„Sá sem hefur tekið þessi börn eða er með þau hjá sér, hann mun finnast. Hann ætti að vakna á hverjum degi og bíða þess að yfirvöld banki á hurðina hjá honum,“ segir Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur.
Faðirinn er nú hér á landi og leitar sona sinna.
Edda Björk var á þriðjudag færð í gæsluvarðhald á Hólmsheiði vegna komandi réttarhalda yfir henni í Noregi. Hún var síðan flutt með valdi af lögreglumönnum frá Hólmsheiði fyrr í dag og er útlit fyrir að hún sé nú á leið til Noregs. Dagsetning fyrir réttarhöldin hefur ekki verið gefin út.
Ástæða þessa er forsjárdeila sem Edda og barnsfaðir hennar standa í vegna þriggja sona þeirra. Norskir dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir eigi að búa hjá föður sínum en Edda fór þrátt fyrir það með syni sína til Íslands fyrir um einu og hálfu ári síðan og hér hafa þeir búið síðan þá. Edda hefur verið kærð fyrir að nema drengina á brott. Lengsti mögulegi fangelsisdómur sem hún gæti fengið hljóðar upp á sex ár.
Nú eru drengirnir í felum, óljóst er hver tók ákvörðun um að fela þá og hvar þeir eru niðurkomnir. Fjölskylda Eddu hefur sagt þá vera örugga og að þeim líði vel.
„Umbjóðandi minn ætlar að vera á Íslandi þangað til börnunum er komið með öruggum hætti aftur heim [til Noregs],“ segir Sjak. „Ég skil það þannig að yfirvöld viti ekki einu sinni hvar synir hans eru.“
Sá sem hýsir börnin eigi að stíga fram
Faðirinn kallar eftir því að hver sá sem veit hvar synir hans eru niðurkomnir láti lögregluna vita, segir Sjak sem telur að manneskjan sem nú hýsi börnin gæti verið að fremja lögbrot.
„Við búumst við því að sá sem er með börnin stígi fram innan sólarhrings,“ segir Sjak.
Hann telur að fram að þessu hafi verið einblínt um of á réttindi móðurinnar Eddu og tími sé til kominn að setja hag drengjanna í forgrunn. „Þeir búa í Noregi,“ segir Sjak.
En nú eru þeir á Íslandi?
„Lagalega séð búa þeir í Noregi,“ segir Sjak sem ætlar að kalla eftir því að drengirnir fái réttargæslumann. „Við réttarhöldin í Noregi mun sérfræðivitni bera vitni um það hvaða skaða valdið börnum að taka þau frá vinum sínum og úr skóla með því að fela þau einhversstaðar.“
En nú hafa drengirnir skapað sér líf á Íslandi, gæti það ekki skaðað þá að fara aftur til Noregs?
„Þeir hafa skapað sér líf í Noregi. Þeir munu snúa þangað aftur, þeir hafa varið meirihluta ævinnar í Noregi.“
Hvað ef þeir hafna því að fara aftur?
„Þeir hafa ekki neitað því að fara. Múgur hefur reynt að koma í veg fyrir framgang réttlætisins. Það er ekkert til að vera stoltur af. Börnin vilja fara heim en þeim hefur verið neitað um augljós réttindi sín.“
Aðspurður segir Sjak að faðirinn hafi ekki kallað eftir handtöku Eddu, það hafi verið aðgerðir á vegum norskra og íslenskra yfirvalda. Aftur á móti segir hann að erfitt hafi verið að fá íslensk yfirvöld til samstarfs. „Norðurlöndin ættu að vinna saman í svona málum,“ segir Sjak.
Barist um eins og hverna annan varning!