström og meistaraverksins hennar, Einar Áskell og Mangi.
Og nú þegar heimsendir virðist sækja að okkur úr öllum áttum er fátt betra en að lesa bókina Halastjarnan eftir Tove Janson til að minna okkur á að þó að allt sé að farast er gott og mikilvægt að lenda líka í ævintýrum og kíkja á dansleiki frekar en að hlusta endalaust bara á þá sem vilja bara liggja og íhuga tilgangsleysi allra hluta og draga okkur öll hin niður.
Ég ætla að gefa sjálfri mér eina bók þessi jól sem á að vera fyrir krakka. Það er bókin Í eldhúsinu með Hrefnu Sætran. Áramótaheitið mitt er að læra að elda og þessi bók er góð byrjun fyrir mig. Þær nýju bækur sem ég er svo spennt að gefa krökkum í jóla- og afmælisgjöf eru: Eldur eftir Björk Jakobsdóttur, Fjaðrafok í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn, Svona tala ég eftir Helen Cova, Bára og bæði heimilin eftir Sólborgu Guðbrandsdóttur, Strákur eða stelpa eftir Joana Estrela og Obbuló í Kósímó eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.
Rokkstjörnurnar í jólabókaflóðinu í ár eru höfundar eins og Bjarni Fritzson með bækurnar sínar um Orra óstöðvandi, Hildur Knúts með Hrím, Gunnar Helgason um Bannað að … bækur, Bergrún Íris með Veikindadaga, Sævar Helgi með vísindabækurnar sínar og Margrét Tryggva sem gaf út bókina Stolt.
Það sem þeim hefur tekist að gera er að skrifa ótrúlega frábærar og æðislegar bækur sem börn og ungmenni eru alveg æst í að lesa og fá ekki nóg af. Höfundar þessara bóka eru hetjurnar sem við ættum að vera að hampa miklu, miklu meira. En ekki hinum hundleiðinlegu bísamrottunum og hemúlunum.
Ef einhver getur bjargað okkur frá sorglegu fjöldaólæsi, óbærilegum leiðindum og skítaþjóðfélagsstemmara þá eru það barnabókahöfundarnir okkar. Sko, Schopenhauer þótti alveg óskaplega vænt um dýr og var mjög góður við þau. Það er til fyrirmyndar og við ættum öll að sýna dýrum mikinn kærleik og mildi. En það hefði verið gott ef hann hefði líka lagt sig fram um að vera næs við samferðafólk sitt. Við ættum öll að reyna það núna, alla vega svona yfir blájólin. Svo getum við mætt ástríðufull og hress og vonandi smá meira næs aftur í næsta jólabókaflóð að ári.
Athugasemdir