Um 180 Venesúelabúum var flogið frá Íslandi í gær. Fólkið er nú komið til heimalandsins en þar fékk það ekki góðar móttökur, samkvæmt þeim Venesúelabúum sem Heimildin hefur rætt við.
Flugið var á vegum Útlendingastofnunar og evrópsku landamærastofnunarinnar Frontex.
„Ég þarf á hjálp þinni að halda,“ segir í skilaboðum sem einn Venesúelabúanna sendi blaðamanni í gærkvöldi. Hann sagði að fólkið hefði verið stöðvað á flugvellinum og peningar teknir af því.
Á vellinum segir fólkið að lögreglan hafi tekið á móti þeim og að þau hafi verið færð í húsnæði þar sem þeim er gert að dvelja næstu tvo daga. Fólk úr hópnum hefur verið yfirheyrt ítrekað og þeim gert að skrifa undir fjölmörg skjöl án lögfræðiaðstoðar, samkvæmt upplýsingum sem Heimildin hefur fengið frá fólki á staðnum.
Myndskeið frá vellinum
Í nokkur ár veittu íslensk stjórnvöld nánast öllum þeim Venesúelabúum sem sóttu hér um hæli viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í Venesúela. Fyrr á þessu ári staðfesti kærunefnd útlendingamála nokkra neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar í málum Venesúelabúa.
Þessu hafa Venesúelabúar mótmælt harðlega enda eru aðstæðurnar í Venesúela enn mjög slæmar, glæpatíðnin þar er ein sú hæsta í heimi, fáir hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu og flestir almennir borgarar eiga erfitt með að mæta grunnþörfum sínum.
Fjöldi hælisumsókna venesúelskra ríkisborgara hér á landi hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum – þær fóru úr 14 árið 2018 í 1.209 í fyrra en frá janúar til september á þessu ári voru þær enn fleiri: 1.318. Eftir að kærunefnd útlendingamála staðfesti neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar fór umsóknunum að fækka.
Athugasemdir (3)