Eftir viðburðarlítinn vinnudag fyrir stuttu ákvað ég að koma við í matvörubúð. Ákvörðun þessi er bæði hversdagsleg og vélræn í háttum flestra. Þetta var á föstudegi og klukkan var að ganga fjögur þegar ég kom í búðina. Erill var á mannskapnum og eldingshraði. Ég ákvað þó að staldra við og taka minn tíma. Ég labbaði að grænmetinu og fór að munda tómata. Ég valdi mér tvo slíka. Bananarnir urðu þrír fyrir valinu og svo fann ég mér feitlagna rófu. Ég gekk síðan áleiðis að avókadó-ávextinum og hugði á vandað val. Ég sá tvo í pakka sem mér leist á og rétti út höndina eftir pakkningunni. Þá mundi ég eftir strikamerkinu og höndin á mér hrökk til baka. Avókadóið kom frá Ísrael.
Ég fann hroll fara eftir hryggnum og sá fyrir mér slátrun saklausra barna. „Ó, nei, Ísrael, ekki á minni vakt“ – hugsaði ég og náði mér í annan avókadó sem kom frá Hollandi. Ég upplifði mig hafa tekið afstöðu og sýnt það skýrt í verki. Ég upplifði mig eins og hnefahögg sem skilur eftir sig verulegar afleiðingar hjá þeim sem fyrir högginu verður. Hroki minn og veruleikafirring kallaði þetta rothögg. Raunvera kallar þetta kinnhest út í vindinn. Ég upplifði mig hins vegar þarna í grænmetisdeildinni sem einhvers konar siðferðislegan sigurvegara. Ég gekk sátt frá grænmetisborðinu en sáttin náði ekki lengra en að mjólkurkælinum því fyrir framan AB mjólkina runnu á mig tvær dökkar grímur. Ég upplifði níðþunga skömm gagnvart sjálfri mér og fór að velta því fyrir mér hversu burðug ég væri að verulegri gagnsemi, mannkyninu til góðs. Ég fór í kjölfarið af upplifa efasemdir um siðferðislega framþróun tegundar okkar.
Fréttir úr veröld manna
Siðfræði er tvö þúsund og fimm hundruð ára gömul fræðigrein. Hún er ekki óhagganlegur leiðarvísir að öllu sem rétt er, heldur tekur hún mið af sögulegu samhengi hverju sinni. Sterkur skilningur á siðfræði getur þroskað dómgreind okkar. Þennan skilning virðist nútímamanninn skorta. Stríð, þjóðarhreinsun, kynferðisofbeldi, mannréttindabrot, ofríki, auðlindaokun, venjuvæðing sjúklegrar sjálfhverfu, valdafíkn og hnattræn hnignun. Allt eru þetta daglegar fréttir úr veröld manna.
Okkur virðist skorta heilindi í verki og við erum farin að lifa úr takti við þarfir okkar og umhverfi. Rafheimur eflist sem hliðstæður heimur og kröfurnar þar eru yfirþyrmandi. Streita og sálrænir kvillar taka yfir. Upphafning sjúklegrar sjálfhverfu á samskiptamiðlum og stórfenglegar hugsanaskekkjur tröllríða vitum okkar og ráða því hvernig við sjáum heiminn. Geðþóttaskoðanir eru orðnar meira virði en niðurstöður rannsókna og vegið er að þeim sem minnast á réttmæti og áreiðanleika vísindanna. Persónuleg reynsla býr til sjálfskipaða sérfræðinga og það er ekki lengur hægt að segja að eitthvað sé einfaldlega rangt. „Ég hef bara aðra skoðun en þú!“ – segir sá alvitri og snýr upp á nef sér. Á þessu lifir hrokinn, aðskilnaðurinn og einstaklingshyggjan.
Eftir sitja fáir og horfa glottandi á glundroðann og telja krónur. Við erum orðin að tegund sem er orðin ófær um að tengja við umhverfi sitt og áttar sig ekki á því þegar henni er ofboðið. Gott fólk sem týnir tilgangi tilvistar sinnar í ofríki og kúgun neysluhyggjunnar. Við sitjum flöt fyrir framan alla skjáina okkar og upplýsingaóreiðan þvingar sér inn mótstöðulaust. Við erum ekki lengur skynsamar, rökréttar verur sem sjá heiminn eins og hann er.
Haghafar óreiðunnar
Falsfréttir, múgæsingur og rautt glimmer eru notuð til að afvegaleiða fjöldann og halda okkur fjarri hvert öðru. Að halda okkur aðskildum og í ójafnvægi er hagur þeirra sem á illu nærast og peninga vilja einoka. Vald er vandmeðfarið og samkvæmt mannkynssögunni hefur tegund mannsins alltaf farið illa með bæði vald og peninga. Allt aðgengi virðist hafa verið einskorðað við þröngan hóp. Vald er getan til að ná tilætluðum áhrifum. Áhrif þess í dag eru ekki hagur heildarinnar. Samfélagsleg ábyrgð hefur tekið högg. Nærtækustu hagsmunir taka yfir og stjórna hegðun okkar. Þetta kveikir eld undir hugarfarinu „við“ og „hinir“ og elur á aðskilnaði.
Hugsanir um hvaða afleiðingar hegðun mannsins hefur og framtíðarmiðan í ákvarðanatöku er ekki bara ábótavant í dag, þeirra er með öllu saknað. Alþjóðaráðstefnur um loftslagsvandamál eru bitlausar með öllu. Einhver samstaða um orðalag náðist á slíkri ráðstefnu um daginn. „Mikill er máttur okkar“ – hugsaði ég og ranghvolfdi augunum. Ég er hrædd um að jörðin eigi eftir að eyðast áður en við náum að rétta okkur af. Svo bjartsýn er mín spá á meðan ég sýp jólaölið á þessari hátíð veruleikafirringar með fallegum dúk á borði.
Að hegða sér eins og api
Ég á vini og kunningja sem fara mikinn á samfélagsmiðlum þegar kemur að því að fordæma hegðun Ísraelsmanna. Flestir hins vegar í kringum mig láta þetta lítið trufla sitt daglega líf þótt þeir fordæmi þjóðarhreinsunina í samtali. Sú hegðun endurspeglar ekki áfellisdóm minn yfir þeim. Ég hef ekki efni á því. Ég er eins. Ég held hins vegar að valdhafar heimsins og undirgefni flestra óbreyttra gagnvart öfgafullu afþreyingarefni í rafheimum geti leitt af sér ómeðvitaða aftengingu og ónæmi fjöldans. Gagnrýnin hugsun sérfræðinga víkur fyrir geðþóttaskoðunum ófaglærðra. Allir fá rými til að spúa hatri og ósannindum. Fordómar fagna þessari heimsku. Þetta er til marks um hversu langt við erum frá hápunkti siðferðisþroska tegundar okkar.
„Á því augnabliki áttaði ég mig á því að á tíma siðferðislegrar hnignunar mannkyns, fólst afrek mitt í því að taka afstöðu gagnvart innflutningi á avókadó“
Ég fór að hugsa til Kongó í Afríku þar sem Bonobo apinn býr. Ég lærði um hann þegar ég var í mannfræðinni. Erfðamengi mannsins og Bonobo apans er að mestu leyti eins. Bonobo apinn er sú apategund sem skarar fram úr þegar kemur að hæfni og hugrænni getu. Þeir búa við samfélagsreglur og siði. Þeir búa til sín eigin verkfæri til að afla matar og vinna saman sem heild til að tryggja sátt og samlyndi. Sérfræðingar segja að Bonobo apar sýni ósérplægni, samkennd, samhygð, gæsku og þolinmæði í samskiptum sín á milli. Eiginleikar sem við teljum til eftirsóknarverðra mannkosta. Þeir búa í mæðraveldi þar sem fæðu er skipt jafnt og þar af leiðandi þurfa karldýrin ekki að mynda valdasambönd sín á milli til að tryggja yfirráð eða aðgengi að auðlindum. Því meira sem ég les um Bonobo apann því meira fer ég að velta því fyrir mér hvort að þar hefðum við kannski átt að segja staðar numið í þróunarsögunni. Ef eitthvað, þá ættum við í raun að vera að hegða okkur meira eins og apar.
Lokaorð
Ég gleymdi síðan að borða avókadóið. Það varð hálf myglað og mjúkt á eldhúsbekknum heima hjá mér. Svo mikið fylgdi kné kviði. Ég andvarpaði og var ósátt við sjálfa mig. Ég kramdi ávöxtinn í lófanum og fann grágræna leðjuna linast út. Á því augnabliki áttaði ég mig á því að á tíma siðferðislegrar hnignunar mannkyns, fólst afrek mitt í því að taka afstöðu gagnvart innflutningi á avókadó. Svo megnugur er aðgerðarsinninn ég. Ég þarf að horfast í augu við það.
Gömul frænka bað mig að skrifa fallega í lok árs. Hún sagði mig skrifa vel en var komin með nóg af öllu þessu tali um ofbeldi og ljótleika. Það væru nú jólin. Ég velti því fyrir mér hvort það væri rétt hjá henni, hugsaði minn gang og hugði á léttleika. Svo las ég nýjustu fréttir. Tvær barnungar stúlkur þvingaðar af íslenska réttarkerfinu til að líta svo á að þær hefðu átt samræði við fullorðnu mennina sem nauðguðu þeim. „Svo burðug erum við í að beina börnum frá óréttlátri skömm“ –hugsaði ég og hóf bitur að skrifa.
Takk fyrir lesturinn á árinu.
Athugasemdir