Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR, hafnar fullyrðingum um framgöngu og hegðun hans á mótmælafundi sem átti sér stað í húsakynnum Gildis lífeyrissjóðs, sem birtust í kvörtunarbréfi sem Gildi sendi stjórn VR. Í samtali við Heimildina segir Ragnar engum hafi stafað ógn eða hætt af þeim sem voru að mótmæla. Mótmælin hafi farið „mjög friðsamlega fram“ sem aðrir sem voru viðstaddir mótmælin geti staðfest.
„Þarna voru börn, eldra fólk, Grindvíkingar sem eru í mikilli óvissu og í skelfilegri stöðu. Þarna voru formenn annarra verkalýðsfélaga eins og verkalýðsfélag Grindavíkur og sömuleiðis vélstjóra og sjómannafélag Grindavíkur,“ segir Ragnar Þór.
Tilgangur mótmælanna var að þrýsta á lífeyrissjóðinn að koma betur til móts við íbúa Grindavíkur sem eiga húsnæðislán hjá sjóðnum.
Ragnar segir yfirlýsinguna um framferði sitt koma sér á gríðarlega á óvart og sig hafa farið á farið á „fjölda funda með fólki úr pólitíkinni þar sem skoðanaskipti eru mun hvassari og harkalegri heldur en þau sem fóru þarna fram“.
Þá tekur hann fram sjálfur hafi hann nánast ekkert tekið til máls. Fundinum hafi að mestu verið stýrt af Herði Guðbrandssyni, formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur og hafi samskiptin nánast eingöngu farið fram við Árna Guðmundsson.
Gildi Lífeyrissjóður sendi fyrir stuttu bréf til stjórnar stéttarfélagsins VR þar sem kvartað er undan framgöngu Ragnars á mótmælafundinum. Í bréfinu er hann sagður hafa verið einn helsti hvatamaður þess að mótmælin færu ekki friðsamlega fram.
Þá kemur einnig fram í kvörtun Gildis að sjóðurinn hafi virkjað svokallaða EKKO-áætlun sem sé notuð til að bregðast við, og koma í veg fyrir, ofbeldi og áreiti á vinnustaðnum. Í bréfinu er því haldið fram að mörgum starfsmönnum sjóðsins hafi þótt mótmælin ógnandi og framferði mótmælanda, þar á meðal formanns VR, verið ígildi andlegs ofbeldis.
Tilgangur bréfsins hafi einnig verið að vekja athygli á því að langflest starfsfólk Gildis séu félagsmenn VR og þar með hljóti það skjóta skökku við að formaður stéttarfélagsins beiti sér gegn eigin félagsmönnum með slíkum hætti.
Spurður út þetta atriði bréfsins segist Ragnar hafna því alfarið. „Mótmælin beindust ekki að starfsfólki Gildis, hvort sem það voru félagsmenn í VR eða ekki. Þessi mótmæli beindust gegn stjórnendum sjóðanna sem hafa tekið afstöðu með því að nýta sér ákveðna óvissu sem er um heimild lífeyrissjóðanna til að veita þessum þrönga hópi ívilnun á þessum erfiðu tímum.“
Stéttarfélögin hafna ásökunum stjórnenda Gildis
Fjölmargir aðilar sem komu að mótmælunum hafa stigið fram og mótmælt yfirlýsingunum í bréfi Gildis og fullyrðingum um að Ragnar Þór Ingólfsson hafi hvatt til þess að mótmælin færu fram ófriðsamlegum hætti. Í yfirlýsingu Harðar Guðbrandssonar vísar hann þeim ávirðingum, að formaðurinn hafi farið fram með offorsi, til föðurhúsanna og segir Ragnar hafa komið fram á „málefnalegan og kurteisan hátt“.
Í nýlegri yfirlýsingu stjórnarmanna Eflingar, eru ásakanir framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra Gildis gegn Ragnari Þór fordæmdar. Lýsingarnar sem birtar eru í bréfi þeirra séu fullar af ósannindum rógburði til þess föllnum að vega að mannorði Ragnars. Þá túlka stjórnamernn Eflingar bréfið sem árás á Ragnar, sem sé „um leið árás á okkur, á sjóðfélaga frá Grindavík og aðra þá sem tóku þátt í umræddum mótmælum“.
Þingmaður Flokks Fólksins kemur Ragnari til varnar
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, varaformaður þingflokks Flokks fólksins, sem var viðstödd mótmælin á skrifstofu Gildis, hefur einnig tjáð sig um málið í tveimur færslum á Facebook-síðu sinni. Þar hafnar hún frásögninni og ásökununum komu fram í bréfinu frá Gildi. Ekkert ofbeldi hafi átt sér stað og allir hafi haldið ró sinni, þar á meðal Ragnar Þór. Í færslunni varpar hún þeirri spurningu fram hvort það sé „núna orðið „ofbeldi“ að boða til mótmæla?“
Athugasemdir