Heilbrigðisráðuneyti Willums Þórs Þórssonar og ríkisstofnunin Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki svarað spurningum um einkavæðingu liðskiptaaðgerða með greiðsluþátttöku ríkisins, og önnur tengd mál, í einn mánuð. Heimildin sendi spurningar til þessara ríkisstofnana þann 17. nóvember og 23. desember síðastliðinn og hafa þessir aðilar ekki svarað þeim ennþá þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Spurningarnar voru sendar vegna umfjöllunar um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem birst hefur í Heimildinni en hún snýst meðal annars um einkarekna heilbrigðisfyrirtækið Klíníkina.
„Sjúkratryggingar hafa í skoðun hvort mögulegt sé að framlengja núgildandi samninga um framkvæmda liðskiptaaðgerða á grundvelli fjárveitingar í fjárlögum ársins 2024.“
Sjúkratryggingar Íslands gerðu í lok mars samning við Klíníkina og fyrirtækið Cosan, sem er í eigu bæklunarskurðlækna á Landspítalanum, um að þau fengju að gera 700 liðskiptaaðgerðir með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands og þar með íslenska ríkisins. Um var að ræða fyrsta slíka samninginn sem gerður hefur verið á Íslandi þar sem liðskiptaaðgerðir fara í útboð til einkaaðila. Þessi samningur var umdeildur, meðal annars hjá forsvarsmönnum Cosan sem höfðu takmarkaðan tíma til að undirbúa til boð fyrir útboðið þar sem það var ekki vel kynnt opinberlega.
Umræða fer nú fram í ríkisrekna heilbrigðiskerfinu að verið sé að stýra aðgerðum í auknum mæli til Klíníkurinnar.
Framlenging á bak við tjöldin
Nú stendur til að framlengja þennan samning við Klíníkina og Cosan, eins og Heimildin hefur greint frá, og stendur til að miða við að hvort fyrirtæki fái að gera hlutfallslega eins margar liðskiptaaðgerðir með greiðsluþátttöku ríkisins á fyrstu fjórum mánuðum næsta árs og þær gerðu á þessu ári. Sjúkratryggingar hafa sent erindi um þetta til fyrirtækjanna, samkvæmt heimildum.
Í erindinu sagði: „Sjúkratryggingar hafa í skoðun hvort mögulegt sé að framlengja núgildandi samninga um framkvæmda liðskiptaaðgerða á grundvelli fjárveitingar í fjárlögum ársins 2024, þar til hægt er að ljúka nýju innkaupaferli. Með þessu væru núgildandi samningar framlengdir til allt að 31. mars 2024, með tilteknum breytingum. Fjöldi umsaminna aðgerða myndi taka mið af framleiðslu og framleiðslugetu verksala hingað til, þó þannig að umsaminn fjöldi aðgerða yrði að jafnaði lægri á mánuði en hefur verið á árinu 2023.“
Til að af þessu verði þarf að samþykkja fjárveitingu þess efnis á fjárlögum næsta árs.
Heimildin birtir hér fyrir neðan spurningarnar sem blaðið hefur sent til heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands.
Athugasemdir