Dýnur, koddar, matarílát og tjald er meðal þess sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fann í kjallaranum að Sóltúni 20 þegar það fór þangað í eftirlitsferð í haust vegna ábendinga um ólykt frá kjallaranum. Í bréfi frá heilbrigðiseftirlitinu til þrifafyrirtækisins Vy-þrif ehf., sem var með húsnæðið á leigu, segir að þetta séu dæmi um „vísbendingar um að fólk hafi dvalið á staðnum.“ Þar segir einnig að matvælafyrirtæki séu hvorki ætluð til íbúðar eða gistingar, og að lögreglan hefur verið upplýst um málið.
Keypti gamla Herkastalann
Eigandi Vy-þrifa er Davíð Viðarsson. Hann breytti nýverið nafni sínu en hann hét áður Quang Le. Davíð er stórtækur í veitingarekstri á Íslandi. Hann hefur rekið veitingakeðjuna PhoVietnam, á Vietnam Market á Suðurlandsbraut og á 40% hlut í Wok On Mathöll ehf. Þá á hann fasteignafélagið, NQ fasteignir ehf., áður KSH fasteigir ehf., sem fyrir tæpum tveimur árum keypti fasteignina við Kirkjustræti 2, sem áður hýsti Hjálpræðisherinn, á um hálfan milljarð króna. Við kaupin var gefið út að þar ætti að reka hótel og mathöll.
Rottuskítur og rottuþvag
Samkvæmt gögnum frá heilbrigðiseftirlitinu liggur fyrir að Vy-þrif hafði ekki sótt um starfsleyfi til að geyma matvæli í kjallara að Sóltúni 20, en í eftirlitinu kom í ljós að þar var geymt mikið magn matvæla,, bæði þurrvara og frystivara. Húsnæðið var óhreint, ekki meindýrahelt og áttu skaðvaldar, svo sem nagdýr, greiðan aðgang undir vörudyr en einnig upp um opin niðurföll. Greinileg ummerki voru um meindýr á staðnum, bæði rottuskítur og rottuþvag út um allt og ofan á umbúðum matvæla. „Í ljós kom að bæði lifandi og dauðar rottur og mýs voru á staðnum. Við skoðun á matvælum voru greinileg merki um að meindýr höfðu nagað sig í gegnum umbúðir,“ segir í áðurnefndu bréfi.
Við rannsókn málsins hjá heilbrigðiseftirlitinu hefur komið í ljós að í húsnæðinu voru meðal annars geymd 4.912 kg af matvælum sem nýlega voru innflutt til landsins, matvæli sem að mati heilbrigðiseftirlitsins voru ætluð til dreifingar enda magnið slíkt að ólíklegt væri að þau væru ætluð til einkanota. Ljóst er því að mati heilbrigðiseftirlitsins að húsnæðið var notað til geymslu matvæla sem ætluð voru til dreifingar og neyslu en sú skýring leigutaka að matvælin væru þarna geymd fyrir förgun verður ekki talin trúverðug með hliðsjón af gögnum málsins.
Alvarleg brot sem gætu ógnað neytendum
Að mati heilbrigðiseftirlitsins hefur Vy-þrif brotið fjölmörg ákvæði matvælalaga og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim. Um er að ræða alvarleg brot sem gætu hafa ógnað öryggi neytenda og valdið þeim heilsutjóni ef matvælin hefðu ratað til neytenda með beinum eða óbeinum hætti.
Vy-þrif ehf hefur frest til 14. nóvember til að afhenda heilbrigðiseftirlitinu allar upplýsingar um dreifingu matvæla frá Sóltúni.
Þegar matvælunum í kjallaranum var fargað hafði Davíð óskað eftir því að fá sjálfur starfsfólk til að farga þeim, frekar en að verktakar á vegum heilbrigðiseftirlitsins gerðu það.
Skortur á kunnáttu
Þann 29. september þegar förgunin átti að fara fram mættu í upphafi dags tveir starfsmenn í kjallara Sóltúns 20 til að vinna að förguninni. Til staðar var gámur, lyftari og brettatrilla en kunnátta starfsmanna á tækin virtist vera af skornum skammti. Framkvæmdin gekk hægt og þrátt fyrir leiðbeiningar heilbrigðisfulltrúa um það sem betur mætti fara, féllu vörur iðulega af brettum, umbúðir rofnuðu og matvæli dreifðust víða.
Mikill rottugangur var á staðnum, mest í leyni bak við hurðir, bretti og aðra hluti, en þegar bretti voru færð úr stað skutust þær undan og út úr þeim. Starfsmenn voru ekki í viðeigandi hlífðarfatnaði og virtust veigra sér við að taka upp matvælasekki, en fyrir kom að út úr þeim skytust meindýr. Sum meindýranna lentu í gildrum sem búið var að koma fyrir í húsnæðinu og þurfti heilbrigðiseftirlitið að aflífa eina rottu sem var föst í gildru.
Fylltu bakpoka af matnum
Um hádegi var búið að fylla einn gám og tveir starfsmenn bættust við fyrir hönd eiganda lagers en þrátt fyrir það gekk áfram illa að koma matvælunum út í gám. Á þeim tímapunkti kom í ljós að starfsmenn við förgunina voru að koma matvælum undan og höfðu hent matvælum í nærliggjandi runna, fyllt bakpoka með matvælum og komið þeim fyrir á ýmsum stöðum utan rýmisins.
Á svipuðum tímapunkti voru starfsmenn inni á matvælalagernum sem virtu fyrirmæli heilbrigðisfulltrúa að vettugi og reyndu jafnvel að taka af þeim matvæli sem þeir voru að skrá og mynda á staðnum. Báðust þeir afsökunar og sögðu að um mistök væri að ræða.
Starfsmenn þeir sem voru við förgunina virtu skýr fyrirmæli að vettugi og að sögn Davíðs einnig hans skýru fyrirmæli, að því er segir í gögnum heilbrigðiseftirlitsins.
Heilbrigðiseftirlitið tók því ákvörðun um að stöðva förgunina og innsiglaði húsnæðið. Þann 2. október komu síðan verktakar á vegum heilbrigðiseftirlitsins sem sáu um förgunina.
Staðfest er að 19.160 kg af matvælum ásamt brettum og umbúðum fóru í förgun, þar af voru matvæli skráð minnst 18.198 kg.
Athugasemdir