Markmiðið með rannsókn minni á Eimreiðarelítunni var í upphafi að leita svara við þeirri áleitnu spurningu sem leitaði ákaft á huga minn eftir hrunið 2008: Var spilling orsök hrunsins?
Þar sem elíta Davíðs Oddssonar var yfirburðavaldaelíta í landinu áratugina fyrir hrun var eðlilegast að leita fótfestu í kenningum um valdaelítur (power elites). Kenningum um það hvernig ráðandi aðilar á hverju valdssviði fyrir sig ynnu saman og hefðu í samráði bak við tjöldin mátt til að hafa afgerandi áhrif í samfélaginu.
Elíta eru í þeim skilningi valdakjarni sem stýrir smáu eða stóru samfélagi óformlega, eftir eigin áformum, þvert á stjórnskipun og formlegt valdsumboð. Ákvarðanir elítunnar eru leynilegar, hvergi skráðar, óljóst ræddar og ekki í umboði neins nema elítunnar sjálfrar.
Stjórnendur í valdamestu stofnunum landsins
Í valdaelítum eins og Eimreiðarelítunni eru æðstu stjórnendur í valdamestu stofnunum landsins. Aðilar sem gegna mörgum hlutverkum í nefndum og stjórnum á vegum hins opinbera um leið og þeir sjálfir eða nátengdir aðilar stýra fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Eimreiðarelítan er ótrúlegt dæmi um slík allt-umlykjandi völd og hvernig í þau er markvisst sótt yfir langan tíma með öllum ráðum, þar á meðal lagabreytingum.
Harðasti kjarni elítunnar stýrði löggjafarvaldinu, dómsvaldinu, framkvæmdavaldinu og þekkingarvaldinu að miklu leyti, auk þess að stýra stærstu samtökum atvinnurekenda og hafa beint og óbeint óhemju völd í atvinnulífinu.
Lykilákvarðanir í slíkum valdakjörnum eru gjarnar teknar leynilega, oft fyrir fram. Valdaelítur þjóna hagsmunahópi sínum af hörku, hunsa málamiðlanir og fara miskunnarlaust gegn hagsmunum stórra hópa samfélagsins.
Nefndin greindi spillingu valdakjarna
Rannsóknarnefnd Alþingis sá og greindi spillingu margra slíkra valdakjarna og var því í lófa lagið að svara áleitnustu spurningum þjóðarinnar en svarið um spillinguna kom aldrei. Að minnsta kosti ekki skýrt og greinilega. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var að þensla bankakerfisins hafi orsakað hrunið og að nokkrir stjórnmála- og embættismenn hefðu hugsanlega sýnt af sér vanrækslu.
Óskýrt svar rannsóknarnefndar Alþingis leiddi til þess að engin sátt hefur myndast um orsakir hrunsins, enda getur þensla ekki borið ábyrgð á hruni. Gerandann hefur vantað.
„Lygn streymdi spillingin um valdakima íslenskra stjórnmála og viðskiptalífs niður í djúpan pytt, þar sem lítil klíka valdgráðugra karla ræktaði græðgina.“
Nýleg heimildarmynd á RÚV, Baráttan um Ísland, lýsir ástandinu vel. Reynt er að halda í þá mynd sem stjórnmálamenn drógu upp strax í hruninu miðju: 30-40 útrásarvíkingar orsökuðu hrunið ásamt Bretum, Hollendingum og öðrum útlendingum en í myndinni var jafnvel gengið svo langt að draga sterklega í efa lagalega ábyrgð bankamanna (dóma þeirra). Áleitinna spurninga var ekki spurt.
Á sama veg var nýlegt viðtal Morgunblaðsins við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta í áratugi í kringum hrunið, þar sem hann lýsti Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands þegar Icesave deilan reis hæst, sem „thug“ (bófi, óþokki, fantur, ómenni, þorpari). Augljóslega til að undirbyggja söguskýringu blaðsins og ritstjórans Davíðs Oddssonar um ábyrgð Breta á allsherjarhruninu.
Opinber gögn afgerandi sönnun um stórspillingu
Sjálfur var ég staðráðinn í að fylgja sannfæringunni, afhjúpa sögufalsanir og komast að niðurstöðu um áhrif spillingarinnar á hrunið. Rannsóknarskýrsla Alþingis var sláandi og stórspillingin blasti við hverjum þeim sem vildi horfast í augu við hana. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvers vegna spillingin fengi ekki meira pláss meðal íslenskra fræðimanna og stjórnmálaskýrenda. Spillingin á Íslandi varð stöðugt augljósari með sjokkerandi afhjúpunum íslenskra og alþjóðlegra blaðamanna.
Ég komst fljótlega á þá skoðun að vegna þess hve opinberu gögnin væru afgerandi sönnunargögn um stórspillingu hlyti vandi þjóðarinnar að vera skilningurinn. Þess vegna ákvað ég að gefa Íslendingum víða og heildstæða mynd af spillingunni á Íslandi um nokkra áratugi fyrir hrun og að nokkru eftir hrun. Ég gerði mér grein fyrir að margir myndu kannast við margt af sögunni en eitt er að vita og annað er að skilja samhengið.
Þegar ég komst svo yfir mögnuð trúnaðargögn úr Landsbankanum, þar sem hægri hönd Davíðs og vinstri hönd Geirs, Kjartan Gunnarsson, deildi og drottnaði, bar allt að sama brunni. Lygn streymdi spillingin um valdakima íslenskra stjórnmála og viðskiptalífs niður í djúpan pytt, þar sem lítil klíka valdgráðugra karla ræktaði græðgina.
Þetta varð að skrifa. Netið teygði sig um æðstu stjórn íslensks fjármálalífs og stjórnmála.
Spilling mesta efnahagsvandamál heimsins
Eftir því sem rannsókninni vatt áfram og vísbendingarnar hrönnuðust upp fór ég að velta fyrir mér hvort samhengið væri ekki enn stærra. Hvort elítuspilling væri ekki hinn stóri spillingarvandi Íslands og jafnvel hins vestræna heims. Ég reyndi því að víkka sjónarhornið, þenja linsuna enn meira og mynda tengingar fyrir lesandann út í heim.
„Spilling er mesta efnahagsvandamál heimsins – og þá alveg sérstaklega Íslands.“
Einhverjum finnst kannski vanta spillingu klíku framsóknarmanna sem ég fjalla nánast ekkert um eða spillingu vinstri flokkanna sem ég fjalla lítillega um. Því er til að svara að svigrúm til þess reyndist takmarkað þar sem völd Eimreiðarelítunnar voru svo gífurleg og spönnuðu svo langt tímabil að þess eru fá eða engin dæmi um völd jafn lítils hóps í vestrænu lýðræðisríki. Ekki var einu sinni svigrúm til að fara af nákvæmni í gegnum valdaferil elítunnar heldur aðeins til þess að taka stikkprufur og vona að það nægði til að skýra heildarmyndina og rót spillingarinnar í landinu.
Nú er mér þegar ljóst, miðað við stórkostlega jákvæðar móttökur, að ég hef opnað augu margra og staðfest grun enn fleiri. Sumir tala um að gera bókina að skyldulesningu í skólum, aðrir um að búa til námskeið í háskóla, enn aðrir um að bókin geti breytt sýn þjóðarinnar á samfélagið, til hins betra, og einhverjir jafnvel að þeim líði betur í sálinni eftir lesturinn, þótt þeir væru ósammála mörgu!
Niðurstaða rannsóknarinnar kom mér sjálfum á óvart að því leyti að ég gerði mér engan veginn grein fyrir því óhemju fjármagni sem var undir í spillingunni fyrir hrun þrátt fyrir að vita af tæmingu Seðlabanka Íslands, svikum gagnvart Seðlabanka Evrópu og Icesave-svikunum. Stjarnfræðilegar fjárhæðir samtals.
Í lok skrifanna hugsaði ég: Já, það er líklega rétt. Spilling er mesta efnahagsvandamál heimsins – og þá alveg sérstaklega Íslands.
Kjartan var bara fígúra. Davíð var í raun bankaráðsformaður. Lét loka á Jón Ólafsson seinna vatnssala vegna þess að hann neitaði að gefa 5 milljónir til flokksins. Eftir það fór róðurinn hjá honum að þyngjast. Kjartan og Hannes H heimsóttu hann og föluðust eftir fénu.
Það er ennþá óuppgert mál hvernig og ekki síst af völdum hverra, heimili landsins og blásaklaust fólk voru látin sæta afleiðingum hrunsins, en ekki bara þau sem báru ábyrgð á því.