Í umræðu um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, strætó, borgarlínu eða lest, þá er oft spurt hvort við höfum efni á almenningssamgöngum og menn veifa alls kyns milljörðum. Fyrirbæri eins og sporvagnar sem þykja eðlilegir og sjálfsagðir, ekki aðeins í stórborgum nágrannalandanna heldur jafnvel í austur-evrópskum smáþorpum, er talin einhvers konar útópía hérlendis, ígildi geimferðaráætlunar vegna þess að það þykir svo mikil fjarstæða. Þannig tölum við núna um eitthvað sem heitir borgarlína, en það er strætó sem þykist vera lest, vegna þess að við höfum víst ekki efni á alvöru lest.
Það gleymist hins vegar að tala um að við eigum nú þegar eins konar lestarkerfi en það er íslenska bílalestin. Ólíkt venjulegum lestum, sem eru kannski 100 metra langar, þá er bílalestin okkar margfalt lengri og hún birtist okkur ekki síst á morgnana. Þá nær hún samfleytt frá Borgartúni inn í Hafnarfjörð og frá Vatnsmýri inn í Mosfellsbæ.
„...eitthvað sem heitir borgarlína, en það er strætó sem þykist vera lest, vegna þess að við höfum víst ekki efni á alvöru lest.“
Á Íslandi eru meira en 300.000 bílar í umferð, þeir eru um það bil 5 metrar á lengd að meðaltali. Það þýðir að bílalestin okkar er samtals meira en 1.500 km löng, Þjóðvegur 1 er hins vegar ekki nema 1.321 km. Þannig að bílalestin á höfuðborgarsvæðinu gæti myndað tvöfalda röð alla leið til Akureyrar ef við þyrftum til dæmis að rýma borgina skyndilega.
Ef meðalverð á hverjum vagni í bílalestinni er 6 milljónir, þá kostar bílalestin okkar 1.800 milljarða á hverjum 10 árum, bara í endurfjármögnun á hverjum vagni í lestinni. Þá er ekki búið að tala um kostnað við olíu, malbik, slaufur, tvöfaldanir, slys, loftmengun og mengunina við framleiðslu á vagni fyrir hvern einasta mann.
Sætanýtingin í bílalestinni er fremur lítil, yfirleitt um 20% vegna þess að yfirleitt situr bara einn í hverjum vagni þrátt fyrir fimm sæti. Ólíkt venjulegum lestum sem er alltaf á ferðinni er hver vagn aðeins notaður tvisvar á dag. Þannig að miðað við heilan dag er hún kannski 1 prósent.
Einu sinni bjó framsýnt fólk til eitthvað sem heitir Hitaveita Reykjavíkur. Í stað þess að hver og einn ætti sér sína eigin „fjölskyldukyndingu“ og frelsi til að hita húsið sitt með kolum, gasi, olíu eða mó – þá var vandamálið leyst með svokallaðri framsýni. Það væri geggjað ef við ættum einhverja slíka sýn í dag.
Athugasemdir (5)