Enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar mælist með meira traust en vantraust samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Í öllum tilvikum segjast fleiri bera lítið traust til ráðherra en treysta honum vel. Sá sem kemst næst því að njóta meira trausts en vantraust er Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra úr Framsóknarflokknum, en næstum jafnmargir, 33,6 prósent, segjast treysta honum vel og segjast treysta honum illa, en alls 33,7 prósent aðspurðra sagðist treysta Willum lítið.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem langflestir treysta lítið. Þrír af hverjum fjórum, eða 74,7 prósent svarenda, sögðust vantreysta Bjarna. Hann er líka sá ráðherra sem fæstir nefndu að þeir bæru mikið traust til, en einungis 16,7 prósent treysta Bjarna, sem var fjármála- og efnahagsráðherra í meira og minna áratug þar til í síðasta mánuði þegar hann færði sig yfir í utanríkisráðuneytið, mikið.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, er sá ráðherra sem flestir segjast treysta vel, eða 34,1 prósent. Munurinn á henni og Willum, sem er í öðru sæti á þeim lista, er þó ekki marktækur enda einungis 0,4 prósentustig. Líkt og kom fram í Heimildinni í morgun þá mælist Katrín nú í fyrsta sinn síðan hún tók við sem forsætisráðherra með meira vantraust en traust. Alls segjast 44,7 prósent svarenda bera lítið traust til leiðtoga ríkisstjórnarinnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, nýtur minna trausts en Katrín en meira trausts en Bjarni. Alls segjast 28,7 prósent treysta honum mikið. Sigurður Ingi er sá formaður ríkisstjórnarflokks sem nýtur minnst vantraust. Alls segjast 38 prósent aðspurðra bera lítið traust til hans.
Vonarstjörnur í vanda
Sá ráðherra sem næst flestir bera lítið traust til er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Alls segist annar hver svarandi vantreysta henni. Hún er líka á meðal þeirra ráðherra sem fæstir treysta mikið. Traust til hennar hefur dregist verulega saman síðastliðið ár á sama tíma og vantraust í hennar garð hefur aukist umtalsvert.

Skammt undan kemur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, en 46,8 prósent landsmanna bera lítið traust til hans. Mikill viðsnúningur hefur orðið á vinsældum Ásmundar Einars. Í nóvember 2021 sögðust 63 prósent landsmanna treysta honum vel og í apríl í fyrra var hann eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem meirihluti þjóðarinnar treysti. Nú segjast einungis 26 prósent svarenda treysta mennta- og barnamálaráðherranum vel sem þýðir að viðsnúningurinn á tveimur árum er 37 prósentustig.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælist líka með lítið traust. Einungis 21,9 prósent svarenda treysta honum vel en 39,4 prósent segjast bera litið traust til hans.
Tveir ráðherrar bæta markvert við sig svarendum sem bera mikið traust til þeirra, þótt vantraust í þeirra garð sé í báðum tilvikum umtalsvert meira. Það eru Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Lilja var sá ráðherra sem fæstir, einungis 18,8 prósent svarenda, báru mikið traust til í nóvember í fyrra en nú mælist það hlutfall 27,6 prósent. Vantraust á hana hefur á sama tíma dregist saman úr 50,5 í 38,4 prósent. Hlutfall þeirra sem segjast treysta Svandísi vel hefur farið úr 22,2 í 26,7 prósent milli ára en hlutfall þeirra sem treysta henni lítið hækkað úr 42,8 í 45,3 prósent.
Kjósendur hinna stjórnarflokkanna treysta ekki Bjarna
Eðli málsins samkvæmt þá njóta ráðherrarnir nánast undantekningarlaus meira trausts hjá stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar en á meðal kjósenda stjórnarandstöðunnar. Í tölum Maskínu vekur þó athygli hversu lítið kjósendur hinna stjórnarflokkanna tveggja, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, treysta formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Einungis 19 prósent kjósenda Framsóknarflokks treystir Bjarna mikið og 26,2 prósent kjósenda Vinstri grænna. Síðarnefndi kjósendahópurinn vantreystir Bjarna raunar mjög, en 70,4 prósent þeirra bera lítið traust til hans.
Til samanburðar treysta 62,8 prósent kjósenda Vinstri grænna Katrínu Jakobsdóttur vel sem forsætisráðherra og 49,5 prósent kjósenda Framsóknar eru sama sinnis. Þá segjast 48,5 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks og 45,2 prósent kjósenda Vinstri grænna að þeir treysti Sigurði Inga Jóhannssyni mikið.
Ítarlega er fjallað um traustkönnun Maskínu í prentútgáfu Heimildarinnar sem kemur út í dag.
☻g gargi frussand að kata svikari jakobsdóttir skili nú snarlega lykklunum af valdinu ?