Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Allir ráðherrarnir mælast með meira vantraust en traust

Bjarni Bene­dikts­son er sá ráð­herra sem lang­flest­ir lands­menn vantreysta og fæst­ir treysta. Kjós­end­ur hinna stjórn­ar­flokk­anna bera mun minna traust til hans en kjós­end­ur Sjálf­stæð­is­flokks bera til Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur eða Sig­urð­ar Inga Jó­hanns­son­ar.

Allir ráðherrarnir mælast með meira vantraust en traust
Traustvandi Samhliða því að fylgi stjórnarflokkanna og stuðningur við ríkisstjórnina hefur dalað þá hefur vantraust í garð ráðherra aukist og traust til þeirra dregist saman. Þar eru formenn stjórnarflokkanna ekki undanskildir. Mynd: Golli

Enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar mælist með meira traust en vantraust samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Í öllum tilvikum segjast fleiri bera lítið traust til ráðherra en treysta honum vel. Sá sem kemst næst því að njóta meira trausts en vantraust er Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra úr Framsóknarflokknum, en næstum jafnmargir, 33,6 prósent, segjast treysta honum vel og segjast treysta honum illa, en alls 33,7 prósent aðspurðra sagðist treysta Willum lítið. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem langflestir treysta lítið. Þrír af hverjum fjórum, eða 74,7 prósent svarenda, sögðust vantreysta Bjarna. Hann er líka sá ráðherra sem fæstir nefndu að þeir bæru mikið traust til, en einungis 16,7 prósent treysta Bjarna, sem var fjármála- og efnahagsráðherra í meira og minna áratug þar til í síðasta mánuði þegar hann færði sig yfir í utanríkisráðuneytið, mikið.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, er sá ráðherra sem flestir segjast treysta vel, eða 34,1 prósent. Munurinn á henni og Willum, sem er í öðru sæti á þeim lista, er þó ekki marktækur enda einungis 0,4 prósentustig. Líkt og kom fram í Heimildinni í morgun þá mælist Katrín nú í fyrsta sinn síðan hún tók við sem forsætisráðherra með meira vantraust en traust. Alls segjast 44,7 prósent svarenda bera lítið traust til leiðtoga ríkisstjórnarinnar. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, nýtur minna trausts en Katrín en meira trausts en Bjarni. Alls segjast 28,7 prósent treysta honum mikið. Sigurður Ingi er sá formaður ríkisstjórnarflokks sem nýtur minnst vantraust. Alls segjast 38 prósent aðspurðra bera lítið traust til hans.

Vonarstjörnur í vanda

Sá ráðherra sem næst flestir bera lítið traust til er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Alls segist annar hver svarandi vantreysta henni. Hún er líka á meðal þeirra ráðherra sem fæstir treysta mikið. Traust til hennar hefur dregist verulega saman síðastliðið ár á sama tíma og vantraust í hennar garð hefur aukist umtalsvert. 

Mikið vantraustAnnar hver svarandi segir að hann beri lítið traust til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.

Skammt undan kemur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, en 46,8 prósent landsmanna bera lítið traust til hans. Mikill viðsnúningur hefur orðið á vinsældum Ásmundar Einars. Í nóvember 2021 sögðust 63 prósent landsmanna treysta honum vel og í apríl í fyrra var hann eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem meirihluti þjóðarinnar treysti. Nú segjast einungis 26 prósent svarenda treysta mennta- og barnamálaráðherranum vel sem þýðir að viðsnúningurinn á tveimur árum er 37 prósentustig. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælist líka með lítið traust. Einungis 21,9 prósent svarenda treysta honum vel en 39,4 prósent segjast bera litið traust til hans. 

Tveir ráðherrar bæta markvert við sig svarendum sem bera mikið traust til þeirra, þótt vantraust í þeirra garð sé í báðum tilvikum umtalsvert meira. Það eru Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Lilja var sá ráðherra sem fæstir, einungis 18,8 prósent svarenda, báru mikið traust til í nóvember í fyrra en nú mælist það hlutfall 27,6 prósent. Vantraust á hana hefur á sama tíma dregist saman úr 50,5 í 38,4 prósent. Hlutfall þeirra sem segjast treysta Svandísi vel hefur farið úr 22,2 í 26,7 prósent milli ára en hlutfall þeirra sem treysta henni lítið hækkað úr 42,8 í 45,3 prósent. 

Kjósendur hinna stjórnarflokkanna treysta ekki Bjarna

Eðli málsins samkvæmt þá njóta ráðherrarnir nánast undantekningarlaus meira trausts hjá stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar en á meðal kjósenda stjórnarandstöðunnar. Í tölum Maskínu vekur þó athygli hversu lítið kjósendur hinna stjórnarflokkanna tveggja, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, treysta formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Einungis 19 prósent kjósenda Framsóknarflokks treystir Bjarna mikið og 26,2 prósent kjósenda Vinstri grænna. Síðarnefndi kjósendahópurinn vantreystir Bjarna raunar mjög, en 70,4 prósent þeirra bera lítið traust til hans. 

Til samanburðar treysta 62,8 prósent kjósenda Vinstri grænna Katrínu Jakobsdóttur vel sem forsætisráðherra og 49,5 prósent kjósenda Framsóknar eru sama sinnis. Þá segjast 48,5 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks og 45,2 prósent kjósenda Vinstri grænna að þeir treysti Sigurði Inga Jóhannssyni mikið.

Ítarlega er fjallað um traustkönnun Maskínu í prentútgáfu Heimildarinnar sem kemur út í dag.

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Guðjón Jensson skrifaði
    Þessi ráðherra hefur reynst okkur Íslendingum mjög illa. Hann vanrækti störf sín sem æðsti yfirmaður skattrannsókna en fjármálaráðherra er það. Við fengum engar fréttir af rannsóknum af undanskoti eigna íundan sköttum aflandsfélög og leynireikninga
    0
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Er ekki kominn tími á að bjarN1 benediktson foringi stærstu skipulögðu glæpasamtaka Íslands, sjálfstæðisflokksins fari í ræðupúltið
    ☻g gargi frussand að kata svikari jakobsdóttir skili nú snarlega lykklunum af valdinu ?
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Indriði Þorláksson
4
Aðsent

Indriði Þorláksson

Veiði­gjöld­in og lands­byggð­in

Eng­in vit­ræn rök eru fyr­ir því að hækk­un veiði­gjalds­ins leiði til þess­ara ham­fara, skrif­ar Indriði Þor­láks­son um mál­flutn­ing Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi vegna fyr­ir­hug­aðr­ar breyt­ing­ar á út­reikn­ingi veiði­gjalda. „Að sumu leyti minn­ir þessi púka­blíst­ur­her­ferð á ástand­ið vest­an­hafs þar sem fals­upp­lýs­ing­um er dreift til að kæfa vit­ræna um­ræðu,“ skrif­ar hann.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
1
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu