Palestínska verðlaunaskáldinu Mosab Abu Toha var, samkvæmt erlendum miðlum, sleppt úr haldi Ísraelshers síðasta þriðjudag eftir tveggja daga yfirheyrslur. En samkvæmt frétt frá CNN hefur ísraelski herinn staðfest að hafa handtekið hann og yfirheyrt og sakað hann um að vera í samskiptum við hryðjuverkasamtök, ásamt tvö hundruð öðrum. Mosab hafði fjallað um ástandið og líf sitt á Gaza á meðan stríðið hefur staðið yfir fyrir erlenda miðla á borð við The New Yorker.
Hann hafði lýst í smáatriðum hvernig Gaza blasti við honum, hvernig æskuheimilið hans var sprengt í tætlur ásamt tímabundnu heimili hans og fjölskyldu hans í Jabalia flóttamannabúðunum. Diana Buttu, fjölskylduvinur og lögfræðingur segir í samtali við The New York Times að honum hafi líklegast verið sleppt vegna „opinbers þrýstings“, meðal annars frá The New Yorker, þar sem Mosab Abu Toha skrifaði fyrir miðilinn, sem og PEN America samtökunum. „Hann var yfirheyrður og hann var laminn,“ segir Diana Buttu við New York Times. „Þeir börðu hann í magann. Þeir börðu hann í andlitið nokkrum sinnum,“ segir hún. Í fréttinni er einnig tekið fram að tugir fjölskyldna sem lagt höfðu leið sína til suður Gaza til að flýja, hefðu tilkynnt um hvarf sona sinna, eiginmanna og feðra, sem þær sögðu enga tengingu hafa við vopnasveitir, eða Hamas.
Skotið að eiginkonu Mosab
Diana Buttu segist hafa verið í samskiptum við Mosab eftir að honum var sleppt og hann hafi lýst því fyrir henni að á sunnudaginn síðasta hafi hann verið handtekinn, settur í bíla merktum ísraelska hernum og hann keyrður burt til suður Ísrael en allir í þeim bílum voru með bundið fyrir augum. Ísraelski herinn hefur staðfest að Mosab var í haldi í suður Ísrael í fangabúðum.
Þegar honum var sleppt var engum öðrum sleppt úr haldi á sama tíma, segir hún. Eiginkona Mosab, lýsir handtökunni fyrir New York Times, að Mosab hafi verið með þriggja ára son sinn í fanginu þegar hermenn kölluðu til hans og honum skipað að setja hann frá sér. Þegar herinn tók hann í burtu öskraði sonur hans á eftir honum, eins og konan hans orðaði það í samtali við miðilinn. Þá lýsir hún því hvernig hún var hrædd um eigið líf þegar hún hljóp á eftir syni þeirra sem sat á jörðinni. Herinn hefði hótað henni að skjóta á hana og skotið aðvörunarskotum í jörðina.
Eins og Heimildin greindi frá fyrr í vikunni var Mosab og fjölskylda hans á lista bandaríska utanríkisráðuneytisins yfir þá sem máttu fara yfir landamærin við Rafah en Mosab og fjölskylda hans höfðu búið í Bandaríkjunum áður en þau fluttu aftur til Gaza en yngsti sonur þeirra er bandarískur ríkisborgari. Þegar honum var sleppt úr haldi á þriðjudag var ísraelsher búinn að taka af honum vegabréfið og vegabréf allra í fjölskyldu hans.
Athugasemdir (1)