Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Hér geta hugmyndir vaknað og draumar ræst“

Ljós­mæð­urn­ar Emma M. Swift og Embla Ýr Guð­munds­dótt­ir stofn­uðu Fæð­ing­ar­heim­ili Reykja­vík­ur fyr­ir rúmu ári síð­an. Þar hafa fæðst í kring­um 70 börn og enn fleiri fjöl­skyld­ur sótt sér að­stoð þar. Markmið Emmu og Emblu Ýr­ar er að geta boð­ið upp á þjón­ustu frá kyn­þroska­aldri og fram að breyt­inga­skeiði.

„Hér geta hugmyndir vaknað og draumar ræst“
Stofnendur Fæðingarheimilis Reykjavíkur Emma M. Swift og Embla Ýr Guðmundsdóttir ljósmæður og stofnendur Fæðingarheimilis Reykjavíkur bjóða upp á þjónustu fyrir konur á öllum aldri. Mynd: Golli

„Við fengum leyfið klukkan 10 um morgun og sendum þá sms á allar konurnar sem voru komnar á tíma: Leyfið er komið,“ byrjar framkvæmdastjóri Fæðingarheimilis Reykjavíkur, Emma M. Swift, lýsingu sýna á fyrstu 24 klukkustundunum eftir opnun þess. „Um nóttina hringja þrjár konur í byrjandi fæðingu þannig að á þessum fyrsta sólarhring fæddust hér þrjú börn.“

Meðstofnandi hennar og stjórnarformaður, Embla Ýr Guðmundsdóttir, man vel eftir þessum fyrstu klukkutímum: „Þetta er ótrúlegt,“ segir hún með bros á vör.

Ljósmæður Fæðingarheimilis ReykjavíkurÍ dag starfa fimm ljósmæður á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Mikið er lagt upp úr því að hver og ein fái að vinna með sitt sérsvið innan ljósmæðurfræðinnar.

Gengu lengi með hugmyndina

Emma og Embla Ýr eru báðar með doktorspróf í ljósmóðurfræði og hafa mikla reynslu af störfum á því sviði. Þær höfðu lítið sem ekkert unnið saman en kynntust betur við kennslu í Háskóla Íslands. „Við fórum svolítið að tala saman og sáum strax að okkar hugmyndir áttu algjöra samleið. Þannig fór boltinn að rúlla og þá gerðist þetta frekar hratt,“ rifjar Emma upp. 

Að eigin sögn höfðu þær báðar gengið með þá hugmynd í maganum lengi að stofna fæðingarheimili. 

JógaBoðið er upp á ýmiskonar jógatíma fyrir verðandi og nýbakaða foreldra.

Emma telur tvennt hafa spilað inn í að hægt var að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Annars vegar að þær voru á sömu blaðsíðu og þurftu því ekki að rökræða stór atriði. Hins vegar að þær eru báðar týpur sem ganga í málin og eru ófeimnar við að læra nýja hluti, eins og að búa til rekstrarbókhald og heimasíðu.

Til þess að gera undirbúningsferlið eins skilvirkt og hægt var bjuggu Emma og Embla Ýr til verkferla og plan um hvernig þær ætluðu að fara að því að láta drauminn rætast. Þær sönkuðu einnig að sér upplýsingum, söfnuðu húsgögnum, byrjuðu snemma að sækja um leyfi og reyndu ávallt að vera einu skrefi á undan í ferlinu. 

„Þetta var heilmikið ferli en ég held við höfum báðar haft svolítið gaman af því og við vinnum mjög vel saman. Þannig að við gátum kastað boltanum á milli og þá fór hann bara að rúlla. Við vorum búnar að opna hér svona einu og hálfu ári eftir að hugmyndin varð til,“ segir Emma.

„Þetta var heilmikið ferli en ég held við höfum báðar haft svolítið gaman af því og við vinnum mjög vel saman“
Emma M. Swift
ljósmóðir og framkvæmdastjóri Fæðingarheimilis Reykjavíkur

Þjónustan

„Það hefur alltaf verið okkar framtíðarsýn að geta verið með stað sem hvort tveggja býður upp á fjölbreytta þjónustu með ólíkum fagaðilum eins og ljósmæðrum, brjóstaráðgjöfum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingum,“ útskýrir Embla Ýr.

„Og svo einnig að bjóða upp á þjónustu sem spannar langt tímabil. Þá til dæmis fyrir barneignarferlið, á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu. Við höfum líka verið að bjóða upp á ráðgjöf á breytingaskeiði.“

Ljósmæðurnar lögðu mikla vinnu í að finna rétta húsnæðið sem gæti hýst þessa starfsemi og fundu sinn heimastað í Hlíðunum. „Við þurftum að hafa góðan sal til þess að geta verið með þessi fjölbreyttu námskeið, tvær fæðingarstofur og þrjú ráðgjafaherbergi. Allt þetta þurfti svolítið að geta spilað saman af því að það er undirstaðan að einhverju leyti til þess að geta unnið með þessa hugmyndafræði.“

Meðal þeirrar þjónustu sem nú stendur til boða í Fæðingarheimili Reykjavíkur er fæðingarþjónusta, brjóstagjafaráðgjöf, nudd, jóga, nálastungur, fræðsla og alls kyns námskeið.

„Vonandi getum við aukið þjónustuna enn meir og stefnum að því meðal annars með getnaðarvarnarráðgjöf,“  segir Embla Ýr. 

AðstaðanAndrúmsloftið á Fæðingarheimili Reykjavíkur er notalegt og heimilislegt, eins og það var á Fæðingarheimili Reykjavíkur fyrir aldamót.

Svöruðu eftirspurn

Eftirspurnin eftir fæðingarheimilinu var mikil og starfsemin fór á fullt eftir opnun. Síðan þá hafa fæðst í kringum 70 börn á heimilinu og fjölda fjölskyldna verið sinnt þar. 

Nafnið, Fæðingarheimili Reykjavíkur, kom til af því að Emma og Embla Ýr vildu heiðra starfsemi Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem var starfrækt á árunum 1960–1995 á Eiríksgötu. 

„Þegar við horfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem var, að þá var mjög mikil frumkvöðlastarfsemi þar,“ segir Emma. „Margt af því sem við teljum eðlilegt í dag byrjaði þar.“

MeðgöngujógaBarnshafandi kona í meðgöngujóga hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur.

Hún nefnir aukna þátttöku feðra í fæðingum, að börn séu hjá mæðrum sínum í stað þess að vera færð í vöggustofur og aukna áhersla á líðan móður.

Embla Ýr bætir því einnig við að þar hafi verið lögð áhersla á heimilislegt og hlýlegt umhverfi og leggja þær mikið upp úr því að skapa slíkt andrúmsloft hjá sér. 

„Þegar við horfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem var, að þá var mjög mikil frumkvöðlastarfsemi þar“
Emma M. Swift
ljósmóðir og framkvæmdastjóri Fæðingarheimilis Reykjavíkur

„Við höfðum samband við einhverjar af ljósmæðrunum sem voru að vinna á Fæðingarheimilinu áður fyrr og spurðum hvað þeim fyndist um að við tækjum upp nafnið. Það voru allir svo styðjandi,“ segir Emma brosandi. Þær hafa einnig fengið fjölda skilaboða frá mæðrum og fyrri starfsmönnum sem lýsa yfir ánægju sinni með að heyra nafnið á ný í samfélagsumræðunni.

Þetta gaf okkur byr undir báða vængi. Okkur þykir mjög vænt um nafnið og að fá að halda áfram því góða starfi sem var.

Miðla reynslu

Í dag starfa fimm ljósmæður á Fæðingarheimili Reykjavíkur og segir Emma þær vinna mikið í teymisvinnu. „Það er gaman að vinna á stað sem manni þykir vænt um með fólki sem manni þykir vænt um. Það eru allir að vinna að sama markmiði með sömu hugmyndafræði.“

Hvað er það besta við að vera frumkvöðlar á þessu sviði?

Embla Ýr svarar því að getan til að heimfæra það sem þær kenna í háskólanum sé þeim kær. „Mér finnst mjög gaman að geta séð þessa þjónustu verða að veruleika. Líka að hafa tækifæri til að geta metið hvort þessi þjónusta sé að skila þeim árangri sem maður vill að hún skili. Mér finnst það dásamlegt.“

FæðingarUppi á vegg í Fæðingarheimili Reykjavíkur má sjá hvaða daga fæðingarvoru í hverjum mánuði.
„Mér finnst mjög gaman að geta séð þessa þjónustu verða að veruleika“
Embla Ýr Guðmundsdóttir
ljósmóðir og stjórnarformaður Fæðingarheimilis Reykjavíkur

Eru þið með ráð til ungra kvenna sem langar að láta frumkvöðladrauma sína rætast?

„Finna sér góðan félaga,“ svarar Embla Ýr um hæl og uppsker gleðilegan hlátur frá Emmu sem samsinnir því. Þær hvetja ungar konur til að vera óhræddar við að hrinda hlutunum í framkvæmd og að leita ráða hjá öðru fólki. 

„Við gerðum það mjög mikið. Verið óhræddar við að finna fyrirmyndir og hafið samband við þær,“ ítrekar Emma. Hún segir það hafa komið þeim á óvart hve margar konur sem þær leituðu til voru tilbúnar að hjálpa. Nú í dag sjá þær fyrir sér að geta gert hið sama fyrir komandi kynslóðir. „Við værum svo til í að miðla öllu sem við höfum gert og við fundum fyrir mjög miklum meðbyr og hjálp á þann hátt.“

Emma og Embla Ýr leggja mikið upp úr því að skapa svigrúm og aðstöðu svo að starfsfólk fái að rækta sína styrkleika og sérsvið í starfi. Á vinnutölvunni sinni uppi í háskóla er Emma með post-it miða sem er lýsandi fyrir hugarfar kvennanna tveggja. Miðinn hefur verið þar frá því að þær Embla Ýr ákváðu að stofna fæðingarheimilið. 

„Þar stendur sem sagt: fæðingarheimili hugmyndahús. Mér finnst það kannski sýna hvernig alveg frá byrjun var það svolítið pælingin að hér geta hugmyndir vaknað og draumar ræst.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Töfrasprotar

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár