„Ég get staðfest að mál starfsmanna hjá embættinu eru til skoðunar vegna háttsemi í vinnuferð erlendis í síðasta mánuði,“ segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Málið er litið alvarlegum augum enda eru ríkar kröfur gerðar til starfsmanna embættisins um að vera til fyrirmyndar í hvívetna,“ segir hann.
Uppákoma í fræðsluferð um hatursglæpi
Málið sem um ræðir snýst um uppákomu sem átti sér stað í fræðsluferð íslenskra lögreglumanna og saksóknara lögregluembætta til Póllands dagana 7.-11. nóvember. Námskeiðið var haldið á vegum mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, sem heyrir undir ríkislögreglustjóra, og voru þar fulltrúar ýmissa lögregluembætta á landinu.
Yfirskrift námskeiðsins var „Hatursglæpir - uppgangur öfgaafla“ og var haldið í bænum Auschwitz. Þar voru stærstu fanga- og útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni og var einn dagur tileinkaður útrýmingarbúðunum þar sem farið var í skoðunarferð.
Deildu myndum á Snapchat
Eitt kvöldið þegar þátttakendur á námskeiðinu fóru út á lífið ákváðu þrjár konur, sem allar starfa hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að panta þjónustu karlkyns strippara og koma þannig á óvart öðrum þátttakendum á námskeiðinu sem voru með þeim þetta kvöld. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar tóku konurnar fjölda mynda þetta kvöld og deildu í lokuðum hópi á samfélagsmiðlinum Snapchat.
Uppákoman lagðist misvel í viðstadda. Þá mun vera mikil ólga vegna málsins innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tjá sig ekki frekar
Gunnar Rúnar vildi ekki staðfesta hvort einhverjar þessarra kvenna hefðu verið áminntar eða settar í tímabundið leyfi frá störfum vegna málsins, né hvort um brot á siðareglum væri að ræða en konurnar voru í ferðinni á vegum vinnuveitenda síns.
Að sögn Gunnars Rúnars getur embættið ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna umfram það sem haft er eftir honum í upphafi fréttarinnar.
Skulu ekki varpa rýrð á starfið
Í mannauðsstefnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að „Starfsmenn lögreglu skulu gæta þess að aðhafast ekkert í starfi sínu eða utan þess sem getur orðið þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf sem þeir vinna.“
Í kafla um samskipti segir að áhersla sé „lögð á samheldni, traust og góðan starfsanda. Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og önnur óviðeigandi hegðun er litin alvarlegum augum og hún ekki liðin.“
Þjóni samfélaginu af heiðarleika
Í siðareglum lögreglunnar segir meðal annars: „Í starfi lögreglu er áhersla lögð á góða siði og starfsmenn skulu vera áreiðanlegir og starfsamir fagmenn. Þeir geta því aðeins vænst trausts og virðingar vegna starfa sinna að þeir framkvæmi hlutverk lögreglu með það að leiðarljósi að þjóna samfélaginu af heiðarleika, hlutlægni, réttsýni, nærgætni, trúmennsku, þagmælsku og þekkingu.“
Undir siðareglurnar heyrir starfsfólk lögreglu, ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra, lögreglumenn og annað starfslið lögreglu auk saksóknara við embætti lögreglustjóra.
Það er hluti af fréttinni að konur pöntuðu sér karlfatafellur.
Fréttin hefði verið að mörgu leyti áhugaverðari ef karl löggur hefðu pantað sér karlstrippara🤭
Það er kannski merki um góða kvenréttinda baráttu undanfarið að konurnar þarna voru öruggar með sig og sáu ekki tviskinnunginn og hræsnina.
En mín vegna er þetta allt í góðu lagi.