Fréttaskýringarþátturinn Kveikur var sýndur síðasta þriðjudagskvöld. Þar var fjallað um íslensku krónuna undir yfirskriftinni „Fyrirtæki flýja krónuna”.
Ýmislegt áhugavert kom þar fram en ýmislegt hefði líka mátt útskýra langtum betur.
Hér verða tvö atriði nefnd.
Það fyrra hefur með dönsku krónuna að gera. Í þættinum kemur fram að fyrir 100 árum var ein dönsk króna ígildi einnar íslenskar en í dag er ein dönsk króna ígildi tvö þúsund íslenskra gamalla króna – en tuttugu nýrra króna. Þetta á rætur að rekja til að fyrir um 40 árum voru tvö núll fjarlægð – án annarra efnahagslegra afleiðinga – af íslensku krónunni.
Samanburður á þeirri dönsku og þeirri íslensku á því að fara fram í gömlum íslenskum krónum. Þá erum við að tala um að á 100 árum hefur ein dönsk króna orðið að ígildi tvö þúsund íslenskra.
Hér hlýtur eitthvað að hafa farið illilega úrskeiðis – eða hvað?
Til að fá þetta í samhengi hefði verið gagnlegt að kasta fram hinni hliðinni á þessum pening. Þeirri hlið sem segir okkur að fyrir 100 árum voru tekjur á mann á Íslandi um þriðjungur eða svo miðað við tekjur á mann í Danmörku. Við vorum ekki hálfdrættingar miðað við Dani fyrir 100 árum kaupmáttarlega séð. Í dag eru þessar tekjur um eða við á pari.
Þetta skiptir höfuðmáli fyrir almenna velsæld þjóðarinnar (heimili landsins) og það er nokkuð ljóst að hefði ekki verið hægt að gengisfella krónuna – þegar illa áraði – hefði þessi þróun ólíklega gerst. Þó er rétt að taka fram að á ýmsum tímabilum í okkar hagsögu hefði verið hægt að stýra skútunni með langtum betri myndarbrag en það er önnur saga.
Hið seinna hefur með það að gera hvert allar þessar auknu tekjur sem hafa myndast vegna hækkandi verðbólgu (og tilheyrandi verðbætur á lán) og stýrivaxta fara – hver er að fá megnið af þessum tekjum? Það vill svo til að mjög stór hluti af þessum auknu vaxtatekjum er að renna í sameiginlega sjóði landsmanna – til lífeyrissjóðanna sem eigendur að stórum hluta – beint eða óbeint – af fasteignalánum landsmanna. Þetta atriði hefur í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað á umliðnum mánuðum ekki komist nægilega vel til skila.
Fréttaskýringarþáttur eins og Kveikur má ekki skauta framhjá grundvallarþáttum þegar fjallað er um jafn mikilvægt málefni og kosti og galla íslensku krónunnar.
Athugasemdir (1)