Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og eigandi Samherjasamstæðunnar um áratugaskeið, festi nýlega kaup á fjallaskála fyrir utan litla skíðabæinn Hafjell í austur Noregi. Norski fjölmiðillinn DN greindi frá þessu fyrr í mánuðinum.
Skálinn er 254 fermetra nýbygging. Upphaflegt verð skálans var 23,9 milljónir norskra króna, sem nemur 316.240.000 íslenskra króna. Skálinn hefur staðið á sölu í ár og keypti Þorsteinn hann á 20 milljónir norskra króna eða 264.636.000 íslenskra króna. Hægt er að sjá mynd af skálanum hér.
Í svari Þorsteins Más til norska fjölmiðilsins DN segist hann ekki vera að flytja til Noregs. Hann sé að smíða skip í Noregi en þess að auki á hann nokkrar fjárfestingar í Noregi.
Heildarárstekjur Þorsteins Más voru um 357 milljónir króna í fyrra samkvæmt Hátekjulista Heimildarinnar. Eigið fé þeirra félaga sem mynda Samherjasamstæðuna, og voru lengi vel að stórum hluta í eigu Þorsteins Más, Helgu S. Guðmundsdóttur fyrrverandi eiginkonu hans og Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherja, var um 160 milljarðar króna í lok árs 2021. Þau færðu eignarhaldið á Samherja hf. til barna sinna árið 2020 og seldu erlenda starfsemi samstæðunnar til Baldvins Þorsteinssonar, sonar Þorsteins Más, í lok síðasta árs.
Auður Þorsteins Más var metinn á um 110 milljarða króna af Frjálsri verslun í apríl síðastliðnum.
Baldvin fluttur til Noregs
Baldvin, sem hefur undanfarin ár stýrt erlendri starfsemi Samherja, býr nú ásamt fjölskyldu sinni í bænum Jar í Noregi. Þaðan rekur hann sjávarútvegsfyrirtækið Öldu Seafood. Baldvin er með skráð lögheimili sitt í Noregi en það var áður skráð í Hollandi þar sem hann bjó og leiddi alþjóðlega starfsemi Samherja.
Í smáskilaboðum sem hann sendi DN sagði Baldvin að Noregur hefði alltaf verið mikilvægt viðskiptaland fyrir Samherjasamstæðuna. Hún væri að byggja þar skip auk þess sem hún stæði í öðrum fjárfestingum þar í landi. „Ég hef áður búið á meginlandinu. Noregur, með nálægð sína við Ísland, er þægilegri staður fyrir mig að búa.“
Keypti Öldu fyrir óuppgefið verð
Alda Seafood hefur haldið utan um erlenda starfsemi Samherjasamstæðunnar, fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku. Fjárfestingafélagið Sæból tilheyrir líka Öldu. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta. Alda Seafood á 40 prósent af norska útgerðarfélaginu Eskøy, en samkvæmt norskum lögum mega útlendingar eiga að hámarki 40 prósent í norskum útgerðum. Auk þess á Sæból þrjú dótturfélög í Færeyjum, þar á meðal Spf Tindhólm.
Baldvin keypti Öldu Seafood af Samherja Holding undir lok síðasta árs. Í frétt Morgunblaðsins af kaupunum var haft eftir Þorsteini Má að ástæðan fyrir sölunni væru kynslóðaskipti sem átt hafi sér stað innan Samherja, og að salan á Öldu væri eðlilegt framhald af því. „Við teljum að félagið sé vel komið í hans höndum og þeirra stjórnenda sem hafa starfað þar.“ Í frétt Morgunblaðsins var ekki greint frá því á hvaða verði Baldvin keypti Öldu Seafood né hvernig kaupin voru fjármögnuð og ekki er hægt að sjá hver verðmiðinn var í ársreikningi Samherja Holding, sem í dag heitir ESTIA ehf.
Athugasemdir (2)