„Það er sjálfsagt og eðlilegt að við reynum að stíga skref breytinga og reynum að ná víðtækari sátt um útfærslu kerfisins,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðislokksins. Þetta segir hann um frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í fyrsta þætti Pressu á Heimildinni.
Hann segir Svandísi fara sína eigin vegferð með frumvarpið þar sem það var lagt fram án alls samráðs milli stjórnarflokkana. Hann telur það áhyggjuefni að öll sjávarútvegsfyrirtækin geti verið sammála um að frumvarpið sé áhyggjuefni.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók einnig þátt í umræðunum og sagði hann sláandi að heyra Svandísi lýsa óvissu um hvort ríkisstjórnin myndi styðja frumvarpið. „Mér finnst þetta afhjúpa erindisleysi þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Jóhann Páll.
Jóhann Páll telur mikilvægast fyrir ríkisstjórnina að hámarka verðmætasköpun og auka framleiðni í sjávarútvegi. Hann vill einnig að því verði „tekið alvarlega að samkvæmt lögum eru nytjastofnar á Íslandsmiðum í eign þjóðarinnar.“ Því þyki honum eðlilegt að þjóðin fái aukna hlutdeild í þeirri auðlindarentu sem verður til í sjávarútvegi.
„Til hvers er eiginlega þessi ríkisstjórn?”
Jóni þykja „vinnubrögð fyrir neðan allar hellur“, en þó séu atriði í frumvarpinu sem hann geti sætt sig við. Hann nefnir sem dæmi mikilvægi þess að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti verið samkeppnishæf á erlendum markaði.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að horft sé til Íslands sem fyrirmyndar að fiskveiðikerfum og því sé mikilvægt að ná sátt við sjávarútvegsfyrirtækin, en að sú vegferð geti verið erfið því hagsmunir séu mismiklir.
„Til hvers er eiginlega þessi ríkisstjórn?“ spurði Jóhann Páll og ásakaði ríkisstjórnina um að ná ekki saman „um eitt né neitt“. Hann telur málin í sjávarútveginum vera stöðnuð, í orkuöflun og nefnir að Jón hafi sjálfur talað um „stjórnleysi í útlendingamálum“.
Hér má horfa á fyrsta þátt Pressu í heild sinni:
Athugasemdir