Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir þá óvæntu þróun sem sést hefur á hitastigi jarðar síðastliðið ár vera til marks um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. „Þetta hefur komið dálítið bratt að okkur og menn héldu kannski að þetta yrði veðurlagið sem verði á síðari hluta aldarinnar,“ sagði hann í viðtali hjá Margréti Marteinsdóttur í nýjasta þætti Pressu, þjóðmálaþætti Heimildarinnar.
Spurður hvort hann haldi að það muni takast að halda hlýnuninni undir 1,5 gráðu segist Einar svartsýnni á það en áður. „Einu sinni var ég bara frekar bjartsýnn á þetta allt saman en ég er það eiginlega ekki lengur því mér finnst ekkert ganga.“
Hann segir það blasa við að draga þurfi verulega úr notkun á jarðefnaeldsneyti. „En skrefin í þá átt eru fá. Mér sýnist þau ekki núna þessar vikurnar ætla að verða neitt stærri en að undanförnu, því miður. Það er mín tilfinning.“
Hér má horfa á annan þátt Pressu í heild sinni:
Athugasemdir