Ævintýrið
Dásamlega skrýtið og heillandi verk. Ævintýri fyrir alla aldurshópa.
Ævintýrið á sér stað í heitasta landi í heimi. Það land gæti verið á mörgum stöðum á jarðkringlunni, en vitaskuld kemur þriðji heimurinn upp í hugann, auk þess sem það hvarflaði að svartsýnum lesanda að um framtíðarskáldskap væri að ræða.
Drengurinn býr ásamt foreldrum sínum í alræðisríki þar sem misskipting auðs er himinhrópandi. Drottning og ráðherrar hennar setja lögin og fólkið verður að samþykkja þau, annars er þeim að mæta og það vill enginn. Drottningin býr í höll, en flestir þegnar hennar í hreysum. Mikil fátækt er og atvinnuleysi í landinu, en foreldrar Drengsins eru svo ljónheppin að hafa vinnu. Þau eru þrælar ferðamannaiðnaðarins á Hvítu höfrungaströndinni, leggja sig fram um að spyrja ekki spurninga og hvetja son sinn til þess að vera ekki með röfl, tuð eða vesen. „Hugsaðu ekki um reglurnar, farðu eftir þeim“ er þeirra viðkvæði. Enda eru þeir sem brjóta reglurnar fluttir með hervaldi í Kastalakjallarann …
Athugasemdir