Almannavarnir hafa boðað rýmingu á öllum íbúum í Grindavík. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, kynnti rýminguna á blaðamannafundi almannavarna rétt í þessu.
Stór kvikugangur er talinn teygja sig frá Sundhnúkagígum og undir byggðina í Grindavík. „Þarna er á ferðinni mjög mikil kvika,“ segir Víðir.
„Ég ítreka það að þetta er ekki neyðarrýming. Það er ekki bráð hætta yfirvofandi og rýmingin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi öryggisráðstöfun. Akið varlega, það er dimmt, og margir verða á ferðinni. Förum okkur í engu óðslega.“
Hann ítrekaði að fólk ætti að gæta að nágrönnum sínum og merkja heimili sín rýmd. „Takið upp gangandi fólk ef rými er í bílnum.“
Atburður sem þessi hefur ekki átt sér stað síðan í Vestmannaeyjagosinu 1973.
Eins og Heimildin greindi frá fyrr í kvöld hafði skjálftavirknin á Reykjanesskaganum færst beint undir fæturna á fólki í Grindavík og var henni lýst sem öldugangi. Fyrir skemmstu voru eldri borgarar á dvalarheimilinu Miðgarði fluttir burt í snatri.
Uggvænleg mynd af skjálftasíðu Veðurstofu Íslands sýnir hvernig jarðskjálftavirkni hefur smám saman flust undir byggðina í Grindavík síðasta sólarhringinn. Síðustu fjórar klukkustundir hafa skjálftar yfir 3 að stærð fyrst og fremst mælst beint undir bænum.
Ekki hafa borist svör frá almannavörnum um merkingu þess. Samkvæmt fréttum Vísis hefur verið tekin ákvörðun um að rýma Grindavík í heild sinni.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands sagði að neyðarstigi hefði verið lýst yfir, sem síðar var staðfest.
„Vísbendingar eru um að kvikugangurinn sé kominn undir Grindavík. Neyðarstigi hefur verið lýst yfir og rýming er að hefjast.“
Fyrr í kvöld sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að „ef það verður gripið til rýminga þá mun það ekki fara á milli mála“.
Almannavarnir greindu frá því fyrr í kvöld að kvikugangur væri að brjóta sér leið í átt að yfirborðinu nærri Sundhnúkagígum, sem liggja um 3 kílómetrum frá byggðinni. Sprungan liggur í átt að bænum.
Björgunarsveitin Þorbjörn sendi fá sér eftirfarandi tilkynningu á Facebook rétt í þessu.
„Aðstæður í Grindavík þessa stundina eru ekki eðlilegar. Það er gríðarlega löng og öflug jarðskjálftahrina í gangi núna sem sér ekki fyrir endan á.
Okkar fólk ásamt öflugum hópum frá öðrum björgunarsveitum á Suðurnesjum eru til taks í Grindavík og hafa verið að sinna minniháttar verkefnum. Mikill fjöldi fólks hefur yfirgefið heimili sín en sem stendur er engin rýming í gangi og fólki óhætt að snúa til baka eins og þeim hentar.
Íþróttahúsið í Grindavík er opið og þar getur fólk safnast saman.
Ef fólk situr heima í Grindavík og getur ekki yfirgefið heimili sitt vegna einhvers en vill komast í burtu þá er fólk beðið að hafa samband við 112 og óska eftir aðstoð. Fjöldahjálparstöðvar hafa verið opnaðar í Reykjanesbæ, Kópavogi og á Selfossi og hvetjum við fólk til þess að leita þangað ef því vantar samastað.
Að lokum hvetjum við alla Grindvíkinga til þess að kanna ástandið á sínu nánasta fólki og nágrönnum.“
Athugasemdir